14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

84. mál, útvarpslög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Áfram er þetta mál keyrt af miklum hraða, augljóslega í þeim tilgangi að þjóðin megi verða þess aðnjótandi að eignast nýtt útvarpsráð fyrir næstkomandi jól.

Ég verð að játa það, að þó að ég hafi verið hér á Alþ. í æðimörg ár, þá minnist ég þess tæpast að stjórnarfrv. hafi verið fram borið hér í þinginu með jafnlitlum rökstuðningi og jafnlitlum tilburðum af hálfu forsvarsmanna sinna til að rökstyðja efni þess. Hæstv. menntmrh. fylgdi þessu frv. úr hlaði hér fyrir fáum dögum og eins og menn muna var ræða hans harla stutt og mögur, eins og á þó vel við hæstv. menntmrh. að flytja litríkar og efnismiklar ræður. En í þetta sinn átti nú ekki vel við hann að teygja lopann eða breiða sig út um efni frv. og virtist eins og eitthvað skorti á að sannfæring hans væri í lagi. Að honum undanskildum, frsm. sjálfum, hafa ekki aðrir talsmenn stjórnarflokkanna mælt fyrir þessu frv. að undanskildum frsm. menntmn., sem hér hefur sagt fáein orð um málið og einungis vitnað til þess, að þessi skipan, sem nú eigi að taka upp, hafi verið býsna lengi við lýði.

Þetta er alveg rétt hjá hv. þm., að um mjög langt skeið var þessi skipan á höfð, en hún var lögð niður árið 1971 að vandlega athuguðu máli, eftir að n. hafði fjallað um það alllengi, eftir að þáv. ríkisstj., sem Sjálfstfl. hafði forustu fyrir, hafði komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að breyta skipulaginu í það form að tengja ekki lengur kjör útvarpsráðs við kjörtímabil Alþ., eftir að búið var að fjalla um málið hér á Alþ., að því er ég held tvo vetur í röð, og ræða það hér af fulltrúum allra flokka, m.a. mjög ítarlega í n. Mér er nær að halda, að þar hafi gefist tækifæri til að skoða þetta mál í n. um nokkurra mánaða skeið, fá um það umsagnir valinkunnra manna og stofnana og að lokum varð niðurstaða fulltrúa allra flokka að þetta skipulag ætti að vera við lýði. En nú sem sagt á að fúska þessu af á fáeinum dögum. Þó að ég hafi aldrei haldið því fram, að hv. menntmn. Ed. hafi ekki haft lagalegan rétt til þess að afgr. mál úr n., sem til hennar var komið, með þeim hætti sem hún gerði, að fjarstöddum næstum helmingi n. sem vitað var að var andstæður málinu og vitað var að a.m.k. sumir þeirra gátu ekki komist til nefndarinnar.

Ég hef ekki haldið því fram, að þessi málsmeðferð hafi veríð ólögleg að formi til. Að sjálfsögðu getur meiri hluti nefndar hvenær sem er ákveðið að senda mál út úr n. aftur af sinni hálfu, afgreiða það. En ég gat ekki látið hjá líða að bera fram kvartanir yfir því, að ekki skyldi tekið tillit til óska minni hlutans um að málinu væri frestað, þótt ekki væri nema einn dag, og leitað yrði umsagna, vegna þess að það má líta á það sem þinglega venju að reyna að verða við slíkum tilmælum þegar þau eru sett fram. Og sem sagt, ég vil aðeins segja það, að það er út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. Axel Jónsson segir, að hann er í hinum fyllsta lagalega rétti að fara að með þessum hætti. En það er ekki þar með sagt, að meðferð málsins sé þingleg, og þar er átt við venjur innan þingsins, sem skapast hafa á löngum tíma og miðast m.a. við að taka eðlilegt tillit til óska, sem fram koma af hálfu stjórnarandstöðuþm., a.m.k. þegar bersýnilegt er að þess á að vera einhver kostur.

