14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil nú fyrst benda á það, þó að það skipti ekki máli hér varðandi dagskrá, að nafnið á þessari ágætu till., eins og það er í dagskránni, er rangt því að fyrirsögn till. frá Nd. er till. til þál. um rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar, en ekki um beislun orku og orkusölu á Austurlandi. Hlýtur það að teljast réttara og till., svo breytt, getur hlotið minn stuðning þó að ég hafi allan fyrirvara á um stuðning við þá virkjun sem þarna kæmi til athugunar þegar könnun eða rannsókn lægi fyrir.

Þessi till. var flutt á þinginu í fyrra. Ég mælti þá gegn þessari till. mjög ákveðið og það gerði reyndar einnig hv. 1. þm. Austf. þáv., Eysteinn Jónsson. Í þeirri till. var í fyrsta lagi, reyndar eins og nú einnig í upphaflegu gerðinni, bent á Fljótsdalsvirkjun sem fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar en þar taldi ég einmitt og var raunar ljóst að þar var komið inn á þá stórvirkjun sem ég hef lýst mig algjörlega andvígan og færði þá allgild rök gegn þeirri virkjun sem ég tel óþarft að fara út í hér. Slík risavirkjun hefur of mörg óheppileg atriði í för með sér, ókönnuð að vísu, en þó hygg ég að þau séu engu að síður fyrirsjáanleg staðreynd. Of mörg hættuatriði eru varðandi landspjöll og fleira, jafnvel að miklum hluta Fljótsdalshéraðs yrði hreinlega sökkt með þeirri stórvirkjun sem þetta átti að vera fyrsti áfanginn að. Slíkt gæti ég aldrei samþ. hversu mörg megawött og mikil arðsemi, auðvitað meira og minna ímynduð eins og venjulega þegar þessi mál eru rædd, sem fylgdi í kjölfarið.

Hinn liðurinn, sem nú er fallinn endanlega út og ég fagna, var um að leitað verði eftir kaupanda að raforku með stóriðju staðsetta í Reyðarfirði fyrir augum. Þetta átti auðvitað við um stórvirkjun í raun, miklu stærri, eins og ég gat um áðan, en ég gat sætt mig við, og ég fagna þeirri breytingu að þessi liður skuli niður felldur. Það bendir til þess að hér sé um rannsókn á hæfilegri Fljótsdalsvirkjun að ræða. Ég vil þakka flm., fjarstöddum þó, fyrir að hafa til samkomulags fellt þetta brott og einnig varðandi það sem stóð í sviganum í fyrsta liðnum: fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar. Ég vil ítreka það um leið að með þessu og þrátt fyrir þetta hef ég allan fyrirvara á um samþykki við væntanlega virkjun sem út úr þessari könnun kæmi og held mig enn við það þar til annað sannara kemur nægilega skýrt fram, að Bessastaðaárvirkjun sé næsti áfangi okkar þar eystra. Verði hún ekki talin möguleg, sem ég leyfi mér að vona þrátt fyrir allar hrakspár og ýmsar fullyrðingar nú upp á síðkastið, þá ber vitanlega að hyggja að öðrum álitlegum virkjunum, þó að smærri séu, á Austurlandi til að leysa brýnustu þörf m.a. í Vopnafirði, Seyðisfirði og í Berufirði. Rannsóknir eru hins vegar nauðsyn og eins og till. er orðuð nú, þá er aðeins ályktað að skora á ríkisstj. að hlutast til um að Orkustofnun ljúki eins fljótt og víð verður komið rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Ég held að rannsóknir varðandi Bessastaðaárvirkjun komi þarna af eðlilegum ástæðum beint inn í. Ég get þess vegna samþ. þetta þó að ég hafi allan fyrirvara á um Fljótsdalsvirkjun eins og það er teygjanlegt hugtak að mínu viti. Rannsóknir eru hins vegar nauðsyn, ekki síst vegna Bessastaðaárvirkjunarinnar sem við höfum hingað til viljað skoða sem góðan kost og ég vil enn trúa að hann sé það.

Ég endurtek það aðeins sem ég hef áður sagt, við eigum sjálfir og einir að standa að þessum rannsóknum, ráða þeim að fullu og í ljósi þeirra niðurstaðna, sem þá liggja fyrir, er hægt að taka ákvörðun varðandi virkjunarmöguleikana.