17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu vera fá orð.

Fyrir nokkrum dögum flutti hæstv. samgrh. hér mjög ítarlega framsögu fyrir frv. til nýrra vegalaga og ég fagnaði því, sem þar kom fram, m.a. því, að hann lýsti því yfir að fjáröflun með þessum hætti, sem er ráð fyrir gert í þessu frv., yrði upp tekin og að því er mér skildist tekin inn í vegáætlun og henni dreift sem víðast og best um landið. Ég verð að játa að ég skil ekki vel enn, hvernig á því stendur að þessu frv. út af fyrir sig er hraðað svo mjög og hvers vegna þetta er hespað af á sama tíma og hæstv. samgrh. hefur lýst þessu svona skýrt og skorinort yfir, að því er ég tel sem stjórnarandstæðingur á algerlega fullnægjandi hátt fyrir mig og mitt kjördæmi. Ég tek nefnilega fyllilega undir með hv. 2. þm. Vestf. og þeim öðrum fulltrúum sem hér hafa talað um fyrsta flokks vegi og annars flokks vegi, fyrsta flokks landshluta og annars flokks landshluta. Og fyrst þessi fjáröflunarleið er farin, og ég styð hana eindregið, því að ég er alls ófróður um þær geigvænlegu afleiðingar, sem þeir sérfræðingar í bisnissmálum, sem hér hafa talað, hafa verið að gera að umtalsefni og ég hef ekki séð að einhverju leyti réttar. En hvers vegna þá ekki að gera sameiginlegt átak hreinlega, sem allir nytu sem jafnast góðs af? Það má nefnilega ekki verða að aðalatriði að við einblínum á fáa góða meginvegi, en gleymum samgöngum innan fjórðungs, sem eins og áðan var hér tekið fram eru að mörgu leyti jafnvel mikilvægari. Inn á það kom hæstv. samgrh. einmitt um daginn að því er ég tel á mjög eðlilegan hátt og sjálfsagðan og lagði á það áherslu. Ég hefði því talið að sú stefna, sem hæstv. ráðh, markaði greinilega hér um daginn, væri okkur núna mjög gott veganesti heim í jólafríið og við þyrftum ekki neitt sérstaklega á þessu frv. út af fyrir sig að halda.

Ég get af eðlilegum ástæðum sætt mig við þá lausn, sem fram kom í Nd., þar sem ekki var um algjöra einstefnu í þessu máli að ræða, heldur var fénu víðar og eðlilegar dreift. En ég skil líka mætavel afstöðu þm. þeirra kjördæma, sem hér verða útundan, og ég tek fyllilega undir það sem austfirðingur, að ekki þykja mér síður góðs verðar samgöngur norður á bóginn. Við vitum að af því hafa báðir hag austfirðingar sem norðlendingar, og það er vissa okkar í báðum þessum landshlutum að góðar samgöngur milli þessara landshluta efli byggðaþróun þeirra beggja.

Það er sem sagt mín skoðun að í fyrsta lagi eigi lagning varanlegra vega ekki að miða endilega og alltaf út frá Reykjavíkursvæðinu, það eigi að taka tillit til fleiri þéttbýlisstaða og góðra vega út frá þeim, og ég heyrði það greinilega á hæstv. samgrh, um daginn að hann var þessu sjónarmiði fyllilega sammála. Heildaráætlun á þessu sviði samkv. þessari fjáröflun væri að mínu viti að mörgu leyti réttasta leiðin þó að ég af skiljanlegum ástæðum geti fallist á frv. í núverandi mynd. En næðist um hitt samkomulag, að gera þetta einn lið í heildaráætlun um vegamál og jafna aðstöðu allra sem mest einmitt eftir þessari aðferð, þá álít ég að sú lausn væri kannske okkur heilladrýgst.