13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

182. mál, breytingar á íslenskum rithætti

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. sumra, sem hér hafa talað, vil ég láta koma fram að ég álít að sú breyting, sem gerð var á íslenskri stafsetningu nú fyrir skömmu, hafi alls ekki verið nægilega vel undirbúin. Ég álít að það sé mjög viðurhlutamikið að breyta íslenskri stafsetningu og það reglum og hefð sem búin er að standa hálfa öld. Það hefði þurft að ætla sér til þess meiri tíma og kanna málið á breiðari grundvelli en ég tel að hafi verið gert. Á sama hátt lít ég svo á að þetta mál í heild sé þannig vaxið að það sé naumast unnt að taka það til afgreiðslu eða a.m.k. ekki skynsamlegt að taka það til meðferðar og afgreiðslu í flaustri. Það hlýtur þó að verða ef á að afgr. það á síðustu tveimur til þremur dögum þingsins. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram.