11.11.1974
Efri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

8. mál, almannatryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með þeim, sem hafa tekið til máls, að hér er um réttlætismál að ræða.

Hv. flm. talaði nokkuð um afturhaldsöfl í upphafi ræðu sinnar. Ég hef ekki fyrr heyrt hann nota það orð um þá, sem töldu sér ekki fært að koma þessu máli í höfn á fyrra ári. Ég býst samt við að það hafi verið afgreiðsla þessa máls, sem hann hafði í huga. En það er svo, að hér í þessu landi er ekki alltaf gott að átta sig á því, hvar afturhaldsöflin eru.

Ég lít svo á, að leiðrétting á þessu máli sé raunveruleg bót og rétt byggðastefna. Það er ekki vafi á því, að einkum fyrir íbúa Austurlands og Vestfjarða er hér um mikið mál að ræða. Þetta er að sjálfsögðu útgjaldamál. Hins vegar er ekki eingöngu um útgjöld að ræða. Þetta getur líka sparað fé, og er á því ósköp einföld skýring. Þeir sem haldnir eru sjúkdómum hlífa sér við miklum útgjöldum vegna ferðalaga og uppihaldskostnaðar í þéttbýlinu og reyna að draga slíkt sem lengst, en það getur aftur orðið til þess, að dýr sjúkrahúsvist verði lengri og kannske hinn varanlegi árangur minni. Að þessu leyti tel ég að þetta geti haft áhrif á hið almenna heilsufar fólks.

Þegar þetta hefur verið rætt í endurskoðunarnefnd er að sjálfsögðu hið venjulega, sem mælir á móti því að gera stórt átak í þessum efnum, og það er hættan á misnotkun. Það er að sjálfsögðu rétt, sem fram kom hjá flm., að þar verður allnokkuð að byggja á læknunum. Ef þeir gæta sin í þessu máli, held ég að sú hætta geti ekki verið stórfelld.

Það er fleira en þetta, sem er erfitt í dreifbýlinu. Ég álít, að leiðrétting á þeim líðum geti verið raunsærri byggðastefna en ýmislegt annað sem verið er að reyna að gera. Svo er með ferðakostnað lækna til afskekktra sveitabæja. Vitjanir geta kostað fólk þar háar fjárhæðir, sem það á erfitt með að greiða, enda þótt hlutur læknisins komi annars staðar að. Þetta er einnig allmikið mál og getur orðið þess valdandi, að jarðir fari í eyði einmitt vegna þeirra miklu útgjalda sem fólk sem þar býr getur haft vegna heilbrigðisþjónustunnar, enda þótt kerfið sé orðið þegar allfullkomið.

Þörfin er einmitt mikil núna, á meðan ekki er komin fullkomin aðstaða á Akureyri og Austurlandi. Það er ekki vafi á því, að þetta mál verður auðveldara í meðferð, þegar nýja sjúkrahúsið á Akureyri er risið af grunni, og nú þegar má segja að Norðlendingar séu miklu betur settir en Vestfirðingar og Austfirðingar í þessum efnum.

Það er svo, að þetta hefur jafnvel versnað síðan sjúkrasamlögunum var breytt. Það er vitað mál, að sjúkrasamlögin, sem voru lítil og þekktu hagi í raun og veru hvers félaga, tóku oft tillit til ferðakostnaðar og kostnaðar við að fara til sérfræðinga, enda þótt það væri kannske vafasamt samkv. lögunum. En núna, síðan stóru sýslusjúkrasamlögin tóku við, lítur þetta mál öðruvísi út, og nú mun verða erfiðara fyrir lækna að sækja greiðslur í hendur þessara samlaga fyrir útlagt fé í þessum efnum.

Ég tel, að hér þurfi umbætur, og ég er hlynntur því, að þetta mál verði tekið til rækilegrar skoðunar. Eitt af því, sem á hefur staðið, er, að það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir þeirri gjaldaaukningu, sem verður við þetta, en ekki er vafi á því, að hér er einhverrar úrbótar þörf.