16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (3640)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég lét þess getið í nál. að ég tæki ekki þátt í afgreiðslu þessa máls og ég vil í upphafi máls míns gera grein fyrir því hvers vegna ég tek ekki þátt í afgreiðslu þess. Það hafa verið miklar annir hér í þinginu að undanförnu og við hér í Ed. höfum ekki haft tækifæri til þess að fylgjast með gangi mála í Nd. Það var í gær að þessu máli var vísað til d. og í þeirri n., sem ég á sæti í, höfum við haft tækifæri til að ræða þetta mál á einum stuttum fundi í morgun. Ég tel að það sé vart hægt að ætlast til þess að þm. afgreiði svo stórt mál sem þetta án þess að fá tækifæri til þess að athuga það gaumgæfilega. En það var svo, að áður en n. hafði lokið störfum hafði þetta mál verið birt í dagskrá þingsins.

Þetta mál, sem hér um ræðir, er mikið jafnréttismál og ég er því í megindráttum sammála að koma skuli á fæðingarorlofi. Það er konunnar að ganga með barn og ala það. Hamingja og velferð barnsins er að sjálfsögðu undir umönnun foreldranna komið, ekki síst á fyrstu mánuðum í lífi barnsins. Ef slík umönnun á að geta átt sér stað verður móðurinni og föðurnum að vera kleift að nota tíma sinn til að annast það.

Fyrstu mánuðir og æviár eru mikilvæg fyrir hvern einstakling og þar af leiðandi fyrir það samfélag sem einstaklingurinn skal lifa og starfa í. Félagslegt og náttúrulegt umhverfi, sem börn okkar fæðast inn i, mun þess vegna hafa áhrif á þjóðfélagsþróunina um langt skeið inn í framtíðina. Í byrjun mætir barnið hegðun og lífsformi samfélagsins óbeint við uppeldi foreldranna. Fljótlega kynnist það samfélaginu nánar í gegnum fjölmiðla, nábúa og ættingja. Umhverfi barnsins er því á ábyrgð samfélagsins. Samfélag okkar hefur enn ekki gert ráðstafanir sem viðurkenna að fullu þetta sjónarmið.

Að því er varðar félagslegt umhverfi, sem börn okkar fæðast inn í, hafa rannsóknir leitt í ljós að börnin eru yfirgefin meir og meir í eigin tilveru. Fullorðnir virðast nota minni og minni tíma til samvista við börn sín og leiðir auðveldlega til einangrunar og óöryggis hjá börnunum. Hv. alþm. eru sjálfsagt engin undantekning í þessu efni í erilsömu starfi.

Þegar tengsl barnsins við fullorðna og eldri verða of lítil getur nauðsynlegur skilningur fyrir samfélaginu, sem barnið á að lifa í, orðið ófullnægjandi. Leiðin til sjálfstæðis, tillit til umhverfisins og skilnings á eigin stöðu liggur í gegnum ást, tryggð og tillit til sinna nánustu. Ófullnægjandi tengsl við mikilvægar aðrar manneskjur í lífi barnsins geta því orðið til þess að draga úr tilfinningalegum þroska og tilliti til umhverfisins. Að því er varðar náttúrulegt umhverfi er margt ófullnægjandi hér í okkar landi.

Í hugmyndafræðinni viljum við laða fram hegðun og skoðanir sem orsaka hjálpsemi, tillit til annarra og ábyrgðartilfinningu. Í reyndinni komumst við ekki fram hjá því að hið náttúrulega umhverfi hefur áhrif á hegðun barnsins. Við ættum því ekki að fara þess á leit við foreldra, að þeir kenni börnum sínum að ganga ekki á götunum, og samtímis að búa svo um hnútana að börnin fái fyrst og fremst götur til að fara um á. Sama er að segja um dagvistunarstofnanir o. fl. Þessi náttúrulegu atriði verða ekki skilin frá í hinu náttúrulega umhverfi barnsins.

Það er að mínum dómi afar mikilvægt að kona og maður hafi möguleika til að sinna barni sínu sem mest, sérstaklega fyrst á æviskeiðinu. Sem líður í viðleitni samfélagsins til að sinna ábyrgðinni á þeim börnum, sem fæðast inn í samfélagið, er sjálfsagt réttlætismál að gera móðurinni kleift að annast barn sitt af þeirri umhyggju sem til þarf. Ég er því fylgjandi þeirri hugsun í ljósi þeirrar skoðunar sem ég hef áður getið að umhverfi barnsins sé á ábyrgð samfélagsins. Fæðingarorlof kvenna er því barnsins vegna.

