18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

89. mál, vörugjald

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Þegar maður kveður sér hljóðs til þess að ræða mikilvægan þátt í fjármálastefnu núv.hæstv. ríkisstj. getur ekki hjá því farið að manni verði hugsað til þess dapurlega íslenska orðtaks að lengi geti vont versnað. Satt að segja var það skoðun margra á dögum fyrrverandi hæstv. ríkisstj. vinstri stjórnarinnar svo kölluðu, að óstjórnin væri orðin svo megn að lengra, dýpra yrði tæplega sokkið á því sviði, stefnuleysið svo algert, ringulreiðin svo fullkomin að erfitt yrði að slá slíkt met. Það hefur sem sagt tekist.

Sannleikurinn í þessum dapurlega íslenska málshætti að lengi geti vont versnað, hefur komið átakanlega fram á valdatíma hæstv. núv. ríkisstj. Hver skýringin er skal ég ósagt láta. Hún gæti verið sú að einn flokkur átti aðild að báðum þessum ríkisstj., Framsfl. Hann var forustuflokkur í vinstri stjórninni og hann er annar stjórnarflokkurinn í þessari ríkisstj. Það gæti verið að það, sem er sameiginlegt af illum einkennum fyrrv. stjórnar og núv. stjórnar, eigi rót sína að rekja til þess að þessi flokkur átti aðild að báðum stjórnunum. Sjálfstfl. gagnrýndi vinstri stjórnina mjög harðlega fyrir stefnuleysi, fyrir ráðleysi, fyrir sukk. En stefnuleysið, ráðleysið og sukkið heldur áfram. Skýringin á þessu kann að vera fólgin í því að Sjálfstfl. í stjórn og Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu séu tvö gjörólík fyrirbæri. Í hverju aðalskýringin er fólgin skal ég sem sagt að þessu sinni láta ósagt.

En hvers vegna segi ég að orðtakið að lengi geti vont versnað hafi hlotið staðfestingu í störfum núv. hæstv. ríkisstj.? Ég skal nefna um það nokkur dæmi. Verðbólgan hefur á þessu ári orðið meiri en nokkru sinni fyrr í sögu íslensku þjóðarinnar og meiri en í nokkru nálægu landi, komist yfir 50% um skeið. Hún hefur að vísu verið minni undanfarna mánuði, 25–30%, en auðvitað enn a. m. k. helmingi meiri en hún má vera ef sæmilega heilbrigt efnahagsástand á að teljast ríkja í landinu.

Í öðru lagi skal ég nefna að við liggur að atvinnurekstur íslendinga sé að stöðvast eða a. m. k. mjög verulegir þættir í íslenskum atvinnurekstri. Heilar atvinnugreinar boða lokun fyrirtækja. Nú síðast kom sú fregn frá fundi samvinnufrystihúsa að frystihúsarekstur samvinnumanna í landinu sé rekinn með stórfelldu tapi og ef ekki verði gagngerar breytingar á rekstraraðstöðu frystiiðnaðar samvinnumanna, þá biði þeirra fyrirtækja ekkert annað en rekstrarstöðvun. Þetta er auðvitað ömurlegt ástand.

Í þriðja lagi skal ég nefna að kjör launþega hafa farið og fara enn stórversnandi og eru allar horfur á að þau muni halda áfram að versna ef ekki verður stefnubreyting. Samningar milli vinnuveitenda og launþega eru lausir, þeim hefur verið sagt upp. Forustumenn launþegasamtakanna hafa boðað mjög hóflega, ábyrga og skynsamlega stefnu í launamálum, — stefnu sem grundvallast á því að ríkisvaldið hafi forustu um vissar stjórnmálaaðgerðir sem síðan geti orðið forsenda þess að launþegasamtökin fylgi hóflegri stefnu í launamálum. En það verður ekki sagt að launþegar hafi verið virtir svars. Fulltrúar launþegasamtakanna hafa átt fáeina fundi, örfáa fundi, annars vegar við vinnuveitendur og hins vegar við ríkisstj., og fá engin svör, bókstaflega engin svör. Það er þagað þunnu hljóði varðandi þá stefnumótun sem kunngjörð hefur verið af hálfu launþegasamtakanna eða forustumanna þeirra. Þær till. um stjórnmálaaðgerðir, sem þar eru fram settar, fá bókstaflega engar undirtektir í herbúðum ríkisstj. Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál.

