17.12.1975
Neðri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil segja nokkur orð í sambandi við þetta frv. og þá einkum í sambandi við frádráttarreglur þess. Það kemur fram í aths. með frv. að hér sé um að ræða samræmingu á eignarskattsálagningu til samræmis við verulegar hækkanir á gangverði fasteigna í landinu almennt, eins og segir í grg., og einnig segir að með þessu sé verið að brúa bil á milli almennrar hækkunar fasteignamats annars vegar og almenns verðlags hins vegar.

Ég er að mörgu leyti sammála því sem síðasti hv. ræðumaður sagði í sambandi við frádráttarreglur, að ef því ákvæði verður ekki breytt í þessu lagafrv., þá muni það koma mjög hart niður á mörgum smáeignarmanninum ef frv. verður samþ. Ef samræmi hefði átt að vera á milli þess, sem þetta frv. gerir ráð fyrir í samræmingu á fasteignamati og eignarskattsálagningu annars vegar og því, hver er staða þeirra sem eiga einhverjar eignir hins vegar, til þess að það sé sambærilegt við það, sem var árið 1970, þá væri réttara og eðlilegra að upphæð til frádráttar hækkaði í allt að 6 millj. kr.

Með tilliti til þessa mun ég greiða atkv. gegn þessu frv., og þar sem ég hef ekki gert till um breyt, eða komið með neina brtt. við frv., þá vildi ég láta afstöðu mína koma hér fram.