12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3892 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að þessi till. hefur verið lögð fram af hv. iðnn. í því formi sem hún er.

Ég gerði grein fyrir því í umr. um þetta mál í vetur að ég teldi það vera þrjú atriði sem fyrst og fremst skiptu máli í sambandi við þessar rannsóknir. Í fyrsta lagi, að gerð yrði rannsóknaáætlun um Fljótsdalsvirkjun eins og hér er lagt til að gert verði, í öðru lagi að sú rannsókn væri framkvæmd undir stjórn íslendinga, og í þriðja lagi að höfð væru náin samráð við heimamenn á Austurlandi um framgang málsins. Það varð samkomulag um það hér í vetur að leggja til að málið yrði afgreitt á þennan veg. Eins og hv. 3. þm. Austurl. gat um áðan dró hann til baka virkjunarþátt málsins að svo komnu máli. Við erum þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að rannsóknin fari fram og þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir fái menn færi á að staldra við og gera sér grein fyrir því hvernig hagnýtast og skynsamlegast yrði að nýta þá möguleika til orkuvinnslu sem þarna kunna að vera.