14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugleiðir hf., lán að upphæð 18.5 millj. bandaríkjadala, vegna kaupa félagsins á tveimur flugvélum af gerðinni DC-8-63 CF og til þess að bæta rekstrarfjárstöðu félagsins.

Álit meiri hl. n. er stutt af öllum nm. nema einum, hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, sem skilar séráliti og flytur brtt. Nm. eru raunar allir sammála um að veita heimild til ríkisábyrgðar, en greinir hins vegar á um skilyrði og þó einkum það, hvort ríkið skuli eignast hlut í Flugleiðum hf., en brtt. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar gengur einmitt í þá átt.

Nokkur gagnrýni hefur komið fram vegna þess hve seint þetta mál kemur fyrir þingið. Má vissulega segja að betra hefði verið ef frv. hefði komið fyrr fram. Ég hygg þó að það komi ekki að sök þar sem málið hefur fengið ítarlega athugun í n., en sameiginlegir fundir voru haldnir með fjh.- og viðskn. beggja d. og voru þeir sumir hverjir alllangir og haldnir á helgum dögum sumir. Ég vil þakka nm. öllum fyrir þolinmæði þeirra á nefndarfundum og málefnalegar umr. þar.

Manna á meðal og í fjölmiðlum hefur ýmislegt verið sagt um fjárhagslega stöðu Flugleiða hf. og rekstur yfirleitt svo og um þá sérstöku aðstöðu sem félagið hefur að því er tekur til flutninga á ferðamönnum til landsins og þjónustu við þá hér. Með viðtölum við fjölmarga aðila. sem á einhvern hátt koma þar við sögu, reyndu nm. að mynda sér skoðun á þeim atriðum öllum, á þýðingu þess að félagið geti starfað með sem tryggustum hætti, og á þýðingu þess að sem styrkustum stoðum verði skotið undir það að íslendingar geti treyst á sterkt félag sem annist áætlunarflug milli Íslands og annarra landa. Jafnframt hefur n. haft í huga að sú sérstaða, sem Flugleiðir hf. hafa að því er tekur til ýmiss konar þjónustu við ferðamenn, leiði ekki til þess að aðrir, sem hliðstæða starfsemi stunda, fái ekki notið sín. Auk þess sem mál þetta hefur verið rætt á nefndarfundum undanfarna daga hafa nm. fengið í hendur ýmis gögn sem varða fjárhag og rekstur Flugleiða hf.

Ég mun ekki í máli mínu ræða að neinu marki ástæður þess að félaginu er nú nauðsyn á ríkisábyrgð til þess að geta keypt nefndar flugvélar og til þess að geta tekið rekstrarlán. Sú var tíðin að Loftleiðir hf. a.m.k. gátu tekist á hendur meiri háttar fjárskuldbindingar án ríkisábyrgðar, en síðan hefur margt breyst. Þróunin á síðustu árum hefur orðið rekstri sem þessum mjög óhagstæð. Nægir þar að nefna miklar hækkanir á eldsneyti, en þær munu hafa numið um 51/2 millj. dala á síðasta ári fyrir félagið. Það má nefna tregðu stjórnvalda til að leyfa hækkun fargjalda sem er m.a. orsök fyrir 50 millj. kr. tapi á innanlandsfluginu árið 1974. Það má nefna óheppilega þróun í launamálum innanlands þar sem eru um 1500 starfsmenn á vegum Flugleiða, en 600 starfsmenn erlendis. Innanlands hefur launahækkun orðið um 50% á sama tíma og hún hefur orðið 7–8% erlendis. Og svona mætti sjálfsagt lengur telja. Allt hefur þetta valdið stórfelldum taprekstri að undanförnu.

