17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

316. mál, veiting íbúðarhúsalána

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. er á þessa leið:

„Hvenær er áætlað að lán verði veitt úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra húsbyggjenda, sem gert höfðu íbúðir sínar fokheldar fyrir 15. nóv. s.l.?“

Húsnæðismálastjórn hefur nú tekið ákvörðun um lánveitingar til þeirra húsbyggjenda, sem gert höfðu íbúðir sínar fokheldar fyrir 15. nóv. og sótt höfðu um lán fyrir eindaga umsókna, þ.e. fyrir 1. febr. Ákveðið hefur verið að lán þessi komi til útborgunar frá og með 20. des. Jafnframt hefur húsnæðismálastjórn ákveðið lánveitingar til þeirra húsbyggjenda er sent höfðu umsóknir eftir 1. febr., en höfðu gert fokhelt 15. ágúst. Skulu þeir fá lán sín greidd frá og með 15. febr. n. k.

Á s.l. ári, 1973, stóðu mál þannig, að á tímabilinu 15. ágúst til 15. nóv. það ár voru gerðar fokheldar 500 íbúðir, þar sem sótt hafði verið um lán til stofnunarinnar fyrir 1. febr. 1973. Á sama tíma á þessu ári var sambærileg tala 802 íbúðir eða um 300 íbúðum fleira.

Ég vænti þess að með þessu hafi fsp. hv. þm. verið svarað.