13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

242. mál, snjómokstur á þjóðvegum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. þeirri á þskj. 461, sem hv. 4. þm. Austf. gerði hér grein fyrir, vil ég vekja athygli hv. þm. á því að yfirlit um snjómokstur eða vetrarviðhald og annað er að finna á bls. 5 í skýrslu þeirri sem ég gerði grein fyrir hér á hv. Alþ. um vegaframkvæmdir á árinu 1973. En út af þessu sérstaka, sem hv. þm. spyr um, er svarið þetta:

Kostnaður við vetrarviðhald þau ár, sem spurt er um, er eins og hér segir: 1971 52.7 millj. kr., 1972 55.2 millj., 1973 99.1 millj. og 1974 157.5 millj. kr.

Í kostnaði við vetrarviðhald er auk snjómoksturs, sem er langstærsti liðurinn, einnig talinn kostnaður við dreifingu á salti og sandi til varnar gegn hálku.

Á árunum 1974 var kostnaður hæstur við snjómokstur, talið í þús. kr. á km, á eftirtöldum 6 stöðum: Norðfjarðarvegur, Oddsskarð, vegalengdin er 17 km, kostnaður er 5.2 millj. eða 306 þús. á hvern km. Ólafsfjarðarvegur, vegalengdin er 18 km, kostnaður er 2.9 millj. eða 161 þús. á km. Austurlandsvegur, Lónsheiði, 14 km vegalengd, þar koma 2 millj. eða 157 þús. á km. Bíldudalsvegur, Hálfdán, 15 km vegalengd, 2.3 millj. eða 153 þús. á km. Siglufjarðarvegur, Haganesvík–Siglufjörður, 24 km, 3.3 millj. kr. eða 138 þús. á km. Norðurlandsvegur, Öxnadalsheiði, 35 km, 2.6 millj. eða 74 þús. á km.

Þær reglur, sem gilda um greiðslu kostnaðar Vegagerðarinnar við snjómokstur á þjóðvegum, voru samþ. af rn. í des. 1967 og tóku gildi 1. jan. 1968. Mjög margar beiðnir hafa borist víða af landinu um endurskoðun á þessum reglum, en slík endurskoðun hefur að sjálfsögðu í för með sér aukinn tilkostnað við snjómokstur. Í till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1974-1977, sem nú liggur fyrir Alþ., er gert ráð fyrir því að kostnaður við vetrarviðhald verði tekinn upp sem sérstök fjárveiting á liðnum „vegaviðhald“. Enn fremur eru fjárveitingar til vetrarviðhalds árin 1975–1977 miðaðar við að endurskoðaðar reglur um snjómokstur taki gildi á hausti komanda. Það mun gert ráð fyrir því í þessari till. að hátt í 200 millj. kr. fari í vetrarviðhaldið á þessu og næsta ári og er sjáanlegt að á árinu 1975 mun þar ekki af veita, svo mikill er kostnaðurinn orðinn nú þegar að hann er kominn yfir 150 millj. kr.

Þetta svar vona ég að nægi við fsp.