28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af því að hv. 1. flm. lét þess getið að hann gerði ekki till. um að vísa málinu til n. Ég vil lýsa andstöðu minni við þessa málsmeðferð. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að mál eins og þetta og það mál, sem greidd voru atkvæði um áður á þessum fundi, fari til meðferðar þn. Að vísu má segja um þetta mál að það hefur verið til meðferðar á tveim þingum áður og þm. ættu e.t.v. fremur að geta áttað sig á þessari till. fyrir þá sök. Á hinn bóginn er hér um nýkjörið þing að ræða, og að svo miklu leyti sem flm. og áhugamenn um framgang þessarar till. hafa réttmæta ástæðu til gagnrýni á seinlæti í afgreiðslu n. þingsins, þá ber að snúa sér að því að ráða bót á því starfsfyrirkomulagi og því seinlæti þn. að afgreiða ekki mál aftur frá sér svo að þingheimur geti kveðið upp úr um afgreiðslu mála, fremur en að láta af venjulegri þinglegri meðferð.

Herra forseti. Með tilvísun til þess, sem ég hér hef sagt, legg ég til að till. þessari verði að lokinni umr. nú í dag vísað til hv. allshn.