05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

38. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þó að hæstv. ráðh. hafi nú gengið burtu vil ég samt ekki láta hjá líða að þakka honum fyrir greinargóð svör og þær upplýsingar sem hann hefur gefið um undirbúning þessarar brúargerðar.

Ég vissi það fyrir, enda kom það fram í því sem ég sagði áðan, að undirstaða brúarinnar er trygg. Þjórsárhraunið er þarna 12–15 m þykkt yfir allt svæðið þar sem brúin kemur til að standa.

Varðandi þá verðágiskun, sem hæstv. ráðh. kom hér með, blöskrar mér það ekki að svo löng og mikil brú sem kemur til með að gera svona mikið gagn kosti 280 millj. kr. Vegarspottana tel ég ekki með. Að sjálfsögðu þarf að leggja í vegi í þessu kjördæmi eins og annars staðar á landinn.

Því miður kom það í lokasvari hæstv. ráðh. að hann gæti ekki gefið fyrirheit um að þetta yrði tekið inn í vegáætlun næst komandi. Hins vegar fagna ég því og þakka honum fyrir að hafa þó sagt að hann vildi a.m.k. stuðla að því að fjármagn fengist til fullnaðarrannsókna. Oft hefur verið nauðsynlegt að koma brú yfir Ölfusá við Öseyrarnes, en nauðsynin hefur sennilega aldrei verið eins mikil og nú með þeim breyt. sem hafa orðið í útgerð í landinu og þessi þorp hafa nú í huga að tileinka sér til þess að hafa jafnt hráefni til vinnslu allt árið. Nú er Þorlákshöfn loksins að verða örugg höfn, sem hún hefur ekki verið, og Suðurland hefur ekki hingað til haft neinni öruggri höfn á að skipa. Þess vegna er nauðsyn brúarinnar aldrei meiri en nú.

Vissulega eru mörg verkefni í vegamálum og brúamálum á Suðurlandi og ekki skal ég draga úr því að mörg þeirra eru nauðsynleg. En ég vil leyfa mér að halda því fram að það liggi varla meira á nokkurri framkvæmd í þessum efnum en einmitt gerð þessarar brúar við Óseyrarnes.