11.12.1974
Neðri deild: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

94. mál, Tæknistofnun Vestfirðinga

Flm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 105 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um Tæknistofnun vestfirðinga. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að sett verði á stofn á Ísafirði slík Tæknistofnun vestfirðinga sem nánar er gerð grein fyrir í frv. og henni ætlað það verkefni að starfa sem ráðgefandi aðili og taka að sér rannsóknarstörf, hönnunarstörf og eftirlitsstörf sem vinna þarf á Vestfjörðum á vegum ríkis, sveitarfélaga eða einstaklinga sem þess óska.

Það er öllum hv. þm. kunnugt að á undanförnum árum og áratugum hefur hallað mjög á fjölmargar byggðir úti um landið, fjármagnið hefur streymt frá byggðarlögunum hingað til Reykjavíkursvæðisins, og það er einnig hægt að segja að byggðarlögin mörg hver úti um landið hafi farið á mis við allt of stóran hluta af þeirri þekkingu sem okkar menntakerfi skapar. Það er tilgangurinn m.a. með því frv., sem hér er til umr., að vinna þarna nokkuð á móti, hamla gegn því að fjármagn og þekking renni frá þeim byggðarlögum, sem í vök eiga að verjast, hingað til Reykjavíkur í jafnmiklum mæli og verið hefur og stuðla að því að vörn verði snúið í sókn í þessum efnum.

Það hefur verið svo að langstærsti hluti þess fólks, sem aflað hefur sér tæknimenntunar á undanförnum árum, hefur sest að hér á Reykjavíkursvæðinu, þ. á m. mikill fjöldi af fólki sem farið hefur til náms frá byggðarlögum úti um landið. Ég hygg að það liggi nokkuð í augum uppí að það sé tvímælalaust æskileg þróun að þá verkþekkingu, sem hinar ýmsu framkvæmdir úti um land á vegum bæði opinberra aðila og einkaaðila krefjast, þurfi ekki að sækja hingað suður til Reykjavíkur eins og nú er, heldur sé að sem allra mestu leyti hægt að færa sér hana í nyt heima í viðkomandi héruðum, að þeir sérfræðingar, sem á þarf að halda, séu þar til staðar.

Það hafa verið uppi margvíslegar hugleiðingar um að koma upp útibúum úti um land frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins. Oft verður mótbáran gegn slíku sú að um sé að ræða of smáar einingar til að slíkt geti talist skynsamlegt. Það má segja að meginhugsunin í þessu frv. sé sú að sameina undir einni stjórn í einni stofnun verkefni, sem nú eru dreifð á margar stofnanir hér í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu, og gera þannig kleift að halda uppi einni myndarlegri slíkri stofnun á Ísafirði.

Þetta frv. miðar eingöngu við það að slík stofnun verði sett upp á Ísafirði. Að sjálfsögðu gæti komið til greina að hafa sama hátt á á fleiri stöðum, en ég hygg þó að allsterk rök séu fyrir því að einmitt á Vestfjörðum verði hafist handa í þessum efnum. Enginn landshluti hefur orðið jafnilla úti í þeim búferlaflutningum, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum og áratugum, og þar af leiðandi má segja að þörfin sé tvímælalaust hvergi meiri að vörn verði snúið í sókn. Það var fyrst á síðasta ári eftir mjög langt árabil að fólki í Vestfjarðakjördæmi fjölgaði lítillega á ný eftir árlega fækkun um langan tíma. Það er ákaflega mikil þörf á að fylgt verði eftir þeirri viðspyrnu sem þarna hefur þó orðið. Myndun slíkrar stofnunar, sem hér um ræðir, gæti að mínu viti stuðlað mjög að því að koma í veg fyrir frekari fólksflótta frá Vestfjörðum og snúa vörn í sókn.