Í fjórða lagi vil ég nefna að viðskiptahalli á þessu ári, árinu 1975, er áætlaður munu verða hvorki meira né minna en 20 milljarðar kr. og hefur hann aldrei orðið hærri.

Í fimmta lagi vil ég nefna að skuldasöfnun íslendinga erlendis er orðin ógnvekjandi, — beinlínis ógnvekjandi. Síðustu tiltækar tölur um löng lán erlendis og stutt vörukaupalán eru frá 30. sept. s. l. Þá námu löng lán erlendis 65 milljörðum kr. og stutt vörukaupalán 6 milljörðum eða m. ö. o. erlendar skuldir íslendinga voru í septemberlok hvorki meira né minna en 71 milljarður kr. Greiðslubyrðin á þessu ári, þ. e. a. s. sá hluti af erlendum gjaldeyristekjum sem fer til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum lánum, mun nema á þessu ári um 15% en það er fyrirsjáanlegt að á næstu 2–3 árum mun hann vaxa upp í 20%, upp í 1/5. M. ö. o.: það er talið af sérfræðingum að á árunum 1978 og 1979 muni íslendingar verða að nota fimmtu hverja krónu, sem þeir afla sér í erlendum gjaldeyri, til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum. Slíkt hefur aldrei áður gerst í efnahagssögu íslendinga. Greiðslubyrðin hefur aldrei nokkurn tíma í sögunni orðið jafnþung og sérfræðingar nú telja að hún muni verða á árunum 1978–1979. Samt sem áður verður ekki vart neinnar viðleitni til stefnubreytingar hjá hæstv. ríkisstj., ekki einu sinni viðleitni til mótunar neinnar heildarstefnu yfirhöfuð að tala.

Sem dæmi um þetta vil ég nefna, og þar kem ég að sjötta atriðinu í þessari dapurlegu upptalningu, að greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu 1975, á þessu ári, er áætlaður 3.5 milljarðar kr. Raunar er meiri munur á gjöldum og tekjum en þessu nemur. Gjöld ríkissjóðs á árinu 1975 eru talin munu fara fram úr tekjum sem nemur 4–5 milljörðum kr. Hins vegar bætir ríkissjóður greiðslustöðu sína með um 1500 millj. kr. lántöku sem gerir það að verkum að greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu er talinn munu verða 3.5 milljarðar kr., sem er gífurleg fjárhæð.

Í sjöunda og síðasta lagi skal ég svo nefna um óráðsíuna, sem á sér stað, um sukkið og stjórnleysið, sem má segja að einkenni stjórnarfarið, að skuld ríkissjóðs nú við Seðlabankann nemur hvorki meira né minna en tæpum 7 milljörðum kr. Ríkissjóður skuldar sínum eigin banka ríkisbankanum, hvorki meira né minna en tæpa 7 milljarða kr.

Þetta allt saman, þessir sjö liðir, sem ég hef nefnt, bera vott um, sýna, svo að ekki verður á móti mælt, að „stjórn“ landsins er óstjórn, einkennist af óstjórn.

Þá skal ég víkja nokkuð að efni þeirrar till. sem hér er til umr., en vil byrja umsögn mína um till. og þá stefnubreytingu, sem í henni felst frá því sem áður hafði verið boðað, á því að bera saman nokkur grundvallaratriði fjárlagafrv., sem lagt var fram í byrjun þingsins, og það sem nú er gert ráð fyrir að gerist í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. En það mál, sem hér er verið að ræða, er raunverulega einn þáttur fjárlagaafgreiðslunnar.

