10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Undanfarin ár hefur það blasað við að mikill orkuskortur væri fyrirsjáanlegur á Norðurlandi. Ástæðurnar eru margþættar, en vafalaust er sú veigamest að í tíð viðreisnarstjórnarinnar settu menn traust sitt á orkuöflun frá Laxá í Þingeyjarsýslu og höfðu uppi háfleyg áform um stórvirkjanir í Laxárdal í trássi við augljós náttúruverndarsjónarmið og án þess að ráða yfir rennsli þess vatns sem virkja átti.

Eftir að ný stjórn kom til valda og samningar tókust um lausn Laxárdeilunnar var fljótt ljóst að fljótvirkasta og hagstæðasta leiðin til að tryggja norðlendingum ódýrt rafmagn væri að leggja tengilínu milli Norður- og Suðurlands, enda væri almenn nauðsyn af hagkvæmnisástæðum að tengja rafmagnsveitur landsins í eitt orkuöflunar- og dreifikerfi. Reyndar er talsvert langt síðan fyrst var um það rætt að tengja saman orkuveitukerfin, og þess má geta að Landsvirkjun fékk heimild Alþ. til að leggja stofnlínu norður í land þegar árið 1966. Sama ár fékk Laxárvirkjun heimild til að leggja stofnlínu til Norðurlands vestra. Það var þó ekki fyrr en vorið 1973 að Alþ. veitti í fyrsta sinn fé til þessarar framkvæmdar. Því miður hefur undirbúningur verksins tafist nokkuð af tæknilegum ástæðum og þá fyrst og fremst vegna rannsóknar, sem fram þurfti að fara áður en ákvörðun yrði endanlega tekin um línustæðið. Hins vegar verður því ekki haldið fram með rökum að skortur á fjármagni hafi tafið framkvæmdir. Á fjárl. þessa árs og í l. um erlendar lántökur er gert ráð fyrir 300 millj. kr. fjármagnsútvegun til stofnlínu um Vestur- og Norðurland, en hún hefur vegna legu sinnar hlotið nafnið byggðalína manna á meðal. Ef unnt átti að vera að leiða orku eftir þessari línu veturinn 1975–76 hefðu framkvæmdir þurft að hefjast þegar í haust. Hönnun þess hluta verksins, sem vinna mátti á þessu ári, var lokið í ágústmánuði. Staurar höfðu verið pantaðir og var meginparturinn af þeim kominn í ágústlok, að því er mér er tjáð. Fyrir lá að reisa línu norður í Hrútafjörð þegar í haust„ þannig að í árslok næsta árs mætti flytja 5–10 mw. eftir 60 kw. línu norður í Húnavatnssýslu, en með því hefði mátt losna nokkurn veginn við alla dísilvélakeyrslu á Norðurlandi vestra síðari hluta næsta vetrar, veturinn 1976.

En um þessi sömu mánaðamót, í ágústlok, kom ný ríkisstj. til valda. Framkvæmdir hófust ekki eins og ráðgert hafði verið og síðan hefur hver mánuðurinn af öðrum liðið án þess að hafist væri handa. Hvað veldur þessum drætti? Gerir hæstv. iðnrh. sér ekki ljóst að með þessari töf er hann að koma í veg fyrir að byggðalína komi að notum á næsta vetri. Ég veit að vísu að í flokki hæstv. ráðh. eru ýmsir þm., sem í fyrravetur börðust af mikilli hörku gegn þessari byggðalínu og héldu margar ræður gegn þeirri framkvæmd, og þ. á m. var reyndar hæstv. núv. forsrh. En ég hef leyft mér að vona, að hæstv. iðnrh. væri annarrar skoðunar, og hefði verið seinn til að trúa því að hann léti hæstv. forsrh. eða aðra þm. taka ráðin af sér á sviði orkumála.

Um þetta er sem sagt spurt: Hvers vegna eru framkvæmdir enn ekki hafnar við lagningu byggðalínunnar milli Norður- og Suðurlands? Til viðbótar vil ég svo leyfa mér að bæta við einni spurningu, sem er náskyld þessari, þ.e. hvort ekki sé fyrirhugað að tengja orkuveitusvæði Skeiðsfossvirkjunar í Fljótum við orkukerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Ég hef tilkynnt iðnrh. fyrir allöngu um þessa viðbótarfsp. og hann hefur fallist á að svara henni um leið og hann svarar fyrri spurningunni, enda þótt þessi síðari fsp. liggi að vísu ekki fyrir á prentuðu þskj.