18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

84. mál, útvarpslög

Kjartan Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það má mikið vera ef ekki hafa vaknað ýmsar nýjar hugsanir með hæstv. menntmrh. við að hlýða á þá ræðu sem hv. 11 þm. Reykv., Ellert B. Schram, var að ljúka hér við að flytja. Hæstv. menntmrh. hefur í öllum sínum málflutningi varðandi þetta frv. látið svo sem ákvörðun hams að leggja þetta frv. fram sé algerlega óháð störfum þess útvarpsráðs sem starfað hefur s.l. 3 ár. Það hefur ekki komið fram hjá hæstv. menntmrh. að hann hefði nokkurn skapaðan hlut við störf þessa útvarpsráðs að athuga, og maður hefur jafnvel getað látið sér detta í hug af málflutningi hans að hann viti ekki til þess að störf þess hafa verið gagnrýnd. Það fór hins vegar ekkert milli mála að hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram, vissi vel hvers vegna hann styður það frv. sem hér er til umr. Hann komst svo að orði að þetta útvarpsráð hafi vantað umburðarlyndi og viðsýni og valdbeiting þess verið með endemum. Hann komst einnig svo að orði að engum hefði dottið í hug að breyta tilhögun á kjöri útvarpsráðs, nema af því að núv. útvarpsráð hafi kallað á þessa breyt. með störfum sinum. Hæstv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, hefur hins vegar látið svo í sínum ræðum hér á hv. Alþ. um þetta mál sem honum hafi dottið þetta í hug án þess að hafa hugmynd um að neitt væri við störf útvarpsráðs að athuga.

Morgunblaðið hefur haldið uppi þeirri kröfu mjög lengi að þetta útvarpsráð ætti að víkja. Það var eitt það fyrsta sem kallað var á eftir stjórnarskiptin í þessu höfuðmálgagni Sjálfstfl. Hæstv. menntmrh. talar eins og hann hafi ekki hugmynd um þetta, honum hafi bara dottið það í hug, alveg sér á parti, að þetta sé sennilega heppilegri almenn regla, að útvarpsráð sé kosið á fyrsta þingi eftir kosningar, heldur en að það sé kosið til 4 ára óháð alþingiskosningum eins og núv. lög kveða á um. Hann hefur ekki fært fyrir því nein frambærileg rök að þetta sé allt í einu rétt nú sem Alþ. var sammála um að væri rangt fyrir 3 árum.

