13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. 10400 gistingar í Síðumúla á síðasta ári vegna ölvunar. Nær öll alvarleg afbrot, svo sem árásir, nauðganir, manndráp o.fl., má rekja til áfengisneyslu, segir Bjarki Elíasson fulltrúi lögreglustjóra sem hefur staðið í þessu í 20 ár. Um tíðni slíkra afbrota höfum við einmitt fengið óhugnanlegar upplýsingar nú á þessu ári og ekki hvað síst núna síðustu víkurnar.

Óhófsdrykkja okkar er ekkert nýtt fyrirbrigði, þótt nú keyri um þverbak. Á 18. öldinni skrifaði einn biskupinn bænaskrá til konungs þess efnis, að bannaður yrði innflutningur á áfengi til landsins. Þess sagðist hann beiðast vegna drykkjuskapar presta og annars fyrirfólks, eins og hann orðaði það. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsens er þess víða getið, er menn urðu úti á ferð milli byggðarlaga, og alloft er þess og getið að þeir hafi verið orðnir ölvaðir er þeir lögðu upp úr verslunarstaðnum.

Nú ganga menn ekki lengur milli byggðarlaga, en frásögn af viðburðum síðustu áratuga mun í nokkrum mæli geta dauðaslysa og slysa, er örkumlum valda, í farartækjum nútímans, slysa er stundum hlutust af drykkju viðkomandi eða félaga.

Áhrif óhófsdrykkju á okkar þjóðfélag nú í dag eru geigvænleg. Áfengi má vissulega nefna mesta mengunarvald nútímans, óþverra sem mengar bæði huga og hönd og hefur einnig sín skaðlegu áhrif á umhverfið. Þegar ávanaefnið alkohól hefur fengið tækifæri til að beita sínum ávanahæfileikum og leitt til óhóflegrar ílöngunar í drykkju, þá skeður margt í senn. Heilastarfsemi smálamast vegna fjöldadauða heilafruma og almennrar heilarýrnunar, athygli og hugsun sljóvgast og á sama tíma smágefa sig önnur líffæri, svo sem lifur, æðar, meltingarfæri og taugar. En það er fleira sem gefur sig: maki, afkomendur, bræður, systur, foreldrar. Allir þessir aðilar verða fyrir áföllum. Ofdykkja þessa eina, sem um er rætt, getur gerbreytt lífi fjölda annarra, eyðilagt eitt eða fleiri heimili, skapað ótal flókin félagsleg vandamál. Um þessi efni ræddi ég nokkuð er ég bar fram frv. svipaðs efnis á þingi í vor og má um það lesa í 24. hefti Alþt. 1973–74. Þess vil ég þó geta að það liggur nokkuð ljóst fyrir og er í samræmi við rannsóknir síðustu ára að drykkja, einkum drykkja unglinga og kvenfólks, hefur farið stórvaxandi nú undanfarið. Hvað þessu veldur er ekki gott að segja, en talið er að meiri fjárráð og einnig breytt staða konunnar í þjóðfélaginu eigi þarna nokkra sök á. Samkv. nýjustu heimildum er það rúmlega þriðjungur 13 ára unglinga sem hefur neytt áfengis nú og 93.9% af piltum 17 ára hafa neytt áfengis.

Það eru nokkur þúsund manns í þessu landi sem eru með einkenni drykkjuskapar og drykkjusýki og þess vegna er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að nú verði að reyna að hreinsa til, að vinna gegn menguninni, því að hvað sem segja má um almenn áhrif áfengis, þá er víst að þessi skaðvaldur verður árlega fleiri mönnum að bana í þessu þjóðfélagi en við gerum okkur grein fyrir. Og það er kannske ekki það versta. Verst er að það stórspillir líðan og framtíðarmöguleikum fjölda fólks í þjóðfélaginu. Þetta kemur fyrst og fremst niður á aðstandendum þeirra sem stunda óhóflega drykkju. Það kemur líka niður á atvinnu þeirra og þeim sem veita þeim atvinnu og það kemur niður á þjóðfélaginu í heild.

Öllum er ljóst að það er erfitt að lækna áfengissýki. Það má segja að þær aðgerðir, sem stundaðar eru til þess að reyna að hafa áhrif á umbætur í þessu efni, séu a.m.k. tvenns konar. Það er í fyrsta lagi að reyna að hafa áhrif á að menn stundi ekki ofdrykkju, þar er almenningsálitið einna sterkasti þátturinn í, en enn fremur hvers konar fræðsla um skaðsemi áfengis bæði á einstaklinginn sjálfan og umhverfið. öðru lagi er vitað mál að það má snúa ýmsu til betri vegar sem farið hefur aflaga í þessu efni. Þess vegna eru stundaðar lækningar drykkjusjúkra og lækningar þeirra sem eru farnir að neyta áfengis verulega, en þó ekki hægt að telja drykkjusjúkt fólk.