Stefna ríkisstj. var í byrjun þings m. a. sú að lækka útgjöld á fjárlagafrv. næsta árs mjög verulega. Þar á meðal ráðgerði hún 2000 millj. kr. lækkun á sviði tryggingamála. Þetta var einn meginþátturinn í þeim boðskap sem þingheimi var fluttur í byrjun þings þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Í öðru lagi var gert ráð fyrir að fella niður 12% vörugjaldið. Í þriðja lagi var boðað að niðurgreiðslur skyldu lækka um 1500 millj. kr. Í fjórða lagi var gert ráð fyrir að fella niður tolla á erlendum vörum vegna samningsskuldbindinga okkar við önnur lönd sem næmu um 800 millj. kr. Ég nefni þessa fjóra þætti í þeirri mynd sem hæstv. ríkisstj. kynnti Alþ. í sambandi við framlagningu fjárlagafrv. í októbermánuði s. l.

Hvernig víkur nú í dag málum varðandi þessi sömu grundvallaratriði sem boðuð voru í miðjum okt.? Lækkun útgjaldanna, sem vera átti 2000 millj. kr. á sviði trygginganna, á nú að verða um 1500 millj. kr. En um 1/3 hluti þessarar upphæðar á að greiðast af sjúklingum á sjúkrahúsum landsins eða um 500–600 millj. kr. Um 2/3 hlutar upphæðarinnar eiga að greiðast af sveitarfélögunum á þann hátt að þeim er heimilað að hækka útsvar sitt um 1%. En hvað eru sveitarfélögin? Ekki eru þau neinn sjálfstæður aðili sem hefur eigin sjóði til þess að inna af hendi um 1000 millj. kr. greiðslu. Sveitarfélög eru samfélag íbúanna í sveitarfélaginu, samfélag útsvarsgreiðendanna, þannig að í raun og veru er það, sem hér er að gerast, að útsvarsgreiðendum, hinum almenna borgara, hinum almenna launþega, er ætlað að greiða um 1000 millj. kr. til þess að hægt sé að létta tilsvarandi útgjöldum af ríkissjóði og komast hjá því að meiri byrðar verði lagðar á sjúklinga en þó er gert, þ. e. a. s. 500–600 millj. og engar á gamla fólkið eins og upphaflega var tilætlunin, og ber vissulega að fagna því að því skuli hafa verið hlíft. M. ö. o.: það, sem upphaflega átti að vera 2000 kr. útgjaldalækkun verður nú 1500 kr. útgjaldalækkun sem að er borguð af sjúku fólki og vanheilu á sjúkrahúsum, en að 2/3 af almennum skattborgurum í sveitarfélögum landsins.

Ég nefndi í öðru lagi að boðað hefði verið í miðjum október að 12% vörugjaldið skyldi niður falla. Hér fór fram umræða um daginn um staðfestingu á brbl. um vörugjaldið, 1. umr., fyrir nokkrum dögum. Þá var það enn boðað að tilætlunin væri að fella 12% vörugjaldið niður. Í gær flutti hæstv. fjmrh. till. um að nú skuli vörugjaldinu haldið, að vísu ekki 12% vörugjaldi. heldur 10% í ákveðinn mánaðafjölda og síðan 6%. En engu að síður, ríkissjóður ætlar sér að innheimta á næsta ári 2,2 milljarða kr. með því að halda vörugjaldi sem tekjustofni. Það fyrirheit, sem gefið var í miðjum október, er því beinlínis svikið. Það var sagt við 1. umr. fjárlaganna að lækka ætti niðurgreiðslur um 1500 millj. kr. Nú er tilætlunin að lækka niðurgreiðslur um aðeins 700 millj. kr. Hins vegar er það eina, sem stenst í því sem sagt var í miðjum október varðandi þessa fjóra meginþætti fjárlagaafgreiðslunnar, að haldið er fast við að lækka tollana um 800 millj. kr., eins og boðað var. Það er stefna sem ég er fylgjandi, og þetta er eina atriðið af þessum fjórum grundvallaratriðum sem kunngerð voru í sambandi við framlagningu fjárlaganna í miðjum október sem enn stendur óhaggað. Öllu hinn hefur ýmist verið breytt eða þá að ákveðin fyrirheit, svo sem afnám vörugjaldsins, hafa beinlínis verið svikin.