Það er gert ráð fyrir því í 2. gr. þessa frv. að Framkvæmdastofnun ríkisins sé falið að hafa frumkvæði að því að slík tæknistofnun verði á fót sett. Og ég vil undirstrika það hér að ég tel að það sé nauðsyn að ríkisvaldið hafi þarna frumkvæðið í sínum höndum. En það er jafnframt tekið fram að þetta skuli gert í samvinnu við landshlutasamtök á Vestfjörðum. Varðandi stjórn þessarar stofnunar, sem talað er um í 4. gr. frv., þá er hins vegar gert ráð fyrir því að landshlutasamtökin, þ.e.a.s. Fjórðungssamband vestfirðinga, hafi meiri hluta í stjórn, 3 menn af 5 á móti 2 mönnum frá Framkvæmdastofnun ríkisins.

Ég vil aðeins minna á, hvaða verkefni það eru sem slík stofnun gæti haft með höndum og miðað er við í þessu frv. Í 3. gr. er talað um rannsóknar-, hönnunar- og eftirlitsstörf sem vinna þarf á Vestfjörðum á vegum ríkis, sveitarfélaga eða einstaklinga sem þess óska. Þarna getur verið um að ræða m.a. áætlanagerð, hönnun og eftirlít með byggingu hafna, rannsóknir, hönnun og eftirlit með byggingu raforkuvera, jarðvarmaveitna og fjarvarmaveitna. Hönnun vega, brúa og jarðganga, gerð flugvalla, gerð skipulags kaupstaða og kauptúna. Hönnun og eftirlit með hvers konar opinberum byggingum, svo sem skólum og sjúkrahúsum, hvers konar öryggiseftirlitsstörf, svo sem rafmagns- og eldvarnaeftirlit. Þá er enn fremur bent á það í grg. með frv. að eðlilegt sé að sú áætlanagerð, sem nú þegar er unnið að og launuð er að 3/4 hlutum af Framkvæmdastofnun ríkisins, þ.e.a.s. Framkvæmdastofnun ríkisins greiðir samkv. núgildandi l. 3/4 hluta launa eins starfsmanns, sem vinna skal við áætlanagerð í þessu ákveðna kjördæmi, og það er gert ráð fyrir því hér að eðlilegt væri, ef slíkri tæknistofnun væri komið á fót, að þessi störf verði unnin í tengslum við slíka stofnun eða beinlínis innan hennar.

Ég rakti hér áðan ýmis þau verkefni á vegum ríkisins sem eðlilegt væri að fela slíkri stofnun undirbúning að. Það má nefna framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, svo sem gatna-, holræsa- og vatnsveitugerð, og einnig væri hægt að gera ráð fyrir því að útibú frá ákveðnum stofnunum hér í Reykjavík, t.d. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem er minnst á í grg., störfuðu í tengslum við eða innan við þessar ákveðnu tæknistofnun.

Í sambandi við verkefni stofnunarinnar er enn fremur vakin athygli á því að ef á stað eins og Ísafirði væru starfskraftar, sem við slíka stofnun ynnu og byggju yfir sérþekkingu hver á sínu sviði þá væri ekki ólíklegt að við þær aðstæður, sem þar eru, gætu þessir kraftar einnig komið að notum þannig að þeir sinntu að einhverju marki kennslu sem stundakennarar við hina ýmsu framhaldsskóla á staðnum. Þarna er um að ræða, eins og hv. þm. er kunnugt, bæði, menntaskóla og tækniskóla, vísi að tækniskóla.

