14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er verið að tala um óþinglega og óvenjulega meðferð á þessu máli. Ég get nú ekki fremur en formaður hv. menntmn. þessarar d. fallist á það. Það er alvanalegt að fundir í n. séu haldnir, þótt ekki séu allir nm. mættir, og er ekkert nýtt við það í sjálfu sér. Það er einnig ákaflega misjafnt hvað langur tími er tekinn í meðferð mála í n. hér á Alþ. Það vita allir hv. þm., þó að við séum stundum að ræða þetta í ýmsum tóntegundum, að á tímabilinu fyrir jól og í þinglok er oft tekinn styttri tími en endranær til nefndarstarfa o.s.frv. Eins er hitt, sem einhver þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, minntist á, að það hefði borið að leita álits hæfra aðila utan þings um efni þessa frv., sem eins og ég benti á þegar ég reifaði málið hér við 1. umr., er aðeins eitt einstakt atriði: hvort kjósa skuli útvarpsráð að afstöðnum alþingiskosningum ellegar á fjögurra ára millibili. Ég get ekki með nokkru móti séð að það verði fundnir hæfari aðilar utan þings heldur en Alþ. sjálft til þess að meta þetta afmarkaða atriði, sem frv. fjallar um. Ég veit að það er oft gert — þarf ekki að fara að rekja dæmi um það — að afgr. mál á Alþ. sem eru einföld og eru þannig vaxin að þm. telja Alþ. eðlilegasta aðilann til að meta þau, þá er það algengt að þau eru ekki send til umsagnar. Hitt er svo líka mjög algengt, sérstaklega um mál, sem eru margslungin, að þn. og þm. kynni sér viðhorf einstaklinga og hópa utan þingsins, viðhorf þeirra til málsins undir meðferð þess.

Ég get þess vegna ekki séð að það sé neitt óvenjulegt eða óeðlilegt við meðferð málsins á Alþ. og allra síst nokkuð óþinglegt. Það hefur aðeins verið minnst á það, að e.t.v. væri vafasamt að hér væri um fyllilega lögmætar aðgerðir að ræða, að breyta kjörtíma með löggjöf og taka þannig umboð af n., sem kosnar hafa verið hér á hv. Alþ. Ég held að um þetta þurfi menn ekki að bollaleggja, því að þetta hefur svo oft verið gert áður, að það kemur varla til mála að menn hafi þá æ ofan í æ verið að brjóta lög, án þess að nokkur hreyfði við því andmælum.

Svo hefur verið lögð mikil áhersla á það hér í ræðum hv. þm., að hér sé um nýmæli að ræða. En eins og ég sagði áðan er það ekki, þetta hefur oft verið gert áður. Og fyrst það er ekki nýmæli hér í lagasetningu á Alþ. þá er ekki heldur með þessu verið að gefa neitt fordæmi, sem ekki hefur verið til áður, það er alger misskilningur. Það eru ýmis fordæmi fyrir lagabreytingu, sem hefur leitt af sér styttingu á kjörtímabili stjórna og nefnda sem Alþ. hefur kosið.

Mér finnst að í málflutningi þeirra, sem andmæla þessu frv. hér, séu einkanlega tvö meginatriði: Annars vegar það að þeir eru sífellt að gefa það í skyn að útvarpsráðsmenn einhverjir, þeir séu svo erfiðir og baldnir og óþægilegir fyrir tiltekna flokka að menn vilji því ekki una. Ég hef aldrei gefið slíkt í skyn og ætla mér ekki heldur að gera það hér nú. Þetta eru þeirra hugmyndir, sem svo tala. Hitt atriðið er svo það, að hér eigi að treysta áróðursaðstöðu ríkisstj. með þessu. Ég hef séð blaðaskrif í þessa stefnu og ummæli höfð eftir einum tilteknum útvarpsráðsmanni, þar sem hann lætur í ljós þá skoðun að þetta sé gert til þess að treysta áróðursstöðu ríkisstj. Ég get nú ekki rannsakað hjörtun og nýrun. En eitthvað er nú hugarfar þessara manna, sem sífellt eru að klifa á þessu, á þá leið að þeir virðast svo sem vel geta hugsað sér þennan möguleika.

Ég held að það sé vilji okkar allra hér á Alþ. eins og þeirra þm., sem hér sátu þegar útvarpslögin voru sett 1930, að útvarpíð gæti fyllstu óhlutdrægni. Og ég vísa algerlega á bug tali um að það sé vilji þeirra, sem standa að þessu frv., eða annarra alþm., að útvarpinu sé beitt af hlutdrægni. Ég vísa því algerlega á bug.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagðist vilja fá að vita allan sannleikann um þetta, og mér skilst að hann vilji fá að vita þann sannleika, sem honum hentar og honum er efst í huga og það er þetta einasta eitt að það sé verið af pólitískum ástæðum að bola mönnum burtu og það sé verið að breyta l. til þess að geta misbeitt útvarpinu í þágu ríkisstj. Hann fær ekki þennan sannleika frá mér. Hann verður að búa sér hann til sjálfur. Það er auðvitað hverjum frjálst að mynda sér sinn eigin sannleika, ef þeim líkar ekki það, sem aðrir hafa til mála að leggja. Já, mér fannst það ósköp leiðinleg ummæli hjá þessum hv. þm. að hann sagði eitthvað á þá leið að menn hefðu verið að reyna að koma útvarpsráði undan smáskítlegum afskiptum stjórnmálafl. (Gripið fram í: Stjórnmálabraskara, sagði ég.) — stjórnmálabraskara. Ég kann ekki við svona tal á hv. Alþ., að kalla okkur sem stöndum að kosningu þessa ráðs og höfum gert allt síðan 1939. Ég kann ekki við þessi ummæli. En þau benda náttúrlega til þess, að sá sannleikur, sem þessum hv. þm. er efst í huga og hann óskar sér að fá staðfestan frá mér o.fl., að hann sé eitthvað ekki huggulegur.

Ég skal svo bara endurtaka það, sem ég sagði þegar ég talaði fyrir þessu frv. í upphafi, að tilgangur frv. er sá að stuðla að því að skipan útvarpsráðs verði jafnan í sem nánasta samræmi við skipan Alþ. á hverjum tíma.