Ég vil leyfa mér að ætlast til þess að hæstv. menntmrh. geri hér grein fyrir því hvort hann er að einhverju leyti sammála þeim rökum sem hv. alþm. Ellert B. Schram færir fram fyrir stuðningi sínum við þetta frv., hvort þau rök og sá boðskapur, sem þar var fluttur, hefur haft einhver áhrif á ákvörðun menntmrh. eða hvort hann vill afneita því með öllu. Það væri mjög æskilegt að fá um það að vita og ég vil óska þess eindregið að hæstv. menntmrh. geri grein fyrir því. Ég hygg að það trúi því enginn maður að þarna sé um að ræða tvennt alveg aðskilið, annars vegar saklausa hugdettu hæstv. menntmrh. og hins vegar þann ofsafengna áróður sem rekinn hefur verið fyrir þessu máli af talsmönnum Sjálfstfl. hér á Alþ. og í blöðum þeirra að undanförnu, að þarna sé ekkert samhengi á milli. Trúi því hver sem vill.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði að útvarpsráð hafi misnotað aðstöðu sína leynt og ljóst, það hafi gefið starfsmönnum áminningar og væri ekkert óeðlilegt að ný ríkisstj. vildi koma sinum mönnum að í slíkri stofnun ef stofnunin væri pólitísk. Ég minni á að hæstv. menntmrh. hafði farið hér mörgum orðum um það að stofnunin væri einmitt pólitísk og hlyti að vera það. Og þá er það sem sagt ekkert óeðlilegt að ný ríkisstj. vilji koma sínum mönnum að. Látum það vera. En ég vil spyrja: Er það dauðasynd hjá einu útvarpsráði að gefa einhverjum starfsmanni, sem brýtur viðeigandi reglu um óhlutdrægni útvarpsins, áminningu? Ég veit ekki til að þetta útvarpsráð hafi rekið nokkurn starfsmann og ég veit ekki til að þetta útvarpsráð hafi verið ásakað fyrir að meina einum eða neinum að flyt ja sitt mál í Ríkisútvarpinu. (Gripið fram í: Það skaltu ekki vera viss um.) Það hefur verið ásakað fyrir að leyfa of mörgum að komast að. með sinn málflutning í Ríkisútvarpinu. (Gripið fram í.) Við höfðum útvarpsráð á undan því útvarpsráði sem nú starfar, þar sneri þetta öfugt. Þar var um að ræða útvarpsráð sem meinaði mönnum að koma sínum sjónarmiðum að. Ég býst við að a.m.k. hæstv. menntmrh. minnist þess að fyrirrennari hans í starfi, núv. hv. þm. Magnúsi T. Ólafsson, var t.d. hrakinn frá umsjón ákveðins þáttar í útvarpinu á þeim árum af þáv. útvarpsráði sem ekki þoldi að þar kæmu fram einnig andstæð pólitísk sjónarmið við viðhorf þeirra manna sem það ráð skipuðu. Menn geta talað hér eins og hæstv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, þegar bent er á að í þessu frv. felist ákveðin hætta á tilhneigingum til ritskoðunar, og sett upp sakleysissvip: Ritskoðun, það er eitthvert illgresi sem ekki er búið að uppræta í hugum ákveðinna manna, sagði hæstv. menntmrh. Núv. útvarpsráð er ekki hægt að saka um ritskoðun. Það hefur komið fyrir að það hafi látið skoðun sína í ljós. að það teldi ástæðu til að veita jafnvel starfsmönnum útvarpsins áminningu, — ég man ekki eftir nema einu tilviki. Það er ekki ritskoðun. Hitt er ritskoðun, að hrekja menn af pólitískum ástæðum frá umsjón ákveðinna þátta sem þeir hafa verið ráðnir til.

Það hefur verið lögð mikil áhersla á það í öllum umr. um starf Ríkisútvarpsins og það er eitt meginatriði í lögum um þá stofnun að þar skuli gætt óhlutdrægni. Menn geta lengi deilt um hvað í þessu orði felst, og ég er hjartanlega sammála því sem fram kom hjá hæstv. menntmrh., Vilhjálmi Hjálmarssyni, um það atriði, að varðandi dóma manna um hvað feli í sér hlutdrægni og hvað ekki eru viðhorfin ólík. Ég vil biðja menn að hugleiða það hvort deilur um hlutdrægni eða óhlutdrægni Ríkisútvarpsins hafi fyrst verið að koma upp núna á allra síðustu árum með starfsemi þessa útvarpsráðs. Því fer víðs fjarri. Þær deilur hafa staðið alla tíð, og þær hljóta alla tíð að standa, vegna þess að í þessum efnum eru viðhorf manna mismunandi og enginn algildur mælikvarði til. Hitt er rétt að hafa í huga, að það er nú einu sinni svo að þau viðhorf og þær skoðanir, sem eru — við getum kannske sagt mjög almennt ríkjandi, það má kannske kalla það skoðanir og viðhorf hins þögla meiri hl. sem þeir sjálfstæðismenn telja sig gjarnan vera fulltrúa fyrir, — þær skoðanir og þau viðhorf setja yfirleitt svip sinn á yfirgnæfandi meiri hl. þess efnis sem í stofnun eins og Ríkisútvarpinu er flutt, bæði dagskrárefnis, fréttavals, fréttaskýringa, yfirgnæfandi meiri hl. efnis og alveg óháð því hvaða útvarpsráð situr að völdum. Eitt útvarpsráð, sem vill gæta vel að sínum störfum og ekki síst reglunni um það að útvarpið skuli vera óhlutdrægt, það hlýtur ekki fyrst og fremst að vera í hættu fyrir því að brjóta þann trúnað, sem því hefur verið falinn, á þann veg að þessi almennu viðhorf og skoðanir séu fyrir borð bornar. Þær komast alls staðar að. Prófið, sem útvarpsráð stendur frammi fyrir í þessum efnum, er miklu frekar hitt: Geta þeir aðilar komist að og haft einhver áhrif á það sem fram kemur í útvarpinu með einum eða öðrum hætti, sem ekki falla inn í þennan almenna ramma, minnihluta hópar, bæði pólitískir og af öðru tagi? Á að útiloka þá eða eiga þeir að fá að vera með? Við erum hins vegar ekki neitt nálægt því að sá möguleiki sé fyrir hendi að slíkir minnihlutahópar taki að drottna. Hugsum okkur minnihlutahóp eins og þann sem væri kannske ákaflega lukkulegur með dagskrá stúdenta 1. des. s.l. Ég hygg að það sé ekki ýkja stór hópur, og ég get sagt það hér að ég var síður en svo ánægður með þá dagskrá. En á það að vera einhver dauðasynd fyrir útvarpsráð að það skuli ekki hlaupa til og hanna þessa dagskrá, sem réttir aðilar innan Háskólans óneitanlega bera ábyrgð á, á degi sem hefur allt frá því að landið varð fullvalda verið dagur stúdenta, og þeir hafa haft aðgang að Ríkisútvarpinu á þessum degi, að ég hygg síðan útvarpið tók til starfa? Skyldi það ekki hafa verið miklu alvarlegri aðgerð, ef til slíks hefði verið gripið, heldur en þó að það komi fyrir kannske einn sinni eða tvisvar á 50 árum að eitthvað sé með þeim hætti hjá stúdentum að hinn þögli meiri hl. og kannske reyndar ýmsir fleiri séu ekki alveg ánægðir með það.