Ég er sammála þeirri skoðun að öll jafnréttisbarátta sé áfangabarátta, en baráttan verður að miða að ákveðnu markmiði. Hvert skal stefnt og hvernig? Þetta frv. stefnir að því að konur í verkalýðsfélögum skuli njóta greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Konur, sem ekki eru vinnufærar, hafa ekki möguleika til að fá atvinnuleysisbætur og hafa því ekki samkv. þessu möguleika til að fá fæðingarorlof. Sama gildir um konur, sem vinna hluta úr degi, t. d. við ræstingu o. fl. Kona bóndans hefur ekki slíka möguleika, enda þótt starf hennar sé erfitt og illa launað. Kona sjómannsins, sem þarf að vera heima við og gæta barna sinna ein, fær ekkert né heldur efnalitlar konur sem ekki hafa möguleika á að vinna utan heimilis.

Hér er vissulega um áfanga að ræða, en markmiðið verður hins vegar að vera ljóst. Núverandi ástand þessara mála felur í sér misrétti. Opinberir starfsmenn njóta einir þriggja mánaða fæðingarorlofs. Auk þess er greitt nokkuð úr sjúkrasjóðum og nokkur fjöldi kvenna fær 2–3 vikna fæðingarorlof hjá atvinnurekendum. Það er mín skoðun að þessi mál skuli leyst í gegnum almannatryggingakerfið. Slík lausn skapar mesta möguleika til að ná markmiðinu og áfangabaráttan á að vera í gegnum það á sama hátt og áfangabaráttan fyrir öðrum félagslegum tryggingum, eins og t. d. elli- og örorkulífeyrisþega.

Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður vegna baráttu launþega fyrir réttindum sínum og öryggi. Ég lít á sjóðinn sem eign launþeganna í þessu landi. Breytingar eiga ekki að eiga sér stað á reglum þessa sjóðs nema í samráði við þá er stofnuðu til hans. En hvað segir A. S. Í. fyrir hönd launþega, sem eiga þennan sjóð, í þessu máli? Ég hef haft tækifæri til þess að líta yfir umsögn Alþýðusambands Íslands og vil ég með leyfi hæstv. forseta, lesa hana hér upp:

„Óskað er umsagnar Alþýðusambands Íslands um frv. Ragnhildar Helgadóttur o. fl. um breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, en efni frv. er það að Atvinnuleysistryggingasjóði verði gert skylt að greiða verkakonum, sem eru félagar í samtökum innan A. S. Í., laun vegna þriggja mánaða fæðingarorlofs við barnsfæðingu. Alþýðusamband Íslands er því að sjálfsögðu fylgjandi að jafnrétti kvenna varðandi fæðingarorlof verði bundið í lögum, þar sem ekki hefur þrátt fyrir áralanga baráttu tekist að koma því réttlætismáli í höfn með frjálsum samningum verkalýðsfélaga og samtaka atvinnurekenda. Á hinn bóginn telur Alþýðusamband Íslands á allan hátt óeðlilegt að þau útgjöld, sem slíkri lögfestingu fæðingarorlofs hljóti að verða samfara, séu lögð á Atvinnuleysistryggingasjóð, en álítur að Tryggingastofnun ríkisins ætti að annast þetta hlutverk. Bendir A. S. Í. í þessu sambandi á það, að fæðingarorlof og atvinnuleysi eigi harla lítið sameiginlegt, og auk þess á þá staðreynd, að greiðslustaða Atvinnuleysistryggingasjóðs er nú mjög veik, en útlit í atvinnumálum hins vegar ótryggt og gæti því svo farið að stóraukin útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs án aukinnar tekjuöflunar til hans hefðu mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Í samræmi við framangreint er það því till. Alþýðusambands Íslands að frv. verði breytt á þann veg að Tryggingastofnun ríkisins verði fengið í hendur það hlutverk að tryggja konum það fæðingarorlof, sem þar er gert ráð fyrir, og jafnframt verði tekjur stofnunarinnar auknar svo að hún hafi til þess fjárhagslegt bolmagn.

Virðingarfyllst,

f. h. Alþýðusambands Íslands.

Björn Jónsson.“

Atvinnuleysistryggingasjóður hefur einnig sent umsögn og ég vil einnig lesa hana hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Umsögn um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof).