Hér hefur því verið haldið fram af okkur sem höfum gagnrýnt þetta frv., að það einstæða við eðli þess, væri að hér væri verið að senda frv. gegnum 6 umr. á Alþ., ef ekki fleiri, í þeim eina tilgangi að losa útvarpsráð við fáeina einstaklinga, sem ekki virðast vera eins þægir fulltrúar viðkomandi flokks og vænst var þegar þeir voru kosnir í ráðið. Þessu hefur að sjálfsögðu ekki verið mótmælt, enda þótt gerð hafi verið tilraun til að breiða yfir þessa staðreynd með þögninni.

Ég vil taka skýrt fram að ég gæti verið til viðræðu um að kerfisbreyt. ætti sér stað hjá okkur á þann máta, að tekið væri til athugunar, hvort rétt væri yfirleitt, þegar nýr þingmeirihluti væri myndaður, að þá væri almennt skipt um alla helstu embættismenn ríkisins og að þá gilti eins um allar n. og ráð sem störfuðu af hálfu ríkisvaldsins, að þessar stofnanir hyrfu úr sögunni um leið og sá þingmeirihluti, sem studdi þær til valda, væri fallinn. En eins og menn vita er flutningur þessa frv. alls ekki liður í neinni kerfisbreytingu af þessu tagi. Ekki er mér a.m.k. kunnugt um að svo sé. Það væri satt að segja fróðlegt að fá svör hæstv. menntmrh. við þeirri spurningu, hvort e.t.v. sé von á sams konar frv., sem snerta önnur þau ráð og stjórnir, sem kosnar eru af Alþ. og ætti að vera alveg jafnrík ástæða til að skipta um í eins og varðandi útvarpsráð. Hér gætu t.d. komið til greina stofnanir eins og bankaráð Búnaðarbanka Íslands, bankaráð Landsbanka Íslands, bankaráð Útvegsbanka Íslands. Öll þessi ráð eru kosin til fjögurra ára í senn og kjörtími þeirra er þar af leiðandi ekki tengdur kjörtíma Alþ. Væri ekki eðlilegt að skipta um í þessum ráðum, úr því að farið er inn á þessa braut á annað borð? Ég mundi mjög gjarnan óska eftir því, að hæstv. menntmrh. treysti sér til að svara þessari spurningu, og þykist vita það, að ef hann telur einhverja skynsemi liggja bak við þetta frv., þá hafi einnig þessi hlið málsins verið rædd af þeim, sem það hafa undirbúið, þ.e.a.s. ríkisstj. Eins er um bankaráð Seðlabanka Íslands, nákvæmlega eins. Bankaráð Seðlabanka Íslands er kosið til 4 ára í senn, og það er nú ekkert smáræðisvald, sem Seðlabankinn hefur í stjórnkerfi okkar, þar sem er m.a. valdið til þess að ráða gengisskráningu íslensku krónunnar.

Eins og menn vita hefur Seðlabankinn margháttað annað vald, sem mjög snertir stjórn þessa þjóðfélags, og ef á annað borð væri ætlunin að tryggja stöðu ríkisstjórnarmeirihlutans hverju sinni með því að veita honum tryggari yfirráð yfir fjölmiðlum eins og Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi og sjónvarpi, þá ætti að vera enn ríkari ástæða til þess, að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefði örugga áhrifaaðstöðu í Seðlabankanum og í bankaráði hans. Ég vildi sem sagt eindregið fara þess á leit við hæstv. menntmrh., að hann svaraði þessari spurningu, og veit, að hann mun ekki skjóta sér undan því.

Ég vil bæta því hér við, að sé þeirri spurningu ekki svarað og eigi bað að standa eftir, að þessi breyting sé ekki þáttur í heildarkerfisbreytingu, sem nú standi fyrir dyrum, þá verður því ekki neitað, að þetta frv. er borið fram í þeim eina tilgangi að losa sig við óþæga einstaklinga. Og þá verður það ekki af hæstv. ríkisstj. skafið, að í þessu máli sýnir hún pólitískt ofríki og ofstæki, sem á sér tiltölulega fá fordæmi á síðari árum. Ég vil, um leið og ég skora á hæstv. menntmrh. að svara þeirri spurningu, sem ég hef hér lagt fyrir hann, þá vil ég um leið eindregið skora á hann að taka þetta mál í heild sinni til endurskoðunar og stuðla að því, að það verði ekki afgr. með þeim hraða sem nú er á þessu máli. Ég vil skora á hann að hugleiða hvort ekki sé hyggilegt til frambúðar að haldnar séu þær leikreglur, sem allir flokkar hafa komið sér saman um að viðhafa við kosningu í útvarpsráð að vandlega athuguðu máli, og hvort þetta áhugamál ríkisstj, og ráðh., að losna við einhverja einstaklinga, hversu mjög sem þeir hafa farið í taugarnar á viðkomandi flm. þessa frv., hvort þar sé um svo stórt mál að ræða, að ekki sé meira um vert að skoða þetta mál í stærra ljósi og af meiri víðsýni.

