14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4104 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þar eð ég sit í þeirri n., sem mun fá þetta mál til meðferðar, ætla ég ekki að fjölyrða um það nú, en langar þó til að segja hér nokkur orð.

Menn virðast vera einhuga um það að hér sé um gott mál að ræða. Aðeins greinir menn á um fjármögnun. Ef við hugum lítils háttar að tilgangi Atvinnuleysistryggingasjóðs er hans tilgangur fyrst og fremst að tryggja þeim launþegum framfærslulífeyri sem verða af vinnutekjum sínum vegna annars en sjúkdóma og slysa, og að mínu áliti er hér einmitt um að ræða þá aðila vinnumarkaðarins sem missa sínar atvinnutekjur tímabundið vegna annarra orsaka en sjúkdóma og slysa. Mér virðist því ekki alveg einsýnt að hér sé endilega um tryggingamál að ræða, þ.e. mál almannatrygginga, heldur geti alveg eins komið til greina að það sé rökrétt að atvinnuleysistryggingar taki þetta verkefni að sér. Hitt er svo annað mál, að að sjálfsögðu verður Atvinnuleysistryggingasjóður að hafa öryggi fyrir því að hann geti sinnt sínum höfuðhlutverkum, fyrst og fremst útborgun bóta vegna atvinnuleysis. Það er aftur á móti ráðstöfun tekna sjóðsins að öðru leyti sem þar ræður mestu um.

Varðandi þetta frv. ber öllum saman um að nú í dag gæti misréttis í þjóðfélaginu í þessu efni. Vissir launþegar njóta þessara réttinda, að fá þriggja mánaða fæðingarorlof, en aðrir ekki. Verði þetta frv. að lögum minnkar sá hópur sem utan stendur, og má því segja að þetta verði áfangi að því marki að allar konur fái þessa fyrirgreiðslu eftir barnsburð. Það er í vaxandi mæli álit þeirra, sem vit hafa á, að það sé æskilegt að konan geti dvalið hjá barni sínu fyrstu mánuðina eftir burð, og talið að þetta hafi áhrif til góðs bæði á konuna og barnið og geti haft allmikla þýðingu fyrir framtíð þess. Það eykst nú aftur að börn séu höfð á brjósti, en einmitt ásóknin í það að konur færu til vinnu á vinnumarkaðnum hefur breytt þessu hlutfalli mjög mikið þannig að fram undir þetta hefur mikill minni hl. kvenna haft sín börn á brjósti nema þá um mjög stuttan tíma.

Menn greinir nokkuð á um það hver mundi verða fjöldi þeirra mæðra sem kynnu að njóta þessara hlunninda ef að lögum yrðu. Og eitt er víst, að í fyrstu munu menn hafa álitið að hér væri um stærri hóp að ræða en raunin er. Hér eru um 4 400 fæðingar á ári en talið er ólíklegt að þær konur, sem mundu njóta þessarar fyrirgreiðslu, fari yfir 700 á hverju ári. Þetta mundi þýða 70–80 millj. kr. útgjöld fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð á ársgrundvelli, og enda þótt þetta sé ekki há prósenttala af hans 640 eða 650 millj. kr. árstekjum, þá er því ekki að neita að í því árferði, sem nú er, ber að hafa alla gát á og rannsaka gaumgæfilega hvernig fyrirbyggt verði að sjóðurinn geti lent í greiðsluþrotum til útborgunar bóta. Ég hef því boðað form. sjóðsins, Hjálmar Vilhjálmsson, til fundar við heilbr.- og trn. í fyrramálið og vonast til að hjá honum fáum við þær upplýsingar um stöðu sjóðsins og hans framtíðarverkefni, að við getum eftir það rætt um möguleika til þess að koma þessu máli í höfn, — máli sem í raun og veru allir vilja styðja, en greinir aðeins lítillega á um leiðir.