09.12.1974
Efri deild: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

84. mál, útvarpslög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Vorið 1971 var sett ný löggjöf um Ríkisútvarpið og rekstur þess. Í l. þessum voru ýmis nýmæli, og m.a. var þar kveðið á um það í 5. gr. að útvarpsráð skyldi kjörið á 4 ára fresti. Í grg. frv. var þessi ákvörðun rökstudd með þessum orðum, sem ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta:

„Þeirri skipan er haldið óbreyttri að Alþ. kjósi 7 manna útvarpsráð hlutfallskosningu.

Í upphafi var útvarpsráð skipað fulltrúum frá ýmsum stéttum og stofnunum, svo sem prestum, kennurum og Háskóla Íslands. Frá þessu var horfið árið 1934 og ákveðið að allir skráðir útvarpsnotendur skyldu kjósa hluta ráðsins. Þeirri skipan var breytt þegar eftir eitt kjörtímabil, árið 1939, en síðan hefur Alþ. kosið ráðið, 5 og síðar 7 menn. Þrátt fyrir nokkra gagnrýni hafa ekki komið fram till. um aðra skipan sem ætla má að betur dugi en þessi er valin var að fenginni reynslu af öðrum kerfum og hefur dugað í 3 áratugi.

Þá er gert ráð fyrir að útvarpsráð sé kosið til 4 ára hverju sinni. Árið 1939 var ráðið kosið til 3 ára en 1942 var l. breytt á þann veg, að hvert nýkjörið þing skyldi kjósa útvarpsráð. Hefur komið fyrir að kosið væri í útvarpsráð á sama ári og kjörtímabil ráðs væri innan við hálft ár.

Með núverandi skipan er Ríkisútvarpið nátengt við stjórnmálabaráttuna og sveiflur hennar. Virðist hyggilegra og meira í samræmi við hugmyndir samtíðarinnar um sjálfstæði Ríkisútvarpsins að útvarpsráð hafi fast kjörtímabil, eins og mikill meiri hluti þeirra stjórna og ráða, sem Alþ. kýs. Mundi það skapa meiri festu í störf útvarpsráðs og stofnunarinnar í heild.“

Alþ. fór að ráðum þeirrar n., sem undirbjó frv. um Ríkisútvarpið og breytti þessum ákvæðum á þann veg, að kjörtímabil útvarpsráðs væri 4 ár hverju sinni. Um þetta var enginn ágreiningur hér á Alþ. og menn virtust sammála um, að þetta væri, eins og sagði í grg., í mestu samræmi við hugmyndir samtíðarinnar um sjálfstæði Ríkisútvarpsins, og höfðu þá vafalaust í huga að meiri hluti þeirra stjórna og ráða, sem Alþ. kýs, eru kosin með þessum hætti. En sem sagt nú er aftur hlaupið til og gerð till. um að því skuli breytt, og þá er von að spurt sé: Hvað kemur til? Hver er ástæðan?

Það er augljóst að ástæðan er ekki sú að aðstæður hafi breyst. Allar aðstæður eru nú nákvæmlega þær sömu og þær voru þegar lögin voru sett fyrir þremur árum. Flokkaskipan hefur að vísu lítillega breyst, eins og vænta má að gerist í hverjum kosningum, en hitt er ljóst, að það er ekki þess vegna sem hlaupið er til að breyta þessu ákvæði. Tveir stærstu flokkarnir á Alþ. kusu tvo fulltrúa hvor í útvarpsráð seinast þegar kjörið var, en minni flokkarnir þrír kusu hver einn fulltrúa og er því ljóst að þeir fulltrúar, sem Framsfl. og Sjálfstfl. kusu fyrir þremur árum eru meiri hluti ráðsins.