Í þessu sambandi er líka rétt að minna á að á þessu ári var ætlunin að lækka útgjöld á gildandi fjárlögum mjög verulega. Það var samþykkt undir lok síðasta þings heimildarlöggjöf um lækkun útgjalda samkvæmt fjárlögum. Var þá gert ráð fyrir að útgjöld fjárlaga lækkuðu um 3500 millj. kr.. um 3.5 milljarða. Í júlí skilst manni að þessar lækkunaráætlanir hafi verið komnar niður í 2000 millj. kr. Þá var gerð áætlun um lækkun útgjalda samkvæmt fjárl. þar sem að 1/3 hluta var um opinberar framkvæmdir að ræða, að 1/4 hluta ýmsar aðrar framkvæmdir og afgangurinn voru ýmis rekstrargjöld.

Ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. að hversu miklu leyti þessi júlíáætlun um 2000 millj. kr. minnkun útgjalda hafi verið framkvæmd. Mér leikur sterklega grunur á að þessi áætlun frá því í júlí um lækkun útgjalda ríkissjóðs hafi alls ekki verið framkvæmd eða a. m. k. ekki að öllu leyti og það sé ein skýringin á hinni afar bágu greiðslustöðu ríkissjóðs, það sé ein af skýringunum á þeim 3.5 milljarða kr. greiðsluhalla sem ég var að geta um áðan að viðurkennt er að muni verða á ríkissjóði á þessu ári.

Ég sagði áðan að ríkissjóður hafi skuldað Seðlabankanum 30. nóv. s. l. 6.9 milljarða kr. En þetta segir því miður ekki alla sukksöguna í sambandi við skipti ríkissjóðs og Seðlabankans því að skuldaaukning ríkissjóðs við Seðlabankann á þessu ári, á árinu 1975, er áætlað að nemi hvorki meira né minna en 3.5–4 milljörðum kr., m. ö. o.: af þessari tæplega 7 milljarða skuld, sem var í s. l. nóv., er liðlega helmingurinn nýjar skuldir sem safnað hefur verið á þessu ári. Og þetta gerist á valdatíma ríkisstj. þar sem sjálfstæðismaður gegnir embætti fjmrh. og hafði áður myndarlega gagnrýnt vinstri stjórnina fyrir losaralega fjármálastjórn og sukksöm viðskipti ríkissjóðs við Seðlabankann, en svo gerist það á valdatíma þessarar hæstv. ríkisstj., þegar sjálfstæðismaður gegnir embætti fjmrh., að óreiðuskuldaaukning í Seðlabankanum verður hvorki meiri né minni en 3.5–4 milljarðar kr. Þessi óreiðuskuldaaukning í Seðlabankanum gerir það að verkum skv. upplýsingum, sem fram hafa komið hér í hv. deild, að nauðsynlegt er að ríkissjóður greiði Seðlabankanum 900 millj. kr. á næsta ári í vexti og afborganir af skuldaaukningunni í ár, og það er ein af skýringunum sem gefnar eru á nauðsyn þess að framlengja vörugjaldið og afla ríkissjóði 2.2 milljarða tekna. M. ö. o.: næstum helmingurinn af þeim tekjum, sem ríkisstj. rukkar okkur nú um allt í einu á síðustu dögum þingsins og segir að vanti á árinu 1975, — næstum helmingurinn er nauðsynlegur vegna þess að ríkissjóður hefur á árinu 1975 verið að safna óreiðuskuldum í Seðlabankanum, 3.5–4 milljörðum kr. Það er sannarlega til nokkuð mikils mælst að stjórnarandstaðan leggi blessun sína yfir slíka ráðsmennsku.

