13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3983 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

182. mál, breytingar á íslenskum rithætti

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, þó að ég hefði æskt þess að hann hefði getað sagt okkur hvað hann hugsaði í þessu efni. Þegar maður lítur á áskorun til ráðh. sem var send honum frá 100 manna hópnum sem hefur verið mikið getið um í blöðum, þá kemst maður ekki hjá því að finnast ýmislegt fáránlegt í þessum reglum, eins og þar kemur fram, t.d. að oddaverjar skuli vera skrifaðir með litlum staf, en Sturlungar með stórum, hólsfjallamaður með litlum staf, en Hólsfjallahangikjöt með stórum, bandaríkjamaður með litlum staf og Bandaríkjaforseti með stórum. Þannig mætti lengi telja, t.d. að Englandsdrottning skrifist með stórum staf, en danadrottning með litlum. Þessi dæmi sýna auðvitað að þessar reglur eru þannig að eftir þeim er ekki hægt að fara.