18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil aðeins staðfesta það sem vitnað hefur verið í sjútvrn. frá hendi frsm. meiri hl. sjútvn., hv. 3. hm. Austf., að allt það sem hann sagði í þeim efnum er rétt og það sem sjútvrn. hefur fallist á. Ég vil einnig bæta því við að allar reglur, sem settar kunna að verða í sambandi við ráðstöfun gengishagnaðarins, mun sjútvrn. setja í fullu samráði við ríkisstj. og með hennar samþykki, þannig að það komi hér fram, að um ráðstöfun á þessu fjármagni verður haft fullt samráð við ríkisstj., jafnframt því sem hv. 3. þm. Austf. lýsti yfir að haft verður samráð við fulltrúa frá sjútvn. beggja d. um þær reglur, því að það er engin ástæða til að það þurfi að fela neitt í sambandi við þær reglur. Það er erfitt að setja margar af þessum reglum og því er rétt að ríkisstj. ein beri ábyrgð á þeim og fulltrúar sjútvn. eða formenn n. eða aðrir þeir sem þeir vilja heldur fela það, að þeir fái einnig að fylgjast með þessu.

Þær brtt., sem hér liggja fyrir, ætla ég ekki að ræða neitt frekar, að öðru leyti en því að 2. brtt., sem er flutt til þess að verða við óskum síldarútvegsnefndar, tel ég að sé mjög sanngjörn, að hækka úr 500 kr. í 1300 kr. miðað við kostnað á tunnu. Eins er um e- og f-lið, sem eru ekki úr fyrstu till. sjútvrn. og hv. frsm. lýsti, að ég fyrir mitt leyti er mjög ásáttur og ánægður með þær brtt. báðar. Enn fremur eru ákv. til brb., sem eru einnig til þess að verða við óskum síldarútvegsnefndar hvað snertir endurgreiðslu á útflutningsgjaldi á árunum 1973 og 1974. En ég vil ekki á þessu stigi fallast á að setja reglur fram í tímann fyrir árið 1975. Það mál má taka upp síðar. Það þarfnast miklu frekari undirbúnings og margvíslegra annarra upplýsinga.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg mikla áherslu á að þetta mál nái fram að ganga. Það bíða margir eftir ráðstöfun gengishagnaðarins, og eftir því sem lengra líður að Alþ. afgreiði þetta frv. verður biðin orðin óbærilegri fyrir margan þann sem vantar að fá greiðslur til þess að halda eðlilegri útgerð uppi. Ég vænti því að þessi hv. þd. verði við þeim tilmælum að afgreiða þetta mál eins fljótt og kostur er. Það fóru fram allvíðtækar umr. þegar 1. umr. fór fram, og ég vona að þm. geti fallist á þá ósk, vegna þess hvað þetta er orðið aðkallandi, að reyna að hafa ekki mjög langar umr. þannig að málið komist sem fyrst til Ed. til afgreiðslu þar.