Það er reynsla flestra þeirra sem að þessum málum vinna, að þarna sé erfitt viðfangsefni, og talið að fjölbreytni í þessari meðferð sé nokkurs virði. Þarna dugi ekki bara eins og við marga aðra sjúkdóma að ríkisvaldið gangi hart fram og ýmist útrými orsökinni eða gripi fólkíð og loki það inni og lækni það. Þarna er talið að ýmis félagsleg áhrif, persónuleg kynni og fræðsla geti gert allmikið gagn, en að sjálfsögðu séu til stofnanir fyrir þá sem þess þurfa með, og það bæði stofnanir þar sem hægt sé að taka ölvað fólk til afvötnunar og þar sem hægt sé um leið að rannsaka það bæði andlega og líkamlega, — þar sem hægt sé að rannsaka ástand fjölskyldunnar og þeirra nánustu og bæta úr bæði líkamlega og félagslega þar sem þörf er á. Nokkur hluti þessa fólks þarf að vera um tíma á hælum. Eftir þann tíma þarf að fylgjast lengi með þessu fólki, skapa því aðstöðu til endurhæfingar og vinnu. Allt er þetta mikil keðja og erfitt viðfangs.

Til þess að bæta nokkuð um möguleika í þessu efni hef ég nú á ný borið fram frv. til l. um stofnun sjóðs til aðstoðar við drykkjusjúklinga. Frv. er efnislega að mestu leyti hið sama og í vor, en þó er á því veigamikil breyt., þannig að áður hafði ég ætlað þessu frv. að vera eingöngu viðbót við þær varnir og lækningar sem ríkið sæi um, en nú er það svo að þessi hjálp stendur opin öllum þeim sem að þessum málum vinna.

1. gr. frv. hljóðar eins og áður: „Af hverri 3 pela flösku af sterku víni, sem Áfengisverslun ríkisins selur, skal í næstu 10 ár greiða gjald að upphæð 100 kr. og hlutfallslega af öðrum flöskustærðum. Gjald þetta skal renna í sérstakan sjóð til varnar gegn drykkjusýki. Sjóðurinn skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins.“

Mér finnst það ekki óeðlilegt að þeir, sem kaupa áfengi, greiði eins konar íðgjald, greiði í sjóð sem á að vera eins konar tryggingasjóður fyrir þetta fólk og fyrir þá sem þeir kynnu að veita af sínum innkaupum. Þetta er því eins konar „kaskótrygging“, eins og ég sagði áður, og á að vernda þá sem verða fyrir áföllum af völdum áfengisneyslu. Þetta er í raun og veru ekki mikið gjald. Þetta hækkar þessar sterku tegundir, þær ódýrustu um ca. 7–8%, og þýðir aðeins að menn verða að láta líða aðeins lengra á milli innkaupa á flösku. Þetta á eingöngu við um sterk vín og byggist á því að ég tel að hin skaðvænlegu áhrif séu miklu meiri af sterku víni heldur en af léttu vinunum og að það sé of lítill verðmismunur á léttum og sterkum vínum hér í landi.

2. gr. frv. hljóðar svo: „Fé því, sem rennur í sjóð til varnar gegn drykkjusýki samkv. 1. gr., skal varið til lána og styrkveitinga til félagasamtaka og annarra aðila er vinna að því að hamla gegn skaðlegum áhrifum áfengis. Veita má lán og styrki til þess að koma á fót afvötnunar- og ráðleggingarstöðvum fyrir drykkjusjúka, dvalarheimilum, vinnu- og endurhæfingarstöðvum. Þá er heimilt að verja allt að 10% af árstekjum sjóðsins til styrktar þeim er reka áróður gegn áfengisneyslu. Lán og styrkir úr sjóðnum til stofnana mega nema allt að 75% af stofnkostnaði.“

Þarna skapast auknir fjármagnsmöguleikar fyrir báða þessa aðila sem ég áður gat um, þá sem vinna að vörnum og einnig þá sem vinna að lækningum. Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að við höfum á undanförnum árum lagt of litíð fjármagn til þessarar starfsemi og þessi lög eiga að bæta úr því ef samþ. verða.

Um það, hvað mikla fjármuni sé hér um að ræða, má upplýsa það á árinn 1973 voru seldir um 1 230 000 lítrar af sterku vini. Þetta mundi þýða að þarna yrði um að ræða 130–150 millj. kr. árlega. Þó er ekki ólíklegt að þessi hækkun kunni að leiða til þess að aðeins færri flöskur verði keyptar og er tvennt um það að segja: Í fyrsta lagi verður þessi upphæð allhá fyrir því en þar að auki er sú minnkaða neysla, sem það mundi hafa í för með sér, til bóta eins og ég hef áður getið um, ekki aðeins fyrir einstaklinginn, heldur fyrir þjóðfélagið í heild. Þess vegna vona ég að hv. d. taki þessu frv. vel og láti það fá greiðan gang gegnum d. og legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til heilbr.- og trn. að umr. lokinni.