Þá er kostnaðarhliðin í sambandi við þetta mál sem vert er að fara um fáum orðum. Ég hygg að því þyrfti ekki að fylgja ýkjamikill aukakostnaður þó að þau verk, sem í dag eru unnin hér í Reykjavík, væru unnin vestur á Ísafirði, þau verkefni sem hér um ræðir. Laun mannanna væru væntanlega þau sömu og með því að tengja saman verkefni sem í dag eru á hendi allmargra stofnana hér, þá hygg ég að ætti að geta orðið full nýting þeirra starfskrafta sem þarna væri um að ræða. Það færi þó ekki hjá því að um nokkurn stofnkostnað yrði að ræða og er lagt til í þessu frv. að slíkur stofnkostnaður greiðist að 4/5 hlutum úr ríkissjóði en af 1/5 af samtökum sveitarfélaga í Vestfjarðakjördæmi. Og síðan segir í 5. gr. frv.: „Miða skal við að stofnunin selji þjónustu sína á gangverði, en verði um hallarekstur að ræða greiðist hann af sömu aðilum og í sömu hlutföllum og stofnkostnaður.“

Hér er sem sagt ráð fyrir því gert að hinar ýmsu stofnanir ríkisins eða sveitarfélaga eigi þess kost að kaupa þá þjónustu, sem þær þurfa nú að kaupa hér suður í Reykjavík, þær eigi þess kost að kaupa þessa þjónustu af slíkri tæknistofnun á Ísafirði sem hér um ræðir á því verði sem eðlilegt má teljast á hverjum tíma.

Það er hér gert ráð fyrir því, að væri slík stofnun komin á fót, sé ríkisstofnunum og opinberum framkvæmdaaðilum yfirleitt skylt að leita fyrst til Tæknistofnunar vestfirðinga varðandi verkefni á Vestfjörðum þar sem um er að ræða þjónustu sem slík stofnun væri fær um að láta í té, en leita því aðeins annað að hún geti ekki tekið verkefnið að sér af einhverjum ástæðum með sambærilegum hætti og aðrir aðilar eða aðrar stofnanir. Þess skal getið að í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir því að slík stofnun geti sett upp útibú innan sama kjördæmis, að fengnu þó samþykki Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Ég vil láta þess getið að frv., sem ganga í svipaða átt og þetta, hafa áður komið fram á Alþ., en þau hafa þó öll, að ég hygg, en ég minnist tveggja, gengið mun skemmra. Þar hefur verið um að ræða verkfræðiskrifstofu eingöngu, þar sem gert hefur verið ráð fyrir kannske einum starfsmanni eða svo. En það frv., sem ég mæli hér fyrir, gerir ráð fyrir því að sem allra mest af t.d. hönnunarverkefnum, sem nú eru unnin hér í Reykjavík fyrir framkvæmdir á Vestfjörðum, verði á hendi þeirrar stofnunar sem þetta frv. gerir ráð fyrir að sett verði á stofn.

Ég mun ekki flytja miklu lengra mál til rökstuðnings því frv. sem ég hef lagt hér fram, en ég vil að lokum minna á að á Fjórðungsþingi vestfirðinga, sem haldið var í ágústmánuði s.l., var samþykkt einróma till. sem felur í sér tilmæli í þessa átt, og þessi samþykkt er svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Fjórðungsþing vestfirðinga 1974 skorar á þm. kjördæmisins að beita sér fyrir því á Alþ. að sett verði á stofn tækniþjónustustofnun á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarfélögin, sem annist allt hönnunarstarf er framkvæma þarf á vegum ríkisins og sveitarfélaga í fjórðungnum. Það er álit Fjórðungsþingsins að slík stofnun gæti verið það stór að starfrækja mætti hana á tveim stöðum í fjórðungnum. Fjórðungsþingið minnir á að á hverju ári renna tugir millj. kr. út úr fjórðungnum til greiðslu á sérfræðivinnu, auk þess sem fjórðungurinn fer algerlega á mis við þá hagkvæmni sem af því leiðir að þessir menn séu búsettir í héraðinu.“

Þetta var sem sagt tilvitnun í samþykkt Fjórðungsþingsins.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, en legg til að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn., með tilliti til þess, að þarna er gert ráð fyrir að landshlutasamtök sveitarstjórna fari með meiri hluta í stjórn stofnunarinnar.