13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Ég mun ekki við þessa umr. ræða einstakar gr. þessa frv., en ég vil aðeins lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli vera komið fram, og þakka hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. fyrir forgöngu þeirra í málinu. Ég legg megináherslu á að þetta frv. nái fram að ganga nú fyrir jól. Það skiptir miklu máli fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum að ekki verði þarna tafir á og þau geti ásamt ríkinu hafið undirbúning af fullum krafti nú þegar, eins og reyndar gert er ráð fyrir í frv. Er gert ráð fyrir að lokið verði skipun í stjórn fyrir 1. jan. n.k.

Það þarf að sjálfsögðu ekki að ræða mikilvægi þessa máls fyrir alla aðila. Slíkt er hafið yfir allan vafa. Fleira ætla ég ekki að segja við þetta tækifæri, aðeins að lýsa ánægju minni yfir því að málið skuli komið fram.