Skýringin er ekki heldur sú að svo standi nú á að formaður útvarpsráðs sé ekki stuðningsmaður núv. stjórnarflokka, því að öllum hefur að sjálfsögðu verið ljóst að slíkt gæti alltaf gerst og hlyti oft að gerast. Þegar stjórnarskipti verða á miðju kjörtímabili, sem getur orðið oftar en einu sinni, þá getur að sjálfsögðu oft komið til þess að formaður ráðsins sé í stjórnarandstöðu. Það er því ekki skýringin. Það var staðreynd, sem blasti við öllum.

Nei, skýringin á þessu tiltæki blasir að sjálfsögðu við öllum sem til þekkja. Framsfl. er óánægður með einn af þeim fulltrúum, sem flokkur hans kaus í útvarpsráð fyrir þremur árum, og þess vegna krefst hann þess nú að fá að skipta. Og það þolir ekki einu sinni bið í eitt ár. Ástæðan er sem sagt einfaldlega pólitískt ofríki sem satt best að segja á sér ekki mörg fordæmi hér á landi. A.m.k. man ég ekki eftir því að stjórnarstofnun á vegum ríkisins væri sett af og önnur kosin í hennar stað vegna þess eins að einn flokkurinn, sem ætti menn í þeirri stofnun, felldi sig ekki við pólitískar skoðanir þess manns sem hann hefði kjörið í viðkomandi stofnun.

Ég held að það sé ósköp ljóst að flutningur þessa frv. er ekkert annað en pólitískt siðleysi, fyrst og fremst vegna þess að með því neitar einn flokkur, í þessu tilviki Framsfl., að fara eftir þeim leikreglum, sem hann sjálfur hefur sett hér á Alþ. og sjálfur staðið að og samþ.

Þegar vinstri stjórnin kom tilvalda fyrir rúmum þremur árum stóð eins á og nú að ýmsar mikilvægar stofnanir og ráð, sem kjörið hafði verið í af Alþ., áttu eftir að sitja í 1–2 ár, því að eins og kunnugt er fer það ekki nema sjaldan saman að kjörtímabil Alþ. og kjörtími viðkomandi stofnana falli á nákvæmlega sömu árin. Viðreisnarstjórnin sáluga hafði meiri hluta í þessum stofnunum í hálft annað ár eftir að hún fór frá og voru engar athugasemdir við það gerðar. Ég get nefnt sem dæmi bankaráð Búnaðarbankans, bankaráð Landsbankans, bankaráð Útvegsbankans, bankaráð Seðlabankans, stjórn Áburðarverksmiðjunnar, stjórn Sementsverksmiðjunnar, og fleiri dæmi mætti nefna, en að sjálfsögðu var þetta látið gott heita, enda þótt öllum hafi verið ljóst að því færi víðs fjarri að meiri hluti bankaráðs og einstakar gerðir hans væru þáv. meiri hluta Alþ. að skapi.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Ég vil aðeina segja það, að mér þykir leitt til þess að vita að jafnágætur maður og hæstv. menntmrh. skuli láta hafa sig í að flytja þetta frv. Ég skil ósköp vel að hann skyldi ekki vera að ómaka sig við að hafa mjög langa framsöguræðu um þetta mál, því að rök verða vist fá fundin því til stuðnings.

Ég viðurkenni fúslega að meiri hluti Alþ. hefur formlegt vald og formlegan rétt til þess að breyta l. um útvarpsráð á þennan veg. En ég leyfi mér að halda því fram að það hafi ekki siðferðilegan rétt til þess, og ég tel að það sé siðleysi að breyta leikreglum, sem snerta lýðræði og frjálsa skoðanamyndun og allir flokkar hafa komið sér saman um, í þeim eina tilgangi að losa sig við ákveðna einstaklinga sem viðkomandi flokkur er ekki nógu ánægður með.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. og n., sem fær þetta mál til meðferðar, sjái sóma sinn í því að stuðla að því að það verði fellt hér í þinginu ellegar a.m.k. látið liggja í kyrrþey.