Ég vil taka það fram áð nm. hafa að sjálfsögðu ekki haft möguleika til þess sjálfir að setja sig inn í hinn viðtæka rekstur sem félag þetta hefur með höndum. Ákvörðun nm. um að mæla með því að félaginu verði veitt ríkisábyrgð, byggist því að nokkru leyti á athugunum sem aðrir hafa gert. En upplýsingar þær, sem forstjórar Flugleiða hf. hafa veitt nm., styðja hins vegar niðurstöðu þá sem vinnuhópur fjmrn., samgrn. og Seðlabanka sendi frá sér í ítarlegri skýrslu til nefndra rn. 11. febr. s.l. Ég mun ekki rekja skýrslu þessa nú að neinu ráði. Verkefni vinnuhópsins fólst í athugun á rekstri og stöðu Flugleiða hf. í árslok 1974 svo og athugun á rekstraráætlun félagsins fyrir árið 1975. Þá var einnig könnuð eigna- og skuldastaða félagsins og veðhæfni eigna þess. Niðurstöður þessarar könnunar voru þær að rekstrarvandi félagsins væri ekki vanmetinn af forstöðumönnum þess.

Í upphafi var af hálfu Flugleiða hf. einungis farið fram á ríkisábyrgð og aðstoð vegna útvegunar rekstrarláns. Hins vegar varð strax ljóst að ábyrgðir þær yrðu ekki skildar frá fyrirsjáanlegum og nauðsynlegum flugvélakaupum félagsins á þessu ári og þeim ríkisábyrgðum sem þeim kynnu að fylgja. Flugvélakaupin eru nauðsynleg af fleiri en einni ástæðu. Í fyrsta lagi rennur kaupleigusamningurinn út 1. júní n.k. Inn á kaupin hafa þegar verið greiddar 7.5 millj. dala, en eftirstöðvar eru 13.5 millj. Það, sem greitt hefur verið, mundi tapast ef ekki yrði af kaupunum. Söluverðmæti vélanna er talið vera 20–22 millj. dala. Auk þessa eru flugvélakaupin nauðsynleg til þess að létta greiðslubyrði félagsins, en hún léttist um 1 millj. dala á þessu ári eða um 150 millj. ísl. kr. við þessa aðgerð. Ljóst er því að félaginu er mjög mikilvægt að af þessum kaupum geti orðið, en til þess þarf ríkisábyrgð.

Nm. eru sem sagt sammála um að mæla með því að þessi ábyrgð verði veitt. En auk þessa er félaginu nauðsyn á að taka 5 millj. dala lán til þess að bæta rekstrarfjárstöðu félagsins. Tillögur vinnuhópsins frá 11. febr. s.l. voru þær að lán þetta yrði tryggt með 1. veðrétti í flugvélunum sem keyptar yrðu. Nú er hins vegar ljóst að lán þetta fæst vart nema ríkisábyrgð komi til og öruggt er að lánskjör eru mun hagstæðari ef um ríkisábyrgð er að ræða. Að öllu þessu athuguðu er því lagt til að Flugleiðir hf. fái ríkisábyrgð fyrir 18.5 millj. dala, eins og í frv. segir, það er 13.5 millj. dala vegna flugvélakaupa og 5 millj. dala vegna rekstrarláns, en þetta nemur tæplega 2.8 milljörðum ísl. kr.

Hér er um miklar upphæðir að ræða á okkar mælikvarða og því eðlilegt að spurt sé hvort nægar tryggingar séu fyrir hendi ef greiðslur kynnu að falla á ríkissjóð svo og að sett séu ákveðin skilyrði af hálfu stjórnvalda þegar fyrirgreiðsla sem þessi er veitt.

Varðandi tryggingar er það að segja að hótel- og skrifstofubyggingar félagsins mega teljast fullveðsettar og hið sama gildir um flugvélaeign félagsins, þ.e. flugflota Flugfélags Íslands, en rekstrarlán sem tekið var í nóvembermánuði s.l. að upphæð 4 millj. dala var tekið með veði í þessum flugvélum. Hins vegar er söluverðmæti hinna tveggja véla, sem keyptar verða, talið vera, eins og ég sagði áðan, 20–22 millj. dala, og verður því ekki annað sagt en veð séu fullnægjandi.

Hér er, eins og ég áðan sagði, vissulega um háar upphæðir að ræða. En það er rétt að geta þess, að heildarábyrgðir ríkissjóðs yrðu um 29% af áætlaðri veltu Flugleiða árið 1975. Til samanburðar má nefna fyrri aðstoð ríkisvaldsins við Flugfélag Íslands hf. þegar fyrsta þotan var keypt árið 1967. Þá var ríkisábyrgðin 6.2 millj. dala eða 314 millj. ísl. kr. á þáv. gengi, en það var 71% af brúttóveltu Flugfélags Íslands 1967. Gengið var síðan fellt bæði 1967 og 1968 og var ríkisábyrgðin 1968 orðin 119% af veltu Flugfélagsins þá, þannig að miðað við þessar tölur er sú aðstoð, sem nú er verið að veita, til muna lægri.

Eins og fram kemur í áliti meiri hl. n. á þskj. 703 er lagt til að stjórn Flugleiða hf. undirriti yfirlýsingu áður en ríkisstj. notar heimild þá sem í frv. felst. Í þessari yfirlýsingu, sem prentuð er á þskj., gengst þá stjórn Flugleiða undir ákveðin skilyrði, sem ég skal nú fara örfáum orðum um.

Í 1. tölulið segir: „Flugleiðir hf., Flugfélag íslands hf. og Loftleiðir hf., skuldbinda sig til þess að halda áfram skipulögðum aðgerðum til þess að bæta fjárhagsstöðu sína og auka hagkvæmni í rekstri.“ Hér er um almenna og sjálfsagða yfirlýsingu að ræða sem ekkert sérstakt er um að segja.

2. töluliður er svo hljóðandi: „Ríkisábyrgðasjóður og samgrn. tilnefna tvo fulltrúa til að fylgjast með fjárhagslegum ákvörðunum félaganna. Skulu þessir trúnaðarmenn eiga rétt á því að sitja fundi með framkvæmdastjórn (stjórnarnefnd) Flugleiða hf. þegar þeir óska, og heita félögin því að veita þeim allar þær upplýsingar um rekstur fyrirtækjanna sem óskað er eftir á hverjum tíma, þar með að leggja fyrir þá fjárhagsáætlanir, skýrslur um fjármál og rekstur og fyrirætlanir um meiri háttar fjárskuldbindingar.“ Með þessu ákvæði er ríkissjóði veiti hin nauðsynlega aðstaða til þess að hafa eftirlit með fjárhagslegum ákvörðunum félagsins. Þetta eftirlit er sjálfsagt vegna hinna miklu upphæða, sem ríkissjóður hefur hér ábyrgst.

Í 3. tölulið segir svo: „Stjórn Flugleiða hf. skuldbindur sig til að bjóða út hlutafé félagsins í hámark þess sem samþykktir leyfa, þ.e. 600 millj. kr., eins fljótt og aðstæður leyfa að dómi Seðlabankans og Landsbankans.“ Það er mjög eðlilegt að flugvélakaupunum fylgi aukning eigin fjár félagsins. Samkv. gildandi samþykktum þess er hámark hlutafjárins, sem bjóða má út, 600 millj. kr. Eignarmat félaganna liggur ekki enn fyrir og skipti á hlutabréfum geta ekki farið fram fyrr en matinu er lokið. Talið er að að þeim skiptum gerðum gæti hlutfé Flugleiða numið 360 millj. kr. hið mesta og hlutafjáraukning, sem boðin yrði út þegar matinu er lokið, yrði því um 240 millj. kr. Í þessum tölulið er tekið fram að hlutafjárútboðið skuli fara fram eins fljótt og aðstæður leyfa, að dómi Seðlabankans og Landsbankans. Þetta ákvæði er eðlilegt og raunar sjálfsagt, þar sem hér kemur til mat hlutlauss aðila, — aðila sem skal meta hvort markaður sé fyrir hlutabréfin. Þetta mat verður því ekki í höndum Flugleiða, heldur þessara bankastofnana. Það er enginn vafi á því, að bankarnir, Seðlabankinn og Landsbankinn, sem er viðskiptabanki Flugleiða hf., hafa áhuga á því að hlutaféð verði aukið við fyrsta tækifæri. Aukning hlutafjárins minnkar áhættu viðskiptabankans um leið og það styrkir eigin fjárstöðu félagsins.

4. töluliður er svo hljóðandi: „Stjórnarnefnd Flugleiða mun láta gera athugun á því hvort hagkvæmt sé að koma upp fullkominni viðgerðarmiðstöð fyrir flugvélar hér á landi á vegum félaganna.“ Þetta atríði er sjálfsagt að kanna.

5. töluliður er svo hljóðandi: „Stjórn og stjórnarnefnd félaganna skuldbinda sig til þess, á meðan ábyrgð stendur, að ráðast ekki í verulega fjárfestingu í flugrekstri né öðrum rekstri eða taka á sig verulega fjárskuldbindingu nema að fengnu leyfi Ríkisábyrgðasjóðs.“ Hér skuldbindur félagið sig til þess að ráðast ekki í verulega fjárfestingu, hvorki í flugrekstri né öðrum rekstri, nema að fengnu leyfi Ríkisábyrgðarsjóðs. Þessu fylgir raunverulega tvenns konar trygging, annars vegar fyrir ríkissjóð og hins vegar fyrir þá aðila sem telja að samkeppnisaðstaða félagsins sé óeðlilega sterk að því er tekur til annarra þátta en flugrekstrarins. Þá mun félagið heldur ekki taka á sig verulega fjárskuldbindingu nema að fengnu leyfi Ríkisábyrgðasjóðs. Það má kannske spyrja hvað sé veruleg fjárskuldbinding í svo viðamiklum rekstri sem þessum. Það er ljóst, að matið á því fer eftir því hvort fjárfest er í flugrekstri eða einhverri hliðargrein, sem félagið hefur með höndum, eins og t.d. bílaleigu. En þar sem talið er í greininni flugrekstur og annar rekstur er matið að sjálfsögðu breytilegt eftir því um hvað er að ræða.

Um næstu töluliði er lítið sérstakt að segja. 6. töluliður er svo hljóðandi: „Stjórnir félaganna fallast á að gera svo oft sem óskað er, en eigi sjaldnar en á 6 mánaða fresti, ítarlegar fjárhagsáætlanir 12 mánuði fram í tímann til afnota fyrir Ríkisábyrgðasjóð og samgrn. Ríkisábyrgðasjóður og samstarfsaðilar samkv. 2. tölul. hér að framan skulu einnig fá árlega efnahagsog rekstrarreikninga félaganna og dótturfyrirtækja.

7. töluliður: „Til viðbótar veði í flugvélum þeim, sem keyptar verða og ríkissjóði verður veitt, skulu standa að handveði öll hlutabréf vor. Verða bréf þessi í vörslu Landsbankans eða Ríkisábyrgðasjóðs að handveði meðan ábyrgð ríkissjóðs stendur.“

Og 8. liður: „Flugvélar þær, sem keyptar verða samkv. ríkisábyrgð þessari, skulu skráðar á Íslandi.“

Þetta er sú yfirlýsing sem stjórn Flugleiða hf. mundi undirrita áður en ríkisábyrgðin yrði veitt. Auk þessa yrðu að sjálfsögðu greidd þau vanskil sem félagið er í við Ríkisábyrgðasjóð svo og vegna lendingargjalda á Keflavíkurflugvelli.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég leiði hjá mér, a.m.k. nú, að ræða um till. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar. Þar er um að ræða þann ágreining sem varð í n., hvort ríkið eigi án þess beint að þurfa þess að okkar mati í meiri hl. að gerast hluthafi í Flugleiðum hf. Ég vona svo að frv. þetta verði afgr. frá hv. Nd. í dag. Það hefur verið skoðað ítarlega í n., eins og ég áðan sagði, og ætti þess vegna ekki að þurfa eins ítarlega umr. í hv. þd. og ella væri.