27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

41. mál, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram þótt ég taki hér til máls vegna þessa frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., að ég er síst að hafa á móti málinu þótt ég geri nokkrar aths. við það og ræði málið nokkuð í heild, einfaldlega vegna þess að það sem hér er lagt til. er í raun, ef ekki er tekið tillit til prósentutölunnar sem lögð er til í frv., — er í raun till. sjómannadagssamtakanna sjálfra á sínum tíma, fyrir 12–13 árum. Þau lögðu til að það yrði ákveðinn hluti og þá var talað um 10–15–20% vegna hinna miklu framkvæmda sem þá áttu sér stað hér í Reykjavík og hafa reyndar ekki minnkað, þótt þær séu á svæði í næsta kjördæmi, og hafandi það í huga líka að þarna vistast fólk af öllu landinu, ekki frekar úr einu sveitarfélagi en öðru, eins og tölur hafa sýnt á undanförnum árum og hafa legið fyrir um. En þessar till. voru á þann veg að vegna hinna miklu viðskipta, sem þetta happdrætti átti í hinum ýmsu sjávarplássum allt í kringum landið, þá væri rétt að eitthvað kæmi til baka til þeirra til þess að standa undir nauðsynlegum byggingum sem þessi samtök hafa alltaf verið fylgjandi að ættu að vera á sem flestum stöðum, byggingar fyrir aldraða, þótt við hins vegar teljum að ekki verði auðvelt að vera með fullkomin elliheimili nema t.d. þar sem læknamiðstöðvar eiga eftir að rísa.

Þessi till. náði ekki fram að ganga. Hins vegar varð það úr að stofnaður var með lögum Byggingarsjóður aldraðra, sem hefur nú í 11 ár fengið 40% af tekjum happdrættisins til ráðstöfunar og öllum viðkomandi sveitarfélögum hefur verið í lófa lagið að sækja um að fá úr. Út kemur í sambandi við flutning frv. að lagt er til, vegna þess að samkv. því mun þessi byggingarsjóður ekki fá framar tekjur frá happdrættinu, að tekjur, sem hugsanlega gætu runnið út um land, eigi að minnka um 10%, úr 40% í 30%.

Í sjálfu sér tel ég það rétt spor og hefði jafnvel verið reiðubúinn til þess — og á máske eftir að gera það — að flytja till. um að þessi prósenta verði rýrð vegna þeirra miklu framkvæmda sem verið er að fara í á vegum þessara samtaka, ekki með beinni aðild sveitarfélaganna í öðru formi, heldur af því að tvö sveitarfélög hafa sýnt okkur mikla velvild með því að láta samtökin hafa lóð án skuldbindinga, án þess að þurfa að standa undir greiðslum, láta samtökin hafa lóð undir þetta væntanlega heimili ásamt lögnum þar að. Þarna er að sjálfsögðu átt við Hafnarfjörð og Garðahrepp. Hins vegar hefur aðeins eitt sveitarfélag þar að auki viljað taka þátt í þessu með beinu fjárframlagi.

Þau lög, sem voru samþ. hér fyrir nokkrum missirum á Alþ. um styrk til dvalarheimila aldraðra, eru hins vegar þannig gerð eða hljóða þannig að það eru aðeins sveitarfélög sem eiga kröfu á að fá þennan styrk. Hins vegar er heimilt að leita til áhugamannasamtaka og slíkra hópa eins og standa að byggingu Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Það er heimild til þess, en hins vegar er krafan fyrir hendi frá sveitarfélögunum, þannig að þau virðast hafa þarna nokkurn rétt fram yfir þá sem hafa fremstir staðið í þessum málum á undanförnum árum.