Ég gat þess áðan að afkoma ríkissjóðs á þessu ári væri mjög slæm, að greiðsluhallinn mundi verða um 3.5 milljarðar kr. Þetta ber sannarlega ekki vott um að fjármálum ríkisins hafi verið stjórnað af aðhaldssemi eða myndarskap. Ég skal ekki gera það mál að ítarlegu umræðuefni í þessu sambandi. Þó vil ég aðeins láta getið dæmis um það hversu illa Sjálfstfl. hefur tekist að standa við gagnrýnisorð sín meðan hann var í stjórnarandstöðu. Bók var okkur send hér í okt. 1915 er heitir „Stjórnir, nefndir og ráð ríkisins árið 1974“, en það var fyrsta stjórnarár hæstv. núv. ríkisstj. Í þessari bók segir, með leyfi hæstv. forseta, í fyrstu töflu að heildarfjöldi nefnda 1974 hafi verið 466 og í þessum 466 nefndum voru hvorki meira né minna en 2292 nm. Ég sé ekki betur en að nefndafarganið hafi aldrei blómstrað jafnstórkostlega og á árinu 1974. Nefndaþóknunin var hvorki meira né minna en 80.3 millj. kr. og annar kostnaður 82.3 millj. kr., svo að heildarnefndakostnaður á árinu 1974 varð 162.6 millj. kr. Þetta er áreiðanlega met í nefndakostnaði í sögu íslenska stjórnkerfisins.

Sem dæmi um það í hverju svona nefndarstörf geta verið fólgin tók ég með í pontuna þessa bók sem liggur á borðum allra hv. þm. og heitir „Flutningur ríkisstofnana, nefndarálit 1975.“ Formaður þessarar nefndar var Ólafur Ragnar Grímsson prófessor og varaþm. SF. Segir í bréfi n. til forsrh.till., sem í þessari myndarlegu bók felist, feli í sér að flytja skuli 25 stofnanir af höfuðborgarsvæðinu og út um hinar dreifðu byggðir landsins, þar séu gerðar till. um deildaflutning sem snerti 12 stofnanir, stofnun útibúa frá 36 stofnunum og eflingu útibúa 11 stofnana. Það er 7 manna nefnd, sem þessa myndarlegu bók hefur samið. Nú hefði mér leikið forvitni á að fá um það upplýsingar hvað störf þessarar nefndar hafi raunverulega kostað, hvað sú tillögugerð, sem á þessum blöðum stendur, hefur kostað hið opinbera. Ég veit ég get ekki ætlast til þess að hæstv. fjmrh. svari þessu á stundinni, en ég þykist vita, geng út frá því sem vísu að hann muni taka til máls við 3. umr. fjárl. á morgun, og þá væri mér þökk á því að hann gæti þá skotið inn í einhverja af ræðum sínum upplýsingum til þings og þjóðar um það t. d. hvað störf þessarar nefndar kostuðu í heild, hvað íslenskir skattborgarar hafi verið látnir greiða mikið fyrir að fá till. um það sem í þessu plaggi felst.