Ég legg á það sérstaka áherslu, að breytingin, sem gerð var árið 1971, var svo sannarlega ekki út í loftið. Hún var m.a. gerð með það í huga, að ef Alþ. þóknast einhverju sinni að breyta stjórnarskrá landsins og af þeirri ástæðu þurfi að fara fram kannske tvennar kosningar á því sama ári, þá upplifa menn það að á því sama ári eru þrjú útvarpsráð starfandi. Ég veit að þeir, sem undirbjuggu útvarpsráðslögin árið 1971, gerðu sér fyllilega ljóst, að þetta væri mjög óheppilegt, að stofnun eins og Ríkisútvarpið með sínum mörgu deildum þyrfti að búa við það að hafa kannske þrjár stjórnarstofnanir yfir sér á sama árinu. Þar með væri verið sem sagt að tæta í sundur það samhengi í störfum stofnunarinnar, sem þörf er á að ríki, og einmitt þess vegna varð niðurstaðan að binda ekki kjörtímabil útvarpsráðs við kjörtímabil Alþ. Auk þess vil ég minna hæstv. menntmrh. á það, að hann má vita það að ef hann og þessi ríkisstj. kemst upp með þetta áform sitt að skipta um í útvarpsráði eingöngu í pólitískum tilgangi, þá er hann og þá er ríkisstj. að gefa síðari ríkisstjórnum hættulegt fordæmi, mjög hættulegt fordæmi sem hann og flokksmenn hans eiga kannske síðar eftir að harma að hafi nokkurn tíma verið gefið. Hann má vita það, að næst þegar mynduð verður ríkisstj., sem er ekki að öllu leyti ánægð með þá einstaklinga, sem valist hafa til þess verks að sitja í útvarpsráði, þá mun hún vafalaust minnast þessa óhappaverks, sem hæstv. menntmrh. ætlar hér að hafa forgöngu fyrir, og beita sér fyrir því, að lögunum verði breytt. Það þarf ekki að efast um það, að hugmyndaflug manna er á hverjum tíma nægilegt, þannig að það verður ævinlega hægt að láta sér detta eitthvað í hug, sem þörf sé á að breyta og þannig, að ástæða eða tilefni gefist til þess að skipta aftur um í útvarpsráði. Það vantar ekki, að þegar menn þurfa á því að halda, þá finna menn fljótt tylliástæðurnar. En eins og ég segi, ef þetta fordæmi er gefið, þá er vist, að það verður notað aftur síðar.

Nei, ég vil sem sagt undirstrika það hér að lokum og leggja á það alveg sérstaka áherslu við hæstv. menntmrh., að ef hann og hæstv. ríkisstj. leyfa sér þann munað, þann pólitíska munað, að breyta útvarpslögunum í þessum eina tilgangi, sem við blasir, að losna við nokkra menn, sem Framsfl. er ekki sérstaklega ánægður með, þá er verið að opna fyrir pólitíska íhlutun á þessum viðkvæma stað, þar sem er þessi áhrifamesti fjölmiðill þjóðarinnar, í hvert einasta skipti sem nýr þingmeirihl. er myndaður hér á Alþ. Það er varhugavert fordæmi.

Ég treysti því, að hæstv. menntmrh. svari þeim spurningum, sem ég hef hér lagt fyrir hann, og ég treysti því líka, að hann taki þetta mál til nýrrar athugunar og geri sér fyllilega grein fyrir því, að hér er verið að stuðla að þróun sem er hættuleg pólitískt séð fyrir lýðræðið í landinu og óæskilegt.