12.05.1975
Efri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

255. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir hans við þessari till. og fyrir upplýsingar sem hann veitti hér. Í þessum upplýsingum kom fram að ákveðin hefði verði hækkun lána sem næmi að krónutölu, skildist mér, 70% — að þar væri um að ræða 70% aukningu að krónutölu á lánum. Ég tek undir það að sérhver hækkun hlýtur að teljast spor í rétta átt, en ég er hins vegar ósköp hræddur um að þegar á allt er lítið og þegar dæmið er reiknað í heild sinni muni þarna vera um að ræða mjög lítið spor til að rétta það sem aflaga hefur farið á liðnum árum. Ég veit ekki einu sinni hvort þessi hækkun nægir til að vega upp á móti þeim kostnaðarhækkunum sem orðið hafa á þessu eina ári, en þó kann það að vera. Ég bendi á það, eins og ég gerði reyndar í ræðu minni áðan, að áburðarverðið eitt hefur hækkað um yfir 76% og margir kostnaðarliðir hafa hækkað álíka, sumir meira, sumir miklu meira, eins og olíukostnaður og bensínkostnaður. Enda þótt það sé ógerningur fyrir okkur hv. þdm. að gera okkur neina grein fyrir því af ágiskun hvort þarna hafi eitthvað áunnist, miðað við það sem áður var, eða hvort þetta sé einungis til að halda í við kostnaðarhækkanir, þá er þó hitt ljóst að ávinningurinn er í öllu falli mjög lítill ef hann er einhver. Staðreyndin er sú að atvinnuvegirnir almennt hafa átt við mikla rekstrarerfiðleika að etja, m.a. vegna skorts á rekstrarfé. En þó er sá munur á hvað snertir það vandamál, sem hér er til umr., að fyrirgreiðslan hefur verið ákveðin í krónutölu og hefur þess vegna farið rýrnandi ár frá ári, jafnvel þótt krónurnar hafi farið hækkandi, en á flestum öðrum sviðum er um að ræða að rekstrarlán séu miðuð við verðmæti framleiðslunnar og þannig verði um sjálfkrafa hækkanir að ræða í kjölfar verðbólgunnar. En þetta hefur sem sagt ekki verið á þessu sviði framleiðslunnar og þar af leiðir að lánin hafa rýrnað. En hvort þau gera það í þetta sinn eða hvort um er að ræða áfanga fram á við, um það treysti ég mér ekki til að slá neinu föstu.