10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

308. mál, atvinnulýðræði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á þskj. 65 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi fsp. til hæstv. félmrh.:

„1. Hvernig miðar störfum n. sem félmrh. skipaði 30. ágúst 1973 til þess að semja frv. til laga um atvinnulýðræði?

2. Er þess að vænta, að ríkisstj. leggi slíkt frv. fyrir þing það sem nú situr að störfum?“ Eins og hv. þm. er kunnugt hefur nú um talsverða hríð staðið yfir í nálægum löndum athugun á félagslegum nýmælum í samskiptum atvinnurekenda og launþega. Ný mál hafa verið innleidd í stjórnmálabaráttuna af jafnaðarmönnum í þessum löndum og taka þau mið af því stefnumáli þeirra að útfæra grundvallarkenningar lýðræðisins í hið daglega líf almennings, þannig að lýðræði ríki ekki aðeins í stjórnmálum, heldur einnig í efnahagsmálum og atvinnumálum. Meginrökstuðningurinn fyrir þessum nýju hugmyndum er að sjálfsögðu sá að eigi mannlegt samfélag að grundvallast af lýðræði, þ.e.a.s. jöfnum rétti allra manna til aðildar að ákvarðanatöku um sameiginleg málefni, þá verði það lögmál lýðræðis, sem sjálft stjórnarfarið byggist á, að gilda jafnt um aðra þætti mannlegra samskipta, svo sem í atvinnulífi, í menntakerfi og viðar. Sé það viðurkennt að allir þegnar samfélagsins, sem fullnægja ákveðnum skilyrðum eigi að hafa jafnan íhlutunarrétt við stjórn sameiginlegra mála ber einnig að viðurkenna slíkan jafnan rétt allra manna til áhrifa og ákvarðanatöku í öðrum málum en stjórnmálum sem varða hag hvers og eins ekki minna en þau mál sem almennt eru flokkuð undir stjórnmál. Fyrr en það er orðið er ekki hægt að segja að þjóðfélagið grundvallist á lýðræði og lýðræðislegum aðferðum við stefnumótun og ákvarðanatöku.

Stórt atriði í því að hefja lýðræðisleg lögmál til verks í daglegu lífi er að skapa launþegum aðstöðu til áhrifa á ákvarðanir, sem teknar eru í atvinnugreinum eða atvinnu, sem launþegarnir starfa við. Afstaða jafnaðarmanna er sú að fyrirtækin séu til fyrir fólkið, en ekki fólkið fyrir fyrirtækin, og þar eð fyrirtækin eiga að starfa í þágu heildarinnar og þar á meðal þeirra mörgu sem við þau starfa, þá er rétt og eðlilegt að starfsfólkið, sem leggur fram orku hugar og handar við framleiðslustörfin, eigi ekki minni rétt til áhrifa á hvaða ákvarðanir eru teknar í fyrirtækisins nafni en þeir sem leggja fram fjármagnið. Maðurinn hlýtur að vera og eiga að vera rétthærri en auðurinn. En meðan sá, sem einvörðungu getur lagt fram vinnu sína, hefur minni áhrif á stefnumótun í atvinnulífinu en hinn, sem byggir áhrifaaðstöðu sína á afli auðsins, er þessu öfugt farið. Stefnan hlýtur að vera sú, að öllum sé skapaður sami réttur til slíkra áhrifa. Auðurinn einn á hvorki að vera afl né réttur. Maðurinn er gullið þrátt fyrir allt. Í þeim anda eru mótaðar þær till. um efnahags- og atvinnulýðræði, sem jafnaðarmenn um heim allan hafa borið fram og berjast fyrir.

Íslenskir alþfl.-menn hafa eins og aðrir jafnaðarmenn í öðrum löndum brotið fyrstir manna upp á þessum nýju baráttumálum um efnahagsog atvinnulýðræði. Alþfl. hefur fylgst mjög náið með þróun þessara mála í nálægum löndum og hefur fyrstur íslenskra stjórnmálaflokka tekið baráttu fyrir efnahags- og atvinnulýðræði upp á stefnuskrá sína. Í beinu framhaldi af því hafa þm. Alþfl. oft hreyft þessu máli hér á Alþ., ýmist með því að flytja frv. um hlutdeild starfsliðs í stjórn fyrirtækja almennt eða með till. varðandi einstök ríkisfyrirtæki. Slíkar till. eru góðar, svo langt sem þær ná. En okkur þm. Alþfl. er ljóst að nauðsynlegt er að setja heildarlöggjöf um þessi mál, rammalöggjöf sem kveður á um þessi almennu réttindi, en veitir launþegasamtökum svigrúm til sérsamninga um málið eftir séraðstæðum. Þá er okkur einnig ljóst að vegna þess hve íslenskar aðstæður eru um margt ólíkar því, sem gerist í öðrum löndum, þarf eflaust bæði að afla sem viðtækastra upplýsinga um fyrirkomulag þessara mála þar, og aðlaga þá framkvæmd íslenskum aðstæðum.

Vegna þessa flutti þingflokkur Alþfl. á þingi 1973 svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til að semja frv. til l. um atvinnulýðræði, þar sem launþegum verði tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra.“

Till. þessari var vísað til ríkisstj., en sú ríkisstj., sem þá sat, hafði m.a. svipuð mál á stefnuskrá sinni, í framhaldi af þessari afgreiðslu og jafnframt með hliðsjón af því, að ríkisstj. hafði í málefnasamningi sínum heitið því að beita sér fyrir framkvæmd atvinnulýðræðis á Íslandi, skipaði þáv. félmrh. 30. ágúst 1973 n. til þess, eins og segir í skipunarbréfi n., að semja frv. til l. um atvinnulýðræði og í starfi sínu skuli n. m.a. hafa hliðsjón af ákvæðum málefnasamnings stjórnarfl. og till. til þál. um atvinnulýðræði fluttri af Gylfa Þ. Gíslasyni o.fl.

Nú er liðið talsvert á annað ár frá því að n. þessi tók til starfa. Ætti því að mega ætla að starfi hennar færi senn að verða lokið og þá væntanlega að í framhaldi af því verði lagt fram frv. eða frumvörp að lögum um atvinnulýðræði á Íslandi. A.m.k. væntum við alþfl.menn þess að þess verði skammt að bíða.