13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

49. mál, ráðning starfsmanna og húsnæðismál ríkisstofnana

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Álit allshn. er á þskj. 124. N. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum sínum og fékk til fundar við sig form. BSRB, form. BHM og Þorstein Geirsson deildarstjóra í fjmrn. Þessir aðilar veittu n. ýmsar upplýsingar. N. mælir með því að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem hún flytur á þskj. 125. Ég mun nú rekja þessar brtt. n. og ég tek það fram strax að þær eru allar gerðar í samráði við fjmrn. og hæstv. fjmrh.

Það er þá l. brtt. Hún er við 2. gr. frv. Þar er lagt til að eitt orð falli niður í fyrstu línu, orðið „lausráðna“. Setningin hljóðar þá þannig: „Óheimilt er að láta starfsmenn starfa í þjónustu ríkisins eða ríkisstofnana nema fjárveiting eða heimild til launagreiðslu sé fyrir hendi.“ Ég skal skýra þetta aðeins á eftir, það eru fleiri brtt. sem eiga sér sömu orsakir og þessi.

3. gr. Þar eru brtt. þær, að 1. og 2. málsgr., eins og þær eru í frv., falli niður, en þess í stað komi ný málsgr. sem hljóðar þannig: „Þegar starfsmaður, sem l. nr. 46 1973 taka til, er ráðinn í þjónustu ríkisins, skal það gert með skriflegum gerningi. Skal þar tekið fram hvort um skipun, setningu eða ráðningu er að ræða.“ Það sem þarna breytist, og á það sama við um breytinguna í 2. gr., er að það er siglt fram hjá því, ef svo má segja, að vera að greina á milli fastra starfsmanna og lausráðinna Það er álit BSRB og BHM að það eigi ekki heima í l. sem þessum, heldur eigi slíkar skilgreiningar heima í l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þessar brtt. n. og aðrar, sumar hverjar, eru fluttar m.a. til þess að forðast ágreining við þessa aðila.

Þá er brtt. við 5. gr. Hún er orðuð upp að nýju þannig: „Ráðningarnefnd ríkisins skipa 3 menn, form. fjvn., einn skipaður af ríkisstj. og einn af fjmrh. og er hann formaður n. Varamann form. fjvn. skipar fjvn., en ríkisstj. og fjmrh. skipa sinn hvorn varamanninn.“ Breyt. þarna er sú að hagsýslustjóri ríkisins skuli ekki samkvæmt l. eiga sæti í þessari n. Ég þarf náttúrlega ekki að taka það fram að þessari brtt. er ekki á nokkurn hátt beint gegn þeim ágæta manni, sem skipar það embætti, heldur er hér um stefnumál að ræða, að menn skuli ekki vegna stöðu sinnar, hver sem hún kann að vera, eiga þess vegna sæti í tilteknum n. Hins vegar gæti fjmrh. að sjálfsögðu skipað hann ef honum sýndist svo.

Þá er brtt. við 9. gr. frv. Hún á sér sömu rætur og brtt. við 3. gr., að 2. og 3. málsgr. falli niður og í stað þeirra komi ný málsgr, og verður þá 2. málsgr. 9. gr., svo hljóðandi: „Starfsmaður á rétt á að fá í hendur afrit af ráðningarbréfi sínu staðfestu af viðkomandi rn. og fjmrn.“ Það mun vera svo nú, að mikill fjöldi opinberra starfsmanna hefur raunverulega ekkert í höndunum um það að þeir séu opinberir starfsmenn. Þeir hafa hvorki ráðningu né skipun í embætti og ekki bréf upp á það að þeir eigi þarna einhvern rétt. Þarna er kveðið á um það að allir, sem ráðnir eru í þjónustu ríkisins, eigi rétt á ráðningarbréfi staðfestu af viðkomandi rn. og fjmrn.

Þá er ein brtt. eftir. Hún er við 10. gr. um að niður falli úr fyrstu línu orðin „og 2.“ Það leiðir af brtt. við 3. gr.

Þá hef ég gert grein fyrir brtt. n. Megintilgangur þessa frv. er sá að tryggja að starfsmannahald ríkisins hverju sinni ráðist af fjárveitingum og þar með að Alþ. geti fylgst náið með starfsmannafjölda ríkisins og umfangi ríkisstofnana. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem ég hef gert grein fyrir.