09.12.1974
Efri deild: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

84. mál, útvarpslög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Um frv. af þessu tagi er raunar best að segja sem minnst, slíkt óbragð sem að því er. Ég skal því verða stuttorður.

Það hryggir mig að sjá minn góða vin, hæstv. menntmrh., verða að láta undan þeim öflum, sem hafa fjandskapast út í núv. meiri hl. útvarpsráðs og er nær eingöngu að finna í svartasta íhaldi þessa lands. Mergurinn málsins er auðvitað hræðsla, hræðsla þess íhalds, sem vill gera Morgunblaðið að biblíu allra landsmanna, hræðsla þess við, að ríkisfjölmiðlarnir birti of mikið af annars konar sannleika en þar birtist. Hafa ýmsir ærst bókstaflega þegar aðrar kenningar hafa heyrst en þeir telja sér þóknanlegar. Það er leitt, að hæstv. ráðh. skuli óbeint taka hér undir. Þetta skoðanafrelsi virðist nú eiga að fyrirbyggja. Og innsti draumurinn er auðvitað sá hjá vissum aðilum að gera ríkisfjölmiðlana að nýjum „Morgunblöðum“ svo að einokunin geti orðið sem algerust á skoðanamyndun fólks.

Ég óska núv. útvarpsráðsmeirihluta hjartanlega til hamingju með þennan ótta, þessa hræðslu, sem hefur skelft þetta íhald af og til, um leið og ég samhryggist hæstv. menntmrh. með það hlutskipti sem hann nú, áreiðanlega tilknúinn af sér verri mönnum, hefur tekið að sér. Það er sannarlega rétt að betri viðurkenningu var tæpast unnt að fá en árásir svartasta afturhaldsins í landinu, — árásir sem jafnvel eru gerðar í nafni meistarans frá Nazaret, í sömu andrá og þær hafa verið gerðar í nafni annarrar heilagrar þrenningar þar í bæ: NATO, Nixons og CIA, — árásir sem hafa verið gerðar með svipuðu prúðmannlegu orðfæri og gaf að líta í Morgunblaðinu nú um helgina út af 1. desembersamkomu stúdenta þar sem hvort tveggja fór saman, heilög reiði yfir orðfæri stúdenta, sem ég var reyndar sjálfur lítt hrifinn af sumu hverju, en einnig blandaðist inn í heilög reiði hinna hreinu vandlætara og siðameistara, orðbragð sem ekki er með nokkru móti prenthæft og ég verð því að sleppa tilvitnunum í vegna virðingar þessarar hv. stofnunar.

Sams konar orðfæri blasti við í hneykslunarskrifum út af sögu ungrar stúlku í fyrra. Slæmt fordæmi var þessi saga sögð. En hvert var og er fordæmi okkar, jafnvel þeirra sem hæst létu og mér er ekki grunlaust um að hafi ritað suma pistlana með timburmenn helgarinnar í hausnum? Spegilmynd þjóðarinnar, spegilmynd meiri hl. fólksins, slíkt á útvarpsráð að vera samkv. kenningunni. Ja, svei! Man ekki hæstv. menntmrh. eftir því að á vinstristjórnarárunum var þessi kenning uppi höfð um Morgunblaðið af Morgunblaðinu sjálfu þegar það var að ærast út af vinstri stjórninni alveg sérstaklega í tilteknu máli? Þá þóttist það vera hin eina sanna spegilmynd þjóðarinnar. Við höfum slíka spegilmynd afskræmingarinnar nú þegar og þurfum síst af öllu að gera útvarp og sjónvarp að slíkum spegilmyndum einnig.

Hlutleysi útvarpsins getur ekki verið fólgið í algerri þögn um viss málefni sem e.t.v. eru mikilvægust allra. Hlutleysi getur ekki heldur verið fólgið í því að ákveðnir aðilar fái að fjalla um tiltekin efni og síðan ekki söguna meir. Þar þurfa og eiga einmitt að koma fram hinar ýmsu skoðanir í þjóðfélaginu, ekki síður þær sem eru í minni hl. Sá minni hl. getur orðið meiri hl. morgundagsins og á sama rétt á sér. Þetta sjónarmið sýnist mér núv. útvarpsráð hafa rækt með prýði.

Nauðsyn þess að losna þar við tiltekinn meiri hl. hlýtur að vera af þeirri rót runnin að vinnubrögð eigi að breytast. Ég óttast þau umskipti. Ríkisfjölmiðlar eiga að vera viður vettvangur frjálsra og opinskárra skoðanaskipta. Þar eiga sem flestar raddir að heyrast. Sumum kann ég að vera ósammála, sumum þeir Morgunblaðsmenn. En hvort tveggja á að koma fram. Við eigum svo sannarlega að vera menn til að hlýða á andstæðar skoðanir, eða hefur ekki orðið „lýðræði“ eitthvað verið nefnt í þessu sambandi?

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum hér um. Eitthvað býr undir. Hér liggur svo sannarlega fiskur undir steini, og það er grunur minn, að það sé farið að slá í hann, svo að ekki sé meira sagt. Hins vegar skal það besta vonað, m.a. að hæstv. ráðh. sjái svo til, að alræði íhaldsins verði ekki ofan á í nýju útvarpsráði, með því t.d. að setja ekki sálufélaga þeirra úr liði Framsóknar þeim við hlið. Þá yrði svartnættisins ekki langt að bíða og fjölmiðlarnir okkar yrðu brjóstabörn Morgunblaðsins, og þá er illa farið, vægast sagt.

Innsta ósk mín er nú að hæstv, ráðh. dragi þessa frumvarpsómynd til baka, því að að hans eigin frumkvæði er hún varla komin hér inn á borð. Því skal ég a.m.k. seint trúa.