14.12.1974
Neðri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem hafa komið fram við frv. hjá þeim ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls, og ég vil undirstrika það vegna orða hv. 3. þm. Reykn. að það er eingöngu gleymska mín að hafa ekki getið um einmitt það eftirtektarverða frv. sem hann flutti á sínum tíma hér á Alþ. fyrir um það bil tveimur áratugum, sem ég tel einmitt að hafi máske verið frumkvöðull þess, alla vega mikill og góður stuðningur við það að námskeiðum þeim var komið á fót og haldið við sem ég gat um í minni ræðu.

Vegna þeirrar aths., sem kom fram hjá hæstv. ráðh., vil ég taka það fram, að ástæða mín fyrir því að tengja heimilisfangið Reykjavík er eingöngu það að höfuðstöðvar Fiskifélagsins eru hér. Það er enginn vafi að sú mikla og jákvæða þróun, sem hefur orðið nú á síðustu missirum í þessum málum, er einmitt því að þakka að þeir menn, sem sjútvrn. fól þessi störf, áttu aðgang að aðalstöðvum Fiskifélagsins hér í Reykjavík og gátu notað þær skrifstofur og starfsfólk til þess að koma sínum boðum til skila til útvegsmanna, sjómanna, kennara og annarra skólamanna úti um landið allt. Í sjálfu sér sé ég enga ástæðu til þess að binda mig við þetta heimilisfang, en ég tel hins vegar, að ef af þessum skóla verður, þurfi hann að eiga innangengt hjá Fiskifélagi Íslands.

Vegna hugleiðinga ráðh. um sömu kjör og ómenntaðri menn, þá tel ég að þetta ætti kannske frekar að vera samningsatriði. Ég minnist þess á sínum tíma þegar ég var togaraháaseti með stýrimannaskólapróf, að við vorum 11 á sama skipinu búnir að ganga í gegnum þann skóla og höfðum hreint ekkert meiri laun fyrir það, við höfðum bara okkar hásetalaun, nema þeir sem voru netamenn. Ég geri ráð fyrir því, að þessir menn mundu vera á sama báti. En hins vegar hafa þeir möguleikann á því að ganga frekar upp til annarra starfa sem betur eru launuð heldur en aðrir. En ég vil ekki svipta þá menn, sem ekki eiga kost á að fara í slíkan skóla, þeim möguleika að geta líka verið á hærri launum, enda vitum við að það eru margir afburðaverkmenn þótt þeir hafi aldrei og muni aldrei í neinn skóla fara.