Þegar talað er um skiptingu slíkra tekna ber auðvitað að hafa líka í huga hvaðan þessar tekjur koma. Það hefur verið nú um nokkuð langt árabil að tekjur happdrættis DAS hafa verið um og yfir 70% úr þessum tveimur kjördæmum sem um er getið í frv. að eigi ekki að fá hlut úr þessum 30%, — að sjá tekjuhluti, sem þaðan hefur komið, hefur verið, eins og ég segi, um og yfir 70%. Ég held að þegar verið er að tala um skiptingu á slíkum happdrættum sem standa undir mjög nauðsynlegum framkvæmdum, þá sé út í hött að tala um t.d. að einhverjum framkvæmdum sé lokið að Reykjalundi á vegum SÍBS. Þeir hafa haslað sér völl á nýjum vettvangi og mjög nauðsynlegum, og það er ekki aðeins að þeir hafi tekið að sér endurhæfingu lamaðra, heldur og annarra. Þetta orð „annarra“ ætti auðvitað að skýra betur. Og þá verðum við að koma að þeim sem kallaðir eru hinir geðveilu í þessu þjóðfélagi, en SÍBS hefur tekið að sér mjög mikið verkefni í sambandi við endurhæfingu þeirra að Reykjalundi og veitir ábyggilega ekki af öllu sínu fé. Guði sé lof, þá kemur fé viðar að þótt það komi ekki frá fjárlögum ríkisins. Það kemur viðar fé til þessara framkvæmda. T.d. var mér skýrt frá því, þegar kom fram frv. um breyt. á happdrætti SÍBS, — og ég bið nú forseta velvirðingar á því, þótt ég minnist á það um leið, en þetta er máski eitt og sama málið, — þá voru nokkrir einstaklingar hér í félagahópi sem færðu millj. kr. að gjöf til þess að búa þau hús betur sem þar hafa þegar risið fyrir þessa starfsemi. Og svona mætti auðvitað lengi telja.

Þegar verið er að tala um þessi tvö happdrætti og menn vilja vinna eitthvert gott og þarft verk, hvar sem er á landinu, þá virðist mér nokkuð skorta á að menn hafi hugkvæmni til þess að finna upp á nýjum fjáröflunarleiðum. Það er frekar verið að höggva í þær sem fyrir eru og hafa verið markaðar lengi, þeirra starfsemi, sem fé hefur runnið til áður, geti breyst. En ég held að í þessum tveimur tilfellum sé of stórt tekið upp í sig að segja að svo sé.

Við vitum að inn á svið þessara tveggja svokölluðu minni happdrætta af hinum þrem stóru, eins og stundum hefur verið talað um, hafa komið ákaflega mörg happdrætti á undanförnum árum. Ég bendi á styrktarfélög eins og Krabbameinsfélagíð, Hjartavernd, Rauða kross Íslands og ég veit ekki hvað og hvað, Sjálfsbjörg og mörg önnur. Samtals taldi ég fyrir nokkru 11 slík happdrætti sem fara öll inn á þetta sama verksvið. Það er aðeins eitt happdrætti á Íslandi sem hefur einkarétt á peningahappdrætti. Það er Happdrætti Háskóla Íslands. Það liggur frv. fyrir Ed. Alþ. um að það eigi að stækka um tölur vert á annað hundrað prósent, ef það frv. verður samþ. Og ef, sem að líkum lætur eftir því hvernig þessu stóra happdrættinu hefur gengið, ef þeir selja upp þennan nýja fimmfalda flokk sinn sem við getum búist við að þeir geri á næsta happdrættisári, þá verður söluverðmæti þeirra orðið nær 2 milljarðar kr. Þetta rennur til starfsemi eins skóla í landinu, að vísu hins æðsta og mesta og kannske nauðsynlegasta, en þetta skeður á sama tíma og við höfum ekki fjárráð til þess að gera Sjómannaskólahúsið vatns- og vindþétt.

Svona mætti að sjálfsögðu halda lengi áfram. En eins og ég hef þegar tekið fram er ég ekki á móti efnislegri hlið þessa frv. Samtök þau, sem standa að Dvalarheimili aldraðra sjómanna og reka happdrættið, munu að sjálfsögðu verða spurð af n. um álit þeirra á þessu og þá mun koma ítarlegt svar frá þeim.

