13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

175. mál, skipunartími opinberra starfsmanna

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 345 er lögð fram till. til þál. um skipunartíma opinberra starfsmanna. Þar segir:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka upp þá reglu við skipun háttsettra opinberra starfsmanna að skipunartími þeirra verði miðaður við 4–6 ár í senn. Ríkisstj. beiti sér fyrir nauðsynlegum lagabreyt. í samræmi við þessa ákvörðun.“

Umsvif ríkisins og stofnana á þess vegum hafa vaxið jafnt og þétt á síðari árum. Við getum í sjálfu sér deilt um hvort sú þróun sé jákvæð eða neikvæð. En það skiptir ekki máli í þessu sambandi vegna þess að við erum sjálfsagt flest sammála um að vegna þessarar þróunar, vegna þessara auknu umsvifa og fleiri verkefna og vaxandi áhrifa ríkisstofnana sé nauðsynlegt að veita þeim meiri athygli hvað innviði þeirra snertir. Hvort sem okkur líkar betur eða verr að völd og verkefni safnist á hendur opinberra stofnana, þá getum við sameinast um það markmið, að viðkomandi stofnanir séu virkar og veiti þá þjónustu og sinni þeim verkefnum sem lög bjóða og almenningur þarfnast. Stjórnsýsla þarfnast aðhalds og aðgáts og það er engri stofnun og engum embættismanni til góðs að sleppa við umræður og eftirlit eða þá að þeir njóti þeirrar aðstöðu að vera yfir gagnrýni hafnir. Hér dugar ekki til almenningsálit, heldur verður stjórakerfið sjálft að fela í sér möguleika til aðhalds og breytinga. Það þarf að vera opið og í samræmi við lýðræðislega stjórnarhætti án þess þó að það sé á kostnað öryggis og festu.

Ein af þeim leiðum, sem bent hefur verið á, er að takmarka ráðningartíma opinberra starfsmanna og þá einkum þeirra sem ábyrgðar- og forustustörfum gegna. Slík regla ætti að afstýra því að menn dagi uppi í stjórnsýslunni, staðni eða verði svo vissir með sig að þeir gerist værukærir eða duglausir. Þessi regla, sem hér kemur fram í till., er ekki hugsuð til þess að henni verði beitt í pólitísku skyni, heldur sem aðhald fyrir embættismennina sjálfa og þær stofnanir sem þeir starfa við.

Hv. allshn. hefur skoðað þessa till. og hún mælir einróma með samþykkt hennar með þeirri breyt. að til viðbótar komi, að hún eigi jafnframt við um starfsmenn ríkisstofnana, þannig að upphaf till. hljóði þá svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka upp þá reglu við skipun háttsettra opinberra starfsmanna og starfsmanna ríkisstofnana.“ N. vísaði þessu máli til umsagnar Bandalags háskólamanna og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fékk jákvæðar umsagnir frá báðum þessum aðilum, en Bandalag starfsmanna ríkis og bæja vakti athygli á að sérstök nefnd hafi verið skipuð af fjmrh. til að endurskoða lög nr. 38 frá 1944, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og telur eðlilegt að umrætt mál verði tekið þar til athugunar. N. er þeirri málsmeðferð samþykk og kemur þessari ábendingu á framfæri um leið og hún, eins og fyrr segir, mælir með samþykkt till.