15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4347 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

259. mál, skákkennsla

Frsm. (Magnús T. Ólafsson) :

Hæstv. forseti. Menntmn. sendi frv. á þskj. 514 til umsagnar Skáksambandi Íslands og Skólastjórafélagi Íslands. Frá báðum þessum umsagnaraðilum komu mjög jákvæðar umsagnir. Við athugun á málinu taldi menntmn. þó rétt að gera á frv. þó nokkrar breytingar. Ég vil þó frekar kalla það orðalags- en efnisbreytingar.

Þar sem talað er um í 1. gr. frv. að ráðh. sé heimilt að skipa íslenskan skákmann í fast starf til kennslu í skák leggur n. til, að það sé orðað svo að ráðh. sé „heimilt að ráða,“ ekki skipa, og bætt er inn í: „eftir því sem fé er veitt til á fjárl.“ íslenska skákmenn í starf „til ákveðins tíma,“ en ekki í fast starf, til að „annast leiðsögn um skákstarf í skólum landsins“, í stað þess að í frvgr. er talað um kennslu í skák. Það var álit n. að þetta víðtækara orðalag ætti betur við þar sem ekki þyrfti aðeins að gera ráð fyrir því að skákmenn þeir, sem ráðnir yrðu í slíkt starf, önnuðust beina skákkennslu, heldur ekki síður að halda sambandi milli nemenda, sem skák iðka, og skáksamtakanna. Það var talið mundu bera bestan árangur fyrir skákstarf í landinu að tengsl milli uppvaxandi kynslóðar skákmanna og þeirra, sem þegar eru félagsbundnir, yrðu sem nánust og traustust.

Þá er rætt í frvgr. um að skákmaður skuli hafa hlotið stórmeistaratitil eða annan alþjóðlegan titil. Það leggur n. til að sé orðað einfaldlega svo að skilyrðið sé að skákmaður hafi hlotið alþjóðlegan titil án þess að titlar séu nefndir. Það var talið heppilegra ef svo skyldi fara að breytingar yrðu á titlum sem Alþjóðaskáksambandið veitir.

Þar sem rætt er um í frv. að laun skuli vera hámarkslaun menntaskólakennara leggur n. til að þau skuli miðast við launakjör menntaskólakennara án þess að fastákveða hámarkslaun.

Loks þar sem rætt er um að kennsluskylda skuli ákveðin með reglugerð vill n. að það sé orðað svo að starfsskyldu og starfstilhögun skuli ákveða með reglugerð. Er það í samræmi við fyrri orðalagsbreytingar, að hér sé ekki einvörðungu um beina kennslu að ræða.

Loks leggur n. til að fyrirsögn frv. verði breytt þann veg að þetta verði ekki frv. til l. um skákkennslu, heldur frv. til l. um skákleiðsögn í skólum.

Þar sem rætt er um að máli þessu sé nánar skipað með reglugerð taldi n. sjálfsagt og eðlilegt að við þá reglugerðarsamningu yrði leitað samráðs við skáksamtökin í landinu og þá skólamenn sem í hlut eiga.