19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, 14. gr., segir að ef sveitarfélag kemst í vanskil með greiðslur vegna veittra ríkisábyrgða sé rn. heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi af framlagi til sveitarfélagsins eftir því sem til vinnst. — Það er fyrst og fremst eftir kröfum Ríkisábyrgðasjóðs sem slíkt hefur átt sér stað.

Hv. 2. þm. Austurl. beindi þeirri fsp. til mín, hvort þessu lagaákvæði mundi verða beitt varðandi viðbótarframlagið sem nú á að koma til sveitarfélaganna. Ég er alveg sammála hv. þm. um að þar sem þessar viðbótartekjur eru til þess ætlaðar að standa undir sérstökum verkefnum eða kostnaði við þau, sem nú flytjast frá ríkinu til sveitarfélaganna, sé ekki réttmætt að beita þessari heimild gagnvart þeim. Ég vil í tilefni af fsp. hans lýsa því yfir að það verður ekki gert. Greiðslur til sveitarfélaganna af þessu viðbótarframlagi verða ekki skertar af þessum ástæðum.

Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf. nokkur uggur um að sum sveitarfélög gætu borið skarðan hlut frá borði og orðið illