13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að hv. 5. þm. Vestf. skyldi ekki nota tækifærið, sem ég gaf honum til þess að biðjast afsökunar og viðurkenna að hann hafi sagt eitthvað vanhugsað því að ég get ekki komist hjá því að hugsa með mér að það hlýtur þá að vera eitthvað annað að.

Útflutningshöfn í Reykjavík er ekki lítils virði fyrir fiskiþorp úti á landi eða fiskihafnir úti á landi. Reykjavíkurborg hefur fengið ósk frá einmitt útflutningsaðilum, sem eru samtök frystihúsa og fiskframleiðenda um land allt, um aðstöðu við Reykjavíkurhöfn til þess einmitt að gera hana að safnhöfn fyrir útflutning afurða sem framleiddar eru úti á landi. Það eitt ætti að vera nóg til þess að Reykjavíkurhöfn hlýtur þá í hlutfalli við það að eiga rétt á einhverjum framlögum af fjárlögum umfram það sem hún þarf að leggja sjálf til vegna eigin þarfa. En ég vil taka fram að það hefur ekki komið, hvorki frá mér né heldur hv. 11. þm. Reykv., svo að ég viti til, neitt sem hægt er að túlka sem andstöðu frá okkur við þátttöku í uppbyggingu á fiskihöfnum úti á landi, nema síður sé. Við höfum fengið í Reykjavík óskir um að byggja hér mjög mikil mannvirki fyrir Ríkisskip, aðstöðu til þess að flytja vörur frá Reykjavík út á land, og við töldum alveg sjálfsagt að verða við því og hófum framkvæmdir og héldum þeim áfram meðan peningar entust. Það var ekki til þess að fullnægja þörfum Reykjavikur vegna reykvíkinga, og það er mannvirkjagerð sem var algjörlega gerð á kostnað Reykjavíkurhafnar. Við höfum líka fengið óskir um að leggja í fjárfestingu vegna Akranesferjunnar sem að engu leyti á að þjóna reykvíkingum, nema þá að þeir vilji spara sér að keyra fyrir Hvalfjörð þegar þeir fara út á land. En að öðru leyti er þetta til þess að tengja Akranes og Reykjavík. Reykjavíkurhöfn hefur enga peninga til þess að fara í þær framkvæmdir.

Reykjavíkurhöfn þjónar miklu meira og stærra hlutverki en því sem hún þarf að gegna af nauðsyn fyrir reykvíkinga, og það vona ég að hv. 5. þm. Vestf. skilji hvað líður.