Með frv. þessu er lagt til að konur þær, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, njóti atvinnuleysisbóta í 90 daga samtals. Áætlun um útgjöld slíks fæðingarorlofs fylgir ekki frv. og liggur ekki fyrir. Ef miðað er við konu með tvö börn nema atvinnuleysisbætur nú frá 1. mars s. l. 1856 kr. á dag. Fæðingarorlof í samtals 90 daga, eins og kveðið er á um í frv., næmi þá 1856 kr. sinnum 90 eða sama sem 167040 kr. Þar eð ekki er vitað hve margar fæðingar mundu falla undir frv. þetta af þeim 4–5 þús. fæðingum, sem til falla á ári hverju, er ekki unnt að áætla kostnað Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna greiddra fæðingarorlofa ef frv. þetta verður að lögum. Það er hins vegar ljóst að hér er um gífurlega háar fjárhæðir að ræða. Ef breyting verður á þeim taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar, sem bætur eru miðaðar við, breytist hið fyrirhugaða fæðingarorlof í réttu hlutfalli við það. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar er að greiða því fólki bætur sem verður atvinnulaust. Í því skyni var Atvinnuleysistryggingasjóður myndaður. Ýmsar kvaðir hafa verið lagðar á sjóðinn með lögum, svo sem greiðsla á eftirlaunum aldraðra, sem áætluð er á þessu ári 113 millj. kr., og skylda til kaupa á verðbréfum veðdeildar Landsbanka Íslands vegna íbúðalána. Frá upphafi til 31. des. 1974 nema slík bréfakaup 50.3% af öllum lánveitingum úr sjóðnum eða samtals 1 milljarði 457 millj. 630 þús. kr. Að svo miklu leyti sem sjóðurinn er aflögufær þegar hann hefur innt af hendi þær kvaðir, sem á hann hafa verið lagðar með lögum, er eðlilegt og rökrétt að leitast sé við að ávaxta fé hans með þeim hætti að tryggja atvinnuöryggi fólksins í landinu og koma þannig í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta er þýðingarmikið verkefni og að þessu marki hefur stjórn sjóðsins stefnt frá upphafi.

Hér á eftir fer tafla sem sýnir þau verkefni sem sjóðurinn hefur leitast við að greiða fyrir með lánveitingum, sem hann hefur talið fært að veita, frá upphafi til ársloka 1974. Og þessi verkefni eru: lán til hafnabóta 364 millj. 400 þús. kr., lán til fiskiðnaðar 284 millj. 795 þús. kr., lán til annars iðnaðar 220 millj. 80 þús. kr., lán til atvinnuaukningar ýmislegrar 197 millj. 760 þús. kr., lán til vatns- og hitaveitu 247 millj. 350 þús. kr., lán til orlofs- og félagsheimila 128 millj. 400 þús. kr. Samtals eru þetta 1442 millj. 785 þús. kr. Verði frv. að lögum eru framangreindar fyrirgreiðslur skertar stórlega ef þær falla þá ekki niður með öllu.

Frv. þetta hindrar þannig eðlilega starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs, ef það verður að lögum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Sjóðsstjórnin minnir enn fremur á að lög um atvinnuleysistryggingar voru í upphafi sett fyrir tilhlutan aðila vinnumarkaðarins og telur stjórnin því varhugavert að á lögum þessum séu gerðar grundvallarbreytingar án samráðs við þessa aðila.“

Alþ. kýs fulltrúa sína í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þrátt fyrir lítinn tíma nm. gafst færi til að ræða við þessa fulltrúa á fundi n. milli kl. 11 og 12 í morgun. Þessir menn eru trúnaðarmenn Alþingis og hafa verið kosnir til þeirra starfa af þessari hv. stofnun og þeim sýndur trúnaður Alþ. Þessir trúnaðarmenn að undanteknum einum vöruðu við því að lögfesta þetta frv. án þess að aflað væri tekna eða kvaðir leystar af sjóðnum, eins og þeir orðuðu það. Engar rökstuddar till. hafa borist þess efnis að afla meiri tekna fyrir þennan sjóð eða leysa af honum kvaðir. Ég mun nú rekja nokkur atriði, sem eru aðeins örfá af þeim sem komu fram hjá stjórn sjóðsins á fundinum í morgun.

Í fyrsta lagi var upplýst að höfuðstóll sjóðsins væri um 3 milljarðar, þar af væru verðbréf um 2 milljarðar og inn í þeirri verðbréfaupphæð væru áhættulán 125 millj. Slík lán eru veitt vegna t. d. atvinnutækja sem hafa stöðvast, skipa sem hafa stöðvast, í þeim tilgangi að koma atvinnuástandi í sæmilegt horf. Sjóðurinn á inni hjá ríkissjóði 200 millj., í innheimtu 300 millj. og peninga í sjóði um það bil 300 millj. við síðasta uppgjör. Eitthvað mun sú upphæð hafa vaxið, en þó er sú upphæð ekki yfir 400 millj. kr. í dag. Það var því upplýst að svigrúm væri lítið til frekari kvaða.