En þessi krafa sást aldeilis í Morgunblaðinu og sjálfsagt viðar hjá talsmönnum Sjálfstfl. Það var gert hróp að útvarpsráði fyrir að það skyldi ekki grípa til — grípa til hvers? Ritskoðunar, getum við kallað það, eða þess sem er sama eðlis. Menn muna kannske eftir því að útvarpsráð það, sem starfaði á undan þessu — ég vil ekki fullyrða að það hafi verið það sem starfaði næst á undan, en ekki mjög löngu á undan það braut ákveðna hefð í ákveðnu máli sem ekki var neitt lítið mál. Verkalýðssamtökin í þessu landi höfðu þá um alllangt árabil haft aðgang að Ríkisútvarpinu 1. maí á sínum baráttudegi, og ráðið þar dagskrá. En það var ákveðið útvarpsráð, sem ég hygg að Sjálfstfl. og hans talsmenn hafi verið ákaflega ánægðir með, talið viðsýnt, frjálslynt o.s.frv. og öll þessi fögru orð, — það braut þessa hefð á sínum tíma og neitaði verkalýðssamtökunum, Alþýðusambandi Íslands, um að fá að ráða dagskrá í útvarpinu á sinum alþjóðlega baráttudegi. Og nú átti sem sagt að hafa sama háttinn á gagnvart stúdentum hér við Háskólann.

Það fer ekkert milli mála hver tilgangur þessa frv. er. Hann lá alveg skýrt að baki þeirra orða sem flutt voru hér af hv. þm. Ellert B. Schram. Öll þjóðin veit um þennan tilgang, það þurfti ekki hans orð til, nema hæstv. menntmrh., hann þykist ekkert vita og ekkert skilja og er mér þó sagt að hann sé prýðilega greindur maður.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem hér hefur verið sagt varðandi þau rök sem fram voru færð fyrir þessari breytingu 1970 og 1971, fyrir þeirri breytingu sem gerð var 1971 á útvarpslögunum, að útvarpsráð skyldi kosið til fjögurra ára óháð alþingiskosningum. Hér hefur verið vitnað í ræður sem fluttar voru hér á hv. Alþ. þá, og það fer ekkert milli mála að menn voru algerlega einhuga um það, eins og líka liggur í hlutarins eðli, að sú breyt., sem þá var gerð, stuðlaði að því að undirstrika regluna um óhlutdrægni Ríkisútvarpsins. En óhlutdrægni er ekki síst fólgin í því að þeir, sem ekki falla innan ramma viðtekinna skoðana í stjórnmálum eða öðru, fái líka að komast að í Ríkisútvarpinu. Það er þetta sem meiri hl. núv. útvarpsráðs hefur beitt sér fyrir og það á myndarlegan hátt, og væri skylt að þakka honum fyrir það. A.m.k. þeim mönnum; sem hafa lýðræðið á vörunum og óhlutdrægni í stofnunum ríkisins, væri skylt að þakka honum fyrir það, en ekki reka hann frá áður en tímabil hans er útrunnið.