Sem dæmi um stjórnleysið, sem einkennt hefur stjórnarfarið undanfarið ár, skal ég leyfa mér að nefna annað alveg nýtt dæmi af verksviði annars ráðh., af verksviði hæstv. viðskrh., en þar er um að ræða eitt hið furðulegasta mál sem hlýtur að vekja mikla athygli á næstu dögum og vikum. Svo er mál með vexti að árið 1971 var söluskattur af olíu til húsahitunar afnuminn með lögum, en söluskattur hélst hins vegar og helst á olíu til fiskiskipa. Ríkisstj. ákvað þá, sem út af fyrir sig var skynsamlegt, að ekki skuli vera munur á verði gasolíu til fiskiskipa og til húsahitunar, enda býður það upp á ýmiss konar misnotkun og misferli. En 30. júlí 1971 er í framhaldi af þessu samþ. í verðlagsnefnd að greiða söluskatt af olíu til fiskiskipa úr innflutningsjöfnunarreikningi olíuvara í tvo mánuði, meðan athugaðar séu leiðir til þess að tryggja til frambúðar sama verð á olíu til fiskiskipa og húsahitunar. Menn taki eftir því, að í samþykkt verðlagsnefndar stóð að meðan verið væri að athuga leið til að tryggja til frambúðar sama verð á olíu til fiskiskipa og húsahitunar skyldi Olíuverðjöfnunarsjóður lána söluskatt þann sem greiða átti af olíu til fiskiskipa, en lána hann aðeins í tvo mánuði meðan málið væri athugað nánar og aðrar eðlilegar leiðir væru fundnar til þess að greiða þennan söluskatt því að sjálfsögðu var þetta og er þetta ekki í þeirra verkahring, m. a. s. vafasamt að það hafi verið heimilt skv. þeim reglum, sem gilda um Verðjöfnunarsjóð, að nota hann í þessu skyni. Hér var um bráðabirgðalán úr sjóðnum að ræða í tvo mánuði og auðvitað gert ráð fyrir að þetta lán yrði endurgreitt. í raun og veru eru það neytendur sem eiga Verðjöfnunarsjóð. Hann má nota til þess að lækka verð á olíu ef inneign í honum verður mjög veruleg. Það getur komið fyrir að nauðsyn sé að hann verði neikvæður, að hann skuldi nokkuð, ef lækkun verður á olíu sem ekki er búist við að verði varanleg. En kjarni málsins er sá, að Olíuverðjöfnunarsjóður er einn þeirra sem kaupa og nota olíu í landinu, og ef hann er jákvæður, þá er það eign fyrir neytendurna, en ef hann er neikvæður, þá verður nauðsynlegt að jafna þann halla með því að hækka olíuverðið til neytendanna siðar. En þetta lán úr Verðjöfnunarsjóði stóð ekki bara í tvo mánuði. Það stendur enn til dagsins í dag, til þessarar stundar. Verðjöfnunarsjóður hefur verið látinn halda áfram að lána söluskattinn af olíu til fiskiskipa til þessa dags. Þetta ber auðvitað vott um svo fáheyrt stjórnleysi af hálfu þeirra, sem ábyrgð bera á Verðjöfnunarsjóði olíuviðskipta, að engu tali tekur. Einnig má segja að þetta beri líka vott um fáheyrt sinnuleysi verðlagsstjóra eða verðlagsyfirvalda, að hafa ekki athugað að samþykkt verðlagsnefndar gilti aðeins um tveggja mánaða lán, en átti ekki að gilda til ársloka 1975 eins og nú hefur komið á daginn að raun hefur orðið á.

En þetta lán úr sjóðnum veldur því að staða hans er nú orðin neikvæð, að sjóðurinn skuldar nú um 450–460 millj. kr. M. ö. o.: það eru teknar af þeim, sem nota olíu á undanförnum árum, 450–460 millj. kr. sem ella hefði verið hægt að nota til þess að hafa olíuverð lægra en raun ber vitni um að hafi verið á undanförnum árum.

Þessa skuld verður ríkissjóður auðvitað með einhverjum hætti að endurgreiða Olíuverðjöfnunarsjóðnum. En þetta mál ber þannig að, að fyrir fáeinum dögum ber núv. verðlagsstjóri fram till. um það í verðlagsnefnd að lánsheimildarsamþykkt frá 30. júlí 1971 skuli felld úr gildi. Þá kemur í ljós að verðlagsnefndarmenn líta þannig á að hún hafi verið fallin úr gildi tveimur mánuðum eftir að hún var gerð, því að það stendur skýrum stöfum í samþykktinni að hún sé gerð til tveggja mánaða. Það segir í samþykktinni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeim mismun“ — þ. e. söluskatti sem felldur er niður af olíu til fiskiskipa með þessari till. — „verði mætt með því að ganga á inneign“ — sem þá var á innflutningsverðjöfnunarreikningi olíuvara — „næstu 2 mánuði.“

Þetta var samþykkt: „næstu 2 mánuði“ á meðan athugaðar eru nánar leiðir til þess að tryggja til frambúðar sama verð á gasolíu til fiskiskipa og til húsahitunar. Þessir tveir mánuðir hafa orðið að fjórum árum sökum eftirlitsleysis, sökum stjórnleysis. Hér er auðvitað um hneyksli að ræða.