Í öðru lagi var upplýst að sveitarfélög greiða 1/4 af tekjum sjóðsins. Þau fá einnig lán úr þessum sjóði. Lánsréttur þeirra er þess valdandi að þau greiða fyrr og betur þau gjöld sem til sjóðsins eiga að renna að því er upplýst var af sjóðsstjórninni. Var m. a. getið um það dæmi að það hefði komið fyrir nú fyrir stuttu að það hefði verið farið fram á lán að upphæð 1 millj. Viðkomandi sveitarfélag, sem sá aðili hafði búsetu í, hafði ekki greitt gjöld sín 6 millj. kr., sem innheimtust strax til þess að hægt væri að afgreiða þetta lán. Og það var upplýst af fulltrúum í sjóðsstjórn að það væri mjög hætt við því að það mundi ganga mun erfiðar að innheimta af þeim sveitarfélögum sem greiða til sjóðsins ef það yrði niðurstaðan að hætt yrði að lána til þeirra.

Í þriðja lagi var upplýst að á s. l. ári hefði biðtími til þess að njóta atvinnuleysisbóta verið afnuminn og hækkun á bótum hefði einnig átt sér stað. Þetta hefði að sjálfsögðu orðið þess valdandi að meiri kvaðir hefðu lagst á sjóðinn. Auk þess hefur verið ákveðið að 160 millj. kr. rynnu til Vestmannaeyja vegna náttúruhamfaranna þar.

Í fjórða lagi var upplýst að meiri hluta tekna sjóðsins er ekki á valdi sjóðsstjórnar að ráðstafa, og kom fram að hér væri um að ræða 50–70%.

Í fimmta lagi var upplýst að tilsvarandi atvinnuleysi og varð á árinu 1969 — þótt ég sé á engan hátt að gefa í skyn að ég sé svo svartsýnn að óttast slíkt gífurlegt atvinnuleysi —mundi kosta sjóðinn um 617 millj. kr.

Í sjötta lagi kom það fram hjá fulltrúum í sjóðsstjórn að ef þessi kvöð yrði lögð á sjóðinn, þá væri a. m. k. nauðsynlegt að leysa sjóðinn undan kaupaskyldu á bréfum Húsnæðismálastjórnar ríkisins og kæmi inn ákvæði þess efnis að trmrh. væri heimilt að leysa sjóðinn undan þessari kvöð.

Í sjöunda lagi upplýsti formaðurinn og kvað svo að orði að engar lánsumsóknir yrðu afgreiddar á þessu ári ef lög þessi yrðu samþykkt.

Þessar upplýsingar og aðvaranir fengum við nm. frá trúnaðarmönnum Alþ. í nesti okkar af þessum fundi, og ég skal viðurkenna að ég hef ekki haft tækifæri til þess að fara nánar ofan í þessi mál. En ég spyr: Er okkur heimilt hér á hv. Alþ. að virða þessa menn að vettugi og afgreiða málið án aths.? Til hvers erum við að kjósa trúnaðarmenn hér á Alþ. ef við hlustum ekki á orð þeirra varðandi þau mál sem þeim er sýndur trúnaður í? Ábyrgð okkar er mikil og það er alveg sama hversu mikill áhugi okkar er á þessu máli og hversu sammála við erum um að þetta jafnréttismál nái fram að ganga, það leysir okkur ekki undan þeirri skyldu að benda á leiðir til að ná markmiðunum, jafnframt því sem við verðum að gera okkur grein fyrir því hvaða afleiðingar ákvarðanir okkar hafa.

Með þetta í huga, sem ég hef að framan sagt, og í ljósi þess að ég er, eins og ég hef margtekið fram, eindreginn stuðningsmaður þess að það verði komið á launuðu fæðingarorlofi, hef ég ásamt Axel Jónssyni, Stefáni Jónssyni og Jóni Árm. Héðinssyni ákveðið að flytja hér dagskrártill. sem hljóðar svo:

„Þar sem í till. heilbr.- og trn. þessarar hv. d. er lagt til, að lög þessi komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1976, og með tilvísun til þess, að lagaákvæði þessi þurfa nánari athugunar við, samþykkir d. að fela ríkisstj. að semja frv. til l. um málið, er verði lagt fram í upphafi næsta reglulegs Alþ., og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil aðeins geta þess að lokum að það má rétt vera, ef þetta mál verður lögfest frá og með 1. jan. 1976, að það gefist tóm til að athuga það að finna tekjustofna handa þessum sjóði eða leysa af honum kvaðir. En hvert er verkefni hv. n. hér á Alþ., ef það er ekki að leysa mál og finna leiðir til þess að málin nái fram að ganga? Á Alþ. að vísa því frá sér og segja sem svo að þessi lög skuli samþykkt, en síðan eigi að rannsaka það á næstu mánuðum hvernig við verði brugðist? Hver á að gera það?

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti, en ég vildi koma á framfæri þessari skriflegu dagskrártillögu.