10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

308. mál, atvinnulýðræði

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Orðið atvinnulýðræði er ansi stórt orð. Ég er hræddur um að við komum því nú ekki á án þess að breyta eignarréttarskipan æðimikið frá því sem nú er. Hins vegar er hægt með löggjöf að tryggja aukin áhrif starfsmanna á rekstur fyrirtækja, og ég held að það sé ákaflega mikið nauðsynjaverk að gera það og verður að kanna það hér á landi út frá þeim sérstöku forsendum sem við búum við. Atvinnurekstur á Íslandi er á margan hátt öðru vísi en annars staðar.

Ég vil í sambandi við þetta minna á að í tíð fyrrv. stjórnar var komið upp samstarfsnefnd af þessu tagi við Sementsverksmiðjuna, og það var gert í samráði við Alþýðusambandið og aðra aðila til þess að afla reynslu um þetta. Það sama gerðist í Landssmiðjunni, og þar hygg ég að öllu meira hafi verið að þessu unnið. Í sumar var breytt reglum um þetta samkvæmt ábendingu starfsfólksins þar út frá þeirri reynslu sem þar hafði fengist. Það stóð einnig til að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Þetta var af minni hálfu hugsað sem tilraunastarfsemi, því að ég held, að við verðum að átta okkur á því að þróun af þessu tagi tekur æðilangan tíma og við verðum að vinna þessa hluti út frá okkar eigin forsendum. Ég hygg því að sú reynsla, sem kann að fást frá þessum ríkisfyrirtækjum, geti verið býsna mikilvæg, ef rösklega er að þessu unnið af starfsfólkinu í fyrirtækjunum sjálfum.