Það er ljóst að það er Sjálfstfl. sem hér ræður ferðinni. Sumir, sem hér hafa talað á undan mér, segja að það sé kannske bara svolítill hluti af honum. Látum það vera, en Sjálfstfl. ber ábyrgð á þessu í heild.

Ég býst við að það sé rétt að framsóknarmenn og þ. á m. hæstv. menntmrh. hafi verið eitthvað veikari fyrir að láta undan í þessu máli og auglýsa sig sem þátttakanda í þessu verki frammi fyrir allri þjóðinni vegna þess að svo vildi til að annar fulltrúi, sem kjörinn var af lista Framsfl. á sínum tíma, hafði sagt skilið við flokkinn og gerst mótframbjóðandi hæstv. menntmrh. á Austfjörðum. Það hefur sjálfsagt átt einhvern þátt í því. En ég verð að segja það að mér þykir illt til þess að vita að hv. alþm. Framsfl. skuli ekki geta hafið sig yfir slík smáleg sjónarmið og neitað þessari kröfu Sjálfstfl. um hreinsun í útvarpsráði. Ég held að þeirra pólitíski hlutur og þeirra pólitíska álit hefði vaxið ef þeir hefðu haft djörfung, vilja eða þrek til að gera það. En þetta átti yfir þá að ganga, og það átti meira að segja yfir þá að ganga með þessum hætti, að það er hæstv. menntmrh. sem er dæmdur til að ganga hér fram fyrir skjöldu og leika það hlutverk frammi fyrir allri þjóðinni að hann gangi að þessu — blindandi vil ég segja — án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað þarna er að baki hjá þeim aðilum sem þessar kröfur hafa mótað og þessar kröfur hafa knúið fram.

Hæstv. menntmrh. segir sem svo, bæði í sínum ræðum hér í kvöld og einnig áður, að hann telji að útvarpsráð eigi að vera skipa? S í sem nánustu samræmi við skipan Alþ. Þetta verður vart skilið á annan veg en svo, að ríkisstj. á hverjum tíma, a.m.k. svo fremi að hún hafi meiri hl. á Alþ., eigi að hafa undir öllum kringumstæðum ákveðinn og öruggan meiri hl. í útvarpsráði. Hvernig var þeim meiri hl. háttað í því útvarpsráði sem nú starfar og svo mjög hefur verið deilt á af talsmönnum Sjálfstfl., ekki af hæstv. menntmrh., — hvernig var þeim meiri hl. háttað? Útvarpsráð er 7 manna stofnun, og ég hygg að allir hv. alþm. kannist við það að þegar þarna er verið að tala um meiri hl., þá er verið að tala um ákveðna 4 menn. Voru þetta fulltrúar ríkisstj., þeirrar fyrrv., vinstri stjórnarinnar, eða þeirra flokka sem að henni stóðu? Nei, þetta var ekki meiri hl. fyrrv. ríkisstj. Ég tala um meiri hl. sem auðvitað var ekki meiri hl. í þeim skilningi að það væri einhver samansvarinn flokkur í öllum tilvikum, en sá meiri hl. sem þó kom langoftast ef um meiri hl. og minni hl. var að ræða. Þarna var um að ræða meiri hl. sem var í raun og veru ekki endilega í samræmi við skipan Alþ., ekki stjórnar og stjórnarandstöðu, ekki flokkspólitískur meiri hl. Þarna var um að ræða annan af fulltrúum Framsfl., sem seinna, á síðustu mánuðum, hefur sagt skilið við sinn fyrri flokk, fulltrúa kjörinn af Alþb., fulltrúa kjörinn af Alþfl. sem var í stjórnarandstöðu og fulltrúa kjörinn af Samtökum frjálslyndra sem var reyndar, þegar hann var kjörinn, meðlimur í Alþfl. sem var í stjórnarandstöðu, þannig að í þessum fordæmda meiri hl. voru lengst af tveir menn sem studdu vinstri stjórnina á hennar árum, tveir menn sem voru í stjórnarandstöðuflokki. Var það nú voðalegt að menn gætu unnið þarna saman og myndað meiri hl. í útvarpsráði þvert yfir stjórnmálaflokka, þvert yfir þá skiptingu sem ríkti á Alþ. um stjórn og stjórnarandstöðu? Var hitt endilega æskilegra, að skipanin þarna í útvarpsráði væri nákvæmlega í samræmi við flokkspólitíska skipan mála á Alþ.? Það hefur verið svo að skilja á hæstv. menntmrh. að hann hefði kosið það frekar. En ég hygg að fáir verði til að taka undir með honum í því atriði. Sé nú ekki endilega fyrir fram gefið og vitað, að þar sem einn maður er fulltrúi þessa og þessa flokks, þá hljóti hann að renna inn í einhvern ákveðinn meiri hl. kannske á vegum einhverrar ákveðinnar ríkisstj., þá er það mjög jákvætt merki, mjög jákvætt merki, vil ég segja, en þannig var það í því útvarpsráði sem starfað hefur undanfarin 3 ár.

Ég held að ég eyði ekki tíma hv. d. í að fara út í það hvað það er sem aðallega hefur verið deilt á útvarpsráð eða meiri hl. þess fyrir, ég á þá ekki við bara hér á Alþ., heldur á undanförnum árum, fyrst og fremst af talsmönnum Sjálfstfl. og í málgögnum hans.

Menn tala hér mikið um að nú eigi að koma nýtt útvarpsráð sem gæti betur reglunnar um óhlutdrægni heldur en það sem hér hefur starfað. Það fór ekkert á milli mála að talsmaður Sjálfstfl., sem hér talaði í kvöld, hélt því fram mjög ákveðið að ástæðan fyrir því að þetta útvarpsráð yrði að víkja, það væri eiginlega ekki hægt að halda jól fyrr en það væri fallið, — að ástæðan væri sú að það hefði ekki gætt þessarar ákveðnu reglu. Menn vildu kannske hugleiða það aðeins með mér hvort líkurnar séu verulega miklar á því að óhlutdrægni fari vaxandi þegar það nýja útvarpsráð kemur sem ríkisstjórnarsamsteypan hér á Alþ. stefnir nú að. Þegar menn hugleiða þetta, hvort von sé á fullkominni óhlutdrægni, þá ættu menn að hafa það í huga að Sjálfstfl. hefur átt þess kost eins og aðrir að velja sér fulltrúa í útvarpsráð, sjálfsagt allt mæta menn, bæði fyrr og nú. Að vísu taldi Morgunblaðið sig þurfa að víta sérstaklega annan fulltrúa Sjálfstfl., hv. alþm. Þorv. Garðar Kristjánsson, í forustugrein sinni fyrir stuttu, en það hefur ekki þurft að vita fleiri af sínum fulltrúum sem þar eru nú. Þar er t.d. um að ræða ágætan borgara hér í bænum, starfsmann Atlantshafshandalagsins. Hann er einn um það, sá maður, að vera launaður starfsmaður erlends hernaðarbandalags hér á Íslandi, sjálfsagt mörgum góðum kostum búinn, en að mínu viti ekki líklegur til að vera heppilegri en aðrir til að vakta það að Ríkisútvarpið gæti reglunnar um óhlutdrægni ef hann á þar að ráða.

Ég vil ljúka máli mínu með því að biðja menn að minnast þess, að hvað sem um þetta frv. Sjálfstfl. og hæstv. menntmrh. verður, þá hefur það útvarpsráð eða meiri hl. þess, sem hér hefur starfað undanfarin 3 ár, ekki verið ásakað fyrir að banna hluti, ekki verið ásakað fyrir að reka menn úr störfum eða rifta ráðningum varðandi umsjón þátta eða annað slíkt, það hefur ekki verið ásakað fyrir að meina mönnum aðgang að Ríkisútvarpinu. Engin dæmi hafa verið nefnd um slíkt. Það hefur verið ásakað fyrir að leyfa mönnum að tala í þessum ríkisfjölmiðli, útvarpi, sjónvarpi, hvaða skoðun svo sem menn höfðu á hinum ýmsu málum. Og ég vil biðja hv. þm. að hugsa sig vel um áður en þeir kveða upp dauðadóm yfir þessu útvarpsráði fyrir það.