12.05.1975
Efri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3875 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

255. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta hv. ræðumanns um að rekstrarlán þau, sem sauðfjárbændur njóta, eru og hafa verið ófullnægjandi, og við getum vafalaust sagt að svo er mjög víða í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins og hefur verið á undanförnum árum. En nú er búið að ákvarða nokkra hækkun á þessum lánum. Eins og er skiptast þau í nokkra flokka: Svokölluð bein rekstrarlán sem ákveðið hefur verið að hækka um 100%. Viðbótarlán við þessi beinu rekstrarlán sem sömuleiðis hækka um 100%, svokölluð fóðurbirgðalán sem veitt eru til þess að gera verslunarfélögum á þeim hluta landsins, þar sem hafíshætta er mest, kleift að liggja með meiri fóðurbirgðir en ella. Ákveðið hefur verið að hækka þau lán um 44%. Og svokölluð uppgjörslán, sem hafa átt að auðvelda verslunarfyrirtækjunum að gera upp við bændur í aðalatriðum á vordögum sauðfjárafurðir frá síðasta hausti. Þau hafa verið hækkuð úr 283 millj. í 408 millj. Ég hef ekki prósenttölu á þeirri hækkun hér. Vegin meðalhækkun á þessu er um 70%. Mér er ljóst að full þörf hefði verið að hækka þessi lán meira, en tel þó sjálfsagt að segja frá þessum hækkunum hér og geta þess að þetta er spor í rétta átt.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Það er öllum ljóst, eins og fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að það eru miklir fjármunir sem til þess þarf að brúa það langa bil sem verður hjá sauðfjárbændum, frú því að þeir leggja upphaflega í kostnað við framleiðslu sína og þangað til hún kemur til greiðslu, og þess vegna óhjákvæmilegt annað en þessir menn fái rekstrarlán. Þó að ég segi þetta, þá er mér jafnframt ljóst að það eru örðugleikar á að veita öllum atvinnuvegum í landinu þá rekstrarfjárlegu fyrirgreiðslu sem þeir vissulega þurfa, og þá fyrirgreiðslu, sem mundi mjög auðvelda atvinnureksturinn, og vantar mikið á að sú hækkun, sem nú verður, geri þennan atvinnuveg auðveldan. En svo mun vera í nær öllum atvinnugreinum í landinu.