15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4322 í B-deild Alþingistíðinda. (3536)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég stend upp til að gera í örfáum orðum aths. við kafla í vegáætluninni sem nefnist Norðurlandsáætlun. Áður en ég kem að því vil ég fara örfáum orðum um vegáætlunina sjálfa og skal ég reyna að teygja lopann ekki um of.

Ég var að dunda við það áðan að gera mér grein fyrir því hvernig vegáætlun hefur þróast í ýmsum greinum, reikna út hundraðshluta meginflokka vegáætlunar, þ. e. a. s. hraðbrauta, þjóðbrauta og séráætlana. Kemur í ljós sem reyndar er ljóst, að hraðbrautirnar vaxa mjög. Árið 1973 var 28% fjármagnsins varið til hraðbrauta, 1974 28%, en eins og það var 1974 30%, 1975 38% í upphaflegri áætlun, við endurskoðun verður það 48%, en 1976 er það komið upp í 51%. Þjóðbrautir og landsbrautir standa hins vegar nokkurn veginn í stað, en þó með nokkrum sveiflum á milli ára. Séráætlanir eru aftur á móti nokkuð breytilegar. Þegar Skeiðarársandur kemur inn, þá hækka þær mjög mikið, allt upp í 51% 1974, en lækka síðan aftur.

Það, sem ég vildi draga hér fram, er að hraðbrautirnar vaxa og það er kannske ekki óeðlilegt, en með þessum vexti hraðbrautanna verður minna til skiptanna af heildarfjármagninu fyrir hin einstöku kjördæmi. Ég hef ekkert á móti hraðbrautunum og ég er sammála því að þær þarf að taka föstum tökum. En ég held að það eigi að vera meginsjónarmið okkar og meginstefna okkar að þær verði fremur að sitja á hakanum meðan ýmsir landshlutar búa við það vegakerfi sem kalla má lokað verulegan hluta ársins. Ég held að við verðum að kappkosta að gera alla meginvegi akfæra sem mestan hluta ársins. E. t. v. er þetta ekki unnt alls staðar allan tímann, það vitum við, en það er hægt að gera hér stórkostlegt átak og þarf að gera í ýmsum landshlutum þar sem vegir eru jafnvel enn þá niðurgrafnir. Það er með þetta í huga sem ég leyfi mér að gagnrýna þessa þróun.

Ég vil þó taka það fram að í meðferð fjvn. hefur þetta mál lagast töluvert. Þegar frv. var lagt fram var að vísu hraðbrautaféð ekki svona mikið eins og ég nefndi, en þá voru séráætlanirnar gífurlegar, sérstaklega vegna Norður- og Austurvegar. Í meðferð fjvn. hafa ýmsar þjóðbrautir verið teknar út úr og sérstakt fjármagn til þeirra veitt, þó að það megi kallast nokkuð undarleg ráðstöfun. Þannig hefur þjóðbrauta- og landsbrautahlutinn lagast allverulega í meðferð fjvn. En hraðbrautirnar hafa að sjálfsögðu aukist mjög mikið.

Ég held að hv. þm. þurfi að hugleiða þetta, hvort það sé rétt og æskileg stefna að leggja svona mikla áherslu á hraðbrautaframkvæmdirnar á meðan ólokið er veigamiklum verkefnum í ýmsum landshlutum sem segja má að loki þeim landshlutum mikinn hluta ársins.

Ég þarf ekki að lýsa ástandi Vestfjarðakjördæmis þar sem vegir eru lokaðir mánuðum saman inn og út úr því kjördæmi vegna snjóa og fyrst og fremst vegna þess að vegir hafa ekki verið lagðir þar, ekki aðeins yfir mikilvægar heiðar, heldur jafnvel einnig í byggð, þótt þeir séu hins vegar góðir innan kjördæmisins í vesturhluta þess inn í hina svonefndu þéttbýliskjarna. Ég ætla ekki að orðlengja þetta, en koma að því sem ég nefndi í upphafi, þ. e. Norðurlandsáætlun.

Drög að Norðurlandsáætlun voru lögð fram í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar um áramótin 1971–1972 og var þar gerð allítarleg úttekt á þörf Norðurlands í vegamálum. Þar var talið að heildarþörfin þá væri um 1600 millj. kr. og þörfin á Ströndunum um 160 millj. kr. eða rétt innan við 10% af heildarþörfinni á Norðurlandi, að Ströndunum meðtöldum. Strandirnar voru þarna teknar með þar sem þær höfðu ekki notið Vesturlandsáætlunar á sínum tíma, enda óumdeilanlegt að þar þurfti að gera veigamikið átak í vegamálum. Framkvæmdastofnunin hefur unnið mjög merkt og ágætt undirstöðuverk að þessu og gert þarna ítarlega úttekt á öllum landshlutanum og metið þörfina vandlega. Hins vegar verður það að segjast alveg eins og er, að því miður hefur aldrei tekist að koma út heilsteyptri áætlun til nokkurra ára yfir þessar vegaframkvæmdir. Þær hafa fyrst og fremst verið til eins árs eða svo í senn og það hefur verið töluvert deiluefni í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar að jafnvel þessar eins árs áætlanir hafa ekki legið fyrir fyrr en á síðustu stundu. Við gerum okkur grein fyrir því að þar hefur verið við mikla erfiðleika að stríða, sérstaklega að vita hve mikið fjármagn yrði fáanlegt til þessarar áætlunar hverju sinni. Þó keyrði um þverbak nú í ár. Þm. kjördæmanna voru á fundum sl. mánudag í þessu sambandi og þá birtist loksins Norðurlandsáætlun fyrir árin 1975, 1976 og 1977. Þessi áætlun hafði aldrei verið lögð fram í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, meira að segja ekki afgreidd af framkvæmdastjórum þeirrar stofnunar, og hún var fyrst lögð fram s. l. þriðjudag á stjórnarfundi Framkvæmdastofnunarinnar undir liðnum „önnur mál“, þegar fundi var raunar lokið, og varð ekki rædd þar og var þar samþ. með 5:2 atkv. að vísa áætluninni óræddri og óafgreiddri í raun og veru til samgrh. til frekari meðferðar. Má segja að þar hafi orðið uppgjöf í gerð þessarar áætlunar. Það er varla hægt að lýsa þessu á annan máta, því miður.

Flest árin hefur Strandabyggð hlotið um það bil 10% af því fjármagni sem verið hefur til ráðstöfunar. Það hefur sveiflast smávegis frá ári til árs og svo er gert ráð fyrir á árinu 1975, en á árinu 1976 er þetta hins vegar lækkað niður í 6%, 1977 er það 7%. Ég veit að allar þessar byggðir þurfa aukið fjármagn, en ég vil vekja athygli á því að aðrir hlutar Norðurlands en Strandir og norðausturhlutinn njóta t. d. hraðbrautafjármagnsins, sem þessir landshlutar gera ekkí. Og ef nú verður samþ. í Ed. frv. til l. um sérstaka fjáröflun til Norður- og Austurvegar, sem er frá Akureyri — við getum sagt suður um, austur um og til Egilsstaða, þá er náttúrlega alveg ljóst að sérstaklega vel er gert fyrir miðhlutann þarna á Norðurlandi. Ég viðurkenni að ekki veitir af, ekki er ég að öfundast út af því, alls ekki. En í slíkri séráætlun sem Norðurlandsáætlun verður að sjálfsögðu að taka tillit til slíks því að þessar séráætlanir eru til þess hugsaðar að lyfta einstökum landshlutum upp úr lægð að þessu leyti þar sem þær hafa orðið aftur úr í vegagerð.

Mér sýnist á árunum 1976 og 1977 svo sannarlega engin tilraun gerð til þess að bæta Strandabyggð þetta að einhverju leyti upp. Þvert á móti er hundraðshlutinn þar lækkaður. Þegar ég greiði atkv. með þessari vegáætlun, þá hef ég allan fyrirvara og lýsi fullkominni andstöðu minni við þá skiptingu sem kemur fram á árunum 1976 og 1977. Raunar er eina ástæðan til þess, að ég get stutt þessa áætlun eins og hún er, sú að hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir að áætlunin verði tekin til endurskoðunar í haust, enda mun þessi endurskoðun, sem nú er, raunar vera sú sem átti að fara fram á s. l. þingi og nær þá fyrst og fremst til áranna 1974 og 1975. Þetta er allt orðið nokkuð eftir á, þannig að ég lít svo á að þetta, sem kemur fram, Norðurlandsáætlun fyrir 1976 og 1977, sé á engan máta bindandi og verði að endurskoða frá grunni og með tilliti til gjörbreyttra aðstæðna, eins og ég hef nú rakið.

Ég ætla ekki að hafa þetta fleiri orð þótt fróðlegt væri að ræða um vegamál landsmanna. Ég vil aðeins segja það um brtt., sem hér hafa komið fram, að ég mun fylgja brtt. um vegskatt. Ég hef barist fyrir því lengi og beið lægri hlut í þeirri baráttu, en ég er enn þeirrar skoðunar að þetta sé sanngirnismál og eðlilegt mál og mun því fylgja þeirri brtt.