10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

73. mál, kaup á farþegaskipi er sigli milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá öllum ræðumönnum að hér er hreyft býsna athyglisverðu og merkilegu máli og ég er hv. flm. þakklátur fyrir að hann skuli nú að nýju leggja þetta mál hér fram til umr. og athugunar.

Ég vil aðeins upplýsa það í sambandi við þessa hugmynd um skip sem gangi milli Íslands og annarra Norðurlanda, að hún hefur verið rædd allmikið í samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs þar sem ég hef átt sæti síðustu árin, og á fundi n. nú í okt. var undirbúin till. sem fjallar um það að Norðurlandaráð athugi möguleika á rekstri slíks skips eins og hér er talað um, þ.e.a.s. bílferju- og farþegaskips sem gangi á milli Færeyja, Íslands og annarra Norðurlanda. Að þessari till. standa fulltrúar frá Norðurlöndunum öllum, og hún verður væntanlega til umr. og afgreiðslu á þingi Norðurlandaráðs sem verður haldið hér í febrúarmánuði. Í þessari till. er ekkert um það hvert rekstrarfyrirkomulag slíks skips eigi að vera eða eignarfyrirkomulag, heldur aðeins er vakin athygli á þeirri staðreynd að nú gengur ekkert farþegaskip hvorki til Færeyja né Íslands og vakin athygli á þörfinni á því og undirstrikað að það geti a.m.k. verið samnorrænt mál að bæta hér úr.

Ég vildi aðeins að þessar upplýsingar kæmu fram og skal eingöngu bæta því við að ég hef orðið var við mikinn áhuga fulltrúa allra Norðurlandanna á því að eitthvað jákvætt gerist í þessum málum og að samgöngur á sjó með nútímafyrirkomulagi geti hafist á ný milli Íslands, Færeyja og annarra Norðurlanda.