10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að taka það fram að ég held að það hafi aldrei leikið neinn vafi á því að það yrði staðið við ákvörðun fyrrv. ríkisstj. um það að byggð yrði þessi lína norður. Ég held að það sé ekki nema tæpur hálfur mánuður síðan við samþingsmennirnir vorum báðir staddir á fundi bæjarstjórnar Sauðárkróks, og þá lýsti ég því að sjálfsögðu yfir að það yrði staðið við þá ákvörðun. Hins vegar skal ég ekki fara út í deilur að öðru leyti um það hvort þetta sé dýrari lausn eða ódýrari en einhver önnur hugsanleg, en þetta er langfljótvirkasta leiðin og sú eina sem sjálfsagt er að fara eins og sakir standa.