En það er aðeins í sambandi við ræðu hv. flm. Hann talaði um flutningana hingað á Reykjavikursvæðið. Mér finnst hann hafa gleymt einu ákaflega þýðingarmiklu atriði. Ég tek undir með honum að vonandi verði ekki þannig í framtíðinni að gamla fólkið þurfi eða koma hingað á suðvesturkjálkanum til þess að fylgja börnum sínum. En við skulum hafa í huga að á undanförnum árum hefur verið mjög mikið um þessa flutninga, og þetta fólk er kannske á miðjum aldri í dag sem hefur misst börn sín hingað, ef þannig má orða það. Þetta fólk á eftir að verða gamalt og þessi þróun getur tekið enn nokkra áratugi, Vonandi heldur sú þróun áfram hér hjá okkur á svokölluðu Stór-Reykjavikursvæði að fólk verði gamalt þar líka. En það er ekki aðeins þetta atriði sem ég hef orðið var við að fólk leggur sig eftir þegar það flyst hingað á suðvesturkjálkann, — það er ekki aðeins þetta atriði þótt það sé mjög stórt. Það er líka atriði sem heitir læknishjálp. Ég hef orðið var við að það hefur reynst stóra ástæðan fyrir því að gamalt fólk, sem óttast um heilsu sína, þarf á ákveðinni sérfræðingaaðstoð að halda, þar sem um er að ræða líkamlega kvilla, augnsjúkdóma, heyrnarskerðingu og annað þess háttar, það leggur ákaflega mikið upp úr því öryggi sem því er búið á stöðum þar sem spítali og læknishjálp eru fyrir hendi. Og þá kem ég aftur að því sem ég sagði hér áðan, að fullkomin elliheimili geta tæplega orðið til nema þar sem okkur tekst að koma upp læknamiðstöð, þar sem sérfræðingar allra tegunda sjúkdóma eru til hjálpar. Hitt er annað mál að ég vík ekki frá því að á allflestum stöðum, hvort sem þeir eru litlir eða stórir, þurfi að vera sérstakar íbúðir með ákveðinni þjónustu og vissri hjálp fyrir það gamla fólk sem er á stöðunum, ef ekki tekst að hafa það heima hjá sér sem auðvitað er æskilegast.

Eins og ég sagði, forseti, þá skal ég ekki vera að teygja lopann um þetta miklu lengur. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér við 1. umr. og endurtaka það, að þær framkvæmdir, sem standa yfir hjá þessum áhugamannahópum, eru að miklu leyti byggðar upp af fé þessara happdrætta auk samskota og annarra tekna sem þau skapa sér. Ég vil að lokum benda á það um þetta happdrætti, sem hér er um að ræða, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, að leyfi Alþ. fyrir því, sem fékkst á sínum tíma, sé nokkur umbun fyrir það að þessi samtök höfðu safnað mörgum millj. kr., en lánuðu þær ríkissjóði Íslands eða stofnlánadeild fiskiskipaflotans, sem þá hét svo, að mig minnir, til endurnýjunar bátaflotans sem auðvitað fór um allt land, það var þegar Svíþjóðarbátarnir voru byggðir og keyptir. Þetta fé rýrnaði meðan ríkisvaldið hafði með það að gera og hafði það að láni. Það veitti ekki leyfi til byggingar yfir aldraða á þeim tíma, en vildi heldur fá féð að láni. Þeim fannst, þegar svo tímar liðu, að rétt væri þó að veita þetta leyfi sem var ekki vel séð á sínum tíma vegna þeirra happdrætta sem þá voru þegar í gangi, þannig að það er nokkuð einsýnt að þarna er enn um þá greiðslu að ræða um leið. Og við skulum hafa það í huga að í 11 ár hafa 40% af tekjum happdrættisins verið teknar í Byggingarsjóð aldraðra eins og ég á sínum tíma féllst á að við mundum gera þótt ég hefði hins vegar talið að það væri áhrifameira að láta það ganga beint á ákveðna staði. Þá höfðum við í þeim samtökum, sem þessu hafa stjórnað á undanförnum árum, í huga að við mundum ná inn sjóðum á stöðunum sjálfum, við mundum fá fé frá verkalýðs- og sjómannafélögunum sem eiga t.d. í dag orðið mjög þýðingarmikla sjóði til þess að leggja í slík verkefni og um leið fengjum við mikið af áhugamannafólki á þessum stöðum til þess að vinna að framkvæmd slíkra mála.