17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð við þessar umr. og það var raunar fyrst og fremst til að vekja athygli á því, sem hefur að sjálfsögðu verið gert og frv. ber með sér, að Vestfirðir koma ekki við sögu í frv. þessu.

Það hefur verið rætt mikið í þessum umr. um réttmæti þess að stofna til happdrættisláns til að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem frv. gerir ráð fyrir. Ég skal ekki a.m.k. á þessu stigi fara að blanda mér inn í þær umr. En ég vil taka fram, og það finnst mér að ekki hafi komið hér fram, að þegar sú leið var fyrst farin að efna með happdrættisskuldabréfum til fjáröflunar til vegagerða, þá var það gert í þeim tilgangi að koma vegasambandi á þar sem enginn vegur var fyrir, þar sem var Skeiðarársandurinn.

Með sömu rökum var það gert að efna til happdrættiskuldabréfaláns til þess að koma á Djúpveginum. Þar var enginn vegur fyrir. Ég bið menn að athuga það vel, hver munur er á því að afla fjár til vega, sem fyrir eru, til þess að gera þá betri og byggja þá upp, eins og það var orðað í þessu frv., eða að efna til fjáröflunar til þess að koma á vegasambandi við vissa landshluta sem ekki hafa haft það áður. Það var það sem gerðist á Vestfjörðum viðvíkjandi Djúpveginum. Nú þegar kemur fram frv. að byggja upp vegi þar sem vegir eru fyrir, gera þá betri, þá sýnist mér að það séu allar efnislegar ástæður fyrir því að gera slíkt og hið sama á Vestfjörðum eins og annars staðar í þessu landi þar sem mikil verkefni bíða.

Ég tek undir allt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér fyrr í umr. um nauðsyn þess að gera átak í þessu efni á Vestfjörðum. Ég vil með þessum orðum mínum undirstrika það, að þar er ekki minni þörf en annars staðar þar sem frv. þetta gerir ráð fyrir að unnið verði að vegagerð með fé því sem aflað er með happdrættisskuldabréfum. Þess vegna sýnist mér og tel raunar að það verði að koma til athugunar, hvort ekki sé rétt að breyta þessu frv. í meðferð þingsins á þann veg að það taki einnig til Vestfjarða.