Vörugjaldið, sem ríkisstj. lagði á með brbl. á s. l. ári og kallað var 12%, þýðir auðvitað ekki það að verðlag hækki um 12% af þeim sökum, eins og margoft hefur verið bent á í opinberum umr. áður. Það þýðir um 15–20% verðhækkun vegna þess að vörugjaldið er álagningarstofn. M. ö. o.: vegna vörugjaldsins fær ríkissjóður auknar söluskattstekjur sem á þessu ári munu hafa numið einhvers staðar á milli 250–300 millj. kr., og ýmis atvinnurekstur, sem notar álagningu sem tekjulind, fær auknar tekjur vegna vörugjaldsins. Hafa sérfróðir menn áætlað að atvinnureksturinn í landinu hafi fengið vegna 12% vörugjaldsins 300–400 millj. kr. í tekjuaukningu, þ. e. a. s. neytendur greiða ekki aðeins vörugjaldið sjálft til ríkisins, þeir greiða einnig aukinn söluskatt til ríkisins á þessu ári, 150–300 millj. kr., og þeir greiða í aukna álagningu til ýmis konar fyrirtækja og atvinnurekenda sem nemur 300–100 millj., þannig að byrðar almennings vegna vörugjaldsins eru miklu meiri en menn kynnu að halda þegar talað er um 12% vörugjald.

Ég spurði um það á nefndarfundi í gær hvort nokkur áætlun hefði verið gerð um það vörugjald, sem nú er gert ráð fyrir að lögfest verði á árinu 1976, hve miklar aukatekjur það mundi færa ríkissjóði vegna söluskatts eða hversu miklar aukatekjur það mundi færa fyrirtækjum vegna álagningar, en fékk það svar að engin tilraun hefði verið gerð til að áætla það með nokkurri nákvæmni.

Þegar allt þetta er haft í huga hlýtur að vera niðurstaða mín — og það er afstaða okkar þm. Alþfl. — að við getum ekki samþ. þetta frv. og munum greiða atkv. gegn því. Við getum ekki tekið þátt í því á síðustu dögum þingsins að færa ríkissjóði 2.2 milljarða kr. í tekjuauka, teknar á þennan hátt, þegar það kemur við nánari athugun í ljós að næstum helmingur tekjuþarfarinnar á rót sína að rekja til óreiðuviðskipta ríkissjóðs við Seðlabankann og að hinn helmingurinn á, eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, eingöngu rót sína að rekja til gjalda sem ríkisstj. átti að vera kunnugt um sum allt árið, a. m. k. um flest þeirra síðan á miðju ári. Samt eru þau ekki uppgötvuð, koma ekki upp á yfirborðið fyrr en á allra síðustu dögum þingsins. Þá er fleygt fram brtt. við frv. sem á að tryggja ríkissjóði tekjur til þess að mæta gjöldum sem vitað hefur verið um í marga mánuði og jafnvel árið allt, til viðbótar því að auðvitað átti ríkisstj. líka að vita hvaða afleiðingar það hefði að eiga slík óreiðuviðskipti við Seðlabankann sem raun hefur borið vitni. Því hefði hún átt að geta gert sér grein fyrir þegar hún lagði fjárl. fram.

Þetta mál er sem sagt allt þannig til komið og allt þess eðlis að við þm. Alþfl. munum greiða atkv. gegn þessari brtt., gegn innheimtu vörugjaldsins áfram á árinu 1976.