12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hv. 4. þm. Austf. hefur beint til mín fsp. og tilmælum í sambandi við hið alvarlega ástand orkumála á Austurlandi. Í ræðu sinni gerði hv. þm. allglögga grein fyrir ástandi og horfum þessara mála.

Ég vil í því sambandi fyrst geta þess að nú fyrir nokkru var lagt fram á Alþ. stjfrv. um virkjun Bessastaðaár, þar sem gert er ráð fyrir að orkuframleiðslan verði 30–32 mw., en gera má ráð fyrir að sú virkjun gæti tekið til starfa eftir u.þ.b. 4 ár, ef vel gengur. Þegar ég lagði þetta frv. fram gerði ég nokkra grein fyrir ástandi í orkumálum Austfjarða. En svo er mál með vexti að núverandi vatnsaflsstöðvar þar eru u.þ.b. 5 mw. að afli og Lagarfossvirkjun, sem er í smíðum, mundi hafa um 7.5 mw. Þegar hún er komin í notkun fara þessar vatnsaflsstöðvar nokkuð langt til þess að fullnægja orkuþörfinni rétt í bili, en skortir þó nokkuð á engu að síður, þannig að ljóst er að mikil þörf er á því að hraða sem unnt er hinum næsta áfanga í þessum efnum sem er virkjun Bessastaðaár.

Í framsöguræðu minni um það mál rakti ég gang Lagarfossvirkjunar í stórum dráttum. Ætlunin var að hún væri komin í notkun nú, en dráttur hefur orðið verulegur á tækjum og rafbúnaði frá Tékkóslóvakíu. Í sept. var það mál tekið upp alvarlega í viðræðum við fulltrúa tékka, og í okt. snemma varð það að réði að ég sendi skeyti til iðnrh. Tékkóslóvakíu til að skora á bann að ganga sjálfur í þetta mál, þannig að ekki yrði frekari dráttur, og benti á það mjög svo alvarlega ástand sem af gæti hlotist ef dráttur yrði enn í þessu máli, bæði fyrir almenningsnotkun á Austurlandi og atvinnulíf og ekki síst loðnubræðsluna, ef loðnan veiðist í stórum stíl nú eftir áramót eins og við vonum að verði.

Eftir rúman mánuð eða snemma í nóv. barst svo skeyti frá iðnrh. Tékkóslóvakíu þar sem hann skýrði frá því að hann hefði lagt sig fram um að kippa þessu í lag og mundi verða lögð á það áhersla að afgreiða allan þennan tækjabúnað sem fyrst, þannig að hann gæti orðið tilbúinn um miðjan des. Nú horfir svo að þetta muni standast, þannig að þessar vélar og rafbúnaður, sem er síðasti hluti af afhendingu þeirra vegna virkjunarinnar, geti farið í skip í Hamborg 20. des., og er gert ráð fyrir að það geti komið til Reyðarfjarðar 24. des. ef áætlanir standast. Þá mundu þegar í stað gerðar ráðstafanir til að flytja þessi tæki til Lagarfoss og koma þeim þar fyrir, og ef þessar tímaáætlanir standast má gera ráð fyrir því að vélar Lagarfossvirkjunar gætu farið í gang til reynslu um miðjan febr., en samkvæmt samningum eiga þessir aðilar rétt á, að ég held, 8 vikna reynslutíma. Það er því ekki að vænta framleiðslu í þessari stöð fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta febr., e.t.v. ekki fyrr en í mars eða apríl.

Þetta er varðandi Lagarfossvirkjun. Þannig standa þau mál eins og nú horfir. Ljóst er að hér er um mikið vandamál að ræða. Undanfarnar vikur og mánuði hafa verið gerðar tilraunir til þess að fá á leigu dísilvélar til þess að bæta úr þessum alvarlega skorti. Eins og hv. 4. þm. Austf. gat um, hefur ekki tekist að fá slíkar vélar á leigu, eins og hins vegar tókst frá Noregi í fyrra, þannig að nú er ekki um annað að ræða en að festa kaup á slíkum vélum. Það sem helst er í ráði nú er að vinda bráðan bug að því að kaupa slíkar vélar og ég ætla að líklegust sé sú leið, sem hv. þm. minntist hér á, kaup á slíkum dísilvélum frá Bandaríkjunum, sem munu vera fáanlegar með tiltölulega stuttum afgreiðslufresti. Ég vil svo aðeins taka fram að það verður lögð megináhersla á að gera allt sem unnt er til að leysa úr þessum mikla vanda.

E.t.v. er rétt að minnast á Austur-Skaftafellssýslu og Hornafjarðarsvæðið í þessu sambandi. Eins og kunnugt er varð þar mjög alvarlegur raforkuskortur á síðasta vetri vegna langvarandi frosta. Smyrlabjargaárvirkjun stöðvaðist eða varð vatnslaus um nokkurn tíma. Það vatn, sem var í því lóni sem þar var til, eyddist fljótt. Nú í sumar og haust hefur verið gert annað uppistöðulón til viðbótar. Mér er tjáð að ástandið sé þannig nú varðandi Smyrlabjargaárvirkjun að eftir nokkra daga verði vatn búið úr eldra lóninu, ef veðrátta breytist ekki muni það endast í fáeina daga í viðbót. En í nýja lóninu má gera ráð fyrir að sé vatnsmagn til u.þ.b. hálfs mánaðar. Varðandi þetta svæði er því einnig alvarlegt ástand fram undan eða getur orðið. Það veltur mjög á veðráttu. Hins vegar er gert ráð fyrir því að gufutúrbínustöð, sem nú er á Blönduósi, verði alveg á næstunni flutt til Hornafjarðar og þá gert ráð fyrir að með þeim ráðstöfunum mundi afstýrt vandræðum að þessu leyti. Varðandi Blönduós er hins vegar verið að koma þar fyrir töluvert stærri stöð eða vélum heldur en ætlunin er að flytja burt.

Ég vil aðeins gefa þessar upplýsingar á þessu stigi, hefði gjarnan viljað hafa þær fyllri og gefst væntanlega tækifæri til þess síðar, þegar fsp. um þetta mál kemur formlega til umr. í þinginu. En tel rétt að gefa þessar upplýsingar á þessu stigi og endurtaka, að það mun að sjálfsögðu af rn. hálfu verða gert allt sem unnt er til að reyna að bæta úr þessu alvarlega ástandi.