17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

316. mál, veiting íbúðarhúsalána

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin og þau fyrirheit, sem þau fólu í sér húsbyggjendum til handa, og þá sömuleiðis þeim, sem ekki var beint spurt um, en höfðu vitanlega þörf fyrir svör einnig. Ég hlýt þó að harma þann seinagang og þá leynd sem yfir þessu hefur hvílt, því að staðreyndin er sú að þeir verða ekki margir úti á landsbyggðinni sem ná því að fá lán fyrir áramót með þessu móti, enda dagsetningin e.t.v. ákveðin m.a. með tilliti til þess, fyrst vitað er að þrengingar hafa verið miklar í fjármagnsútvegum. Sannleikurinn er sá, að virkir afgreiðsludagar þessarar stofnunar frá 20. des. til áramóta eru aðeins 3, að ég tel rétt, ef Þorláksmessa er með talin.

Ég hlýt líka að harma afstöðu ýmissa þeirra aðila, sem Húsnæðismálastofnun hefur leitað fyrirgreiðslu hjá og mér vitanlega hafa synjað þar um. Alveg sérstaklega hlýt ég að víkja að undirtektum og afstöðu Seðlabankans, sem ég hygg og hef fyrir satt að hafi verið mjög neikvæð í þessum efnum. Allir nema þá e.t.v. stjórnendur hans vita að hér er að miklu leyti um tilfærslu að ræða. Langflestir húsbyggjendur hafa þegar fengið víxillán hjá lánastofnum eða aðra skammtímafyrirgreiðslu hjá fyrirtækjum að 3/4 eða meira af þeirri upphæð sem þeim er nú úthlutað. Bankarnir, sem velflestir að ég hygg greiða nú bankanum gífurlega refsivexti vegna yfirdráttar þar eru því ekki í minni vanda, ekki síst hin ýmsu útibú á landi.

Ég hlýt að fagna jákvæðum viðbrögðum hæstv. ráðh., þótt síðbúin séu, en vona að betur og réttlátlegar verði að staðið í framtíðinni, svo að landsbyggðarmenn nái rétti sínum örugglega fyrir áramót eftirleiðis hvað þetta varðar, því að það hlýtur að teljast lágmarkskrafa. Hafi fsp. mín heft einhver jákvæð áhrif þar til eftirrekstrar, þá fagna ég því einnig.