14.05.1975
Efri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3473)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka undir margt af því sem ég heyrði hv. 5. þm. Norðurl. v. segja í sinni ítarlegu ræðu, en ég vil þó milda hann svolítið og reyndar mótmæla þeirri ádeilu sem mér fannst koma á form. n., hv. 5. þm. Austf. Ég held að form. n. hafi útvegað af mikilli samviskusemi allar þær upplýsingar sem um hefur verið beðið á nefndarfundum, bæði skriflegar og munnlegar. Ég hafði gagnrýnt fjáröflunarleiðina, en lýst fylgi með vegalagningunni sem hér um ræðir.

Ég hef áður talað um að að mínu mati beri að standa að vegalagningu um land allt á sama hátt og staðið er að orkumálum. Ég ætla ekki að fara að rekja það aftur hér. Hér þarf að gera stórátak með stórfelldum löngum erlendum lánum og byggja landið upp, þ.e.a.s. byggja landið allt í einu, á ég þar fyrst og fremst við þá hringbraut sem hér hefur verið rædd, láta svo aftur deiliskipulag vegalagninga bíða betri tíma. Þetta ætla ég ekki að gera hér að frekara umræðuefni, en ég vil ítreka það að ég lýsi því yfir að ég tel að form. hafi unnið sitt starf af mikilli samviskusemi þótt ekki sé tilgreind niðurstaða bréfanna sem bárust eða umsagna bankastjóra Seðlabankans, Þjóðhagsstofnunar og viðskiptabankanna, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. gat um að hefði verið æskilegt. En ég tel að hann hafi kynnt innihald allra bréfa og allra svara sem bárust af samviskusemi og dreifði flestum þeirra til nm. Þau, sem hann ekki dreifði, las hann upp á fundum n. og ég held að það séu nægjanlegar upplýsingar, ef nm. þá á annað borð mæta á nefndarfundum, en það er nú eins og það er. Það eru oft boðaðir fleiri en einn fundur á sama tíma svo að það eru kannske eðlilegar skýringar fyrir því að fjh.og viðskn. var ekki alltaf fullskipuð þegar form. las þær umsagnir sem honum höfðu borist. Það er talsvert mikið verk að vera form. n. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því áður en ég kominn í þessa ágætu stofnun, hv. Alþ. En ég ítreka það að ég lýsi fullum stuðningi við þau vinnubrögð sem form. fjh.- og viðskn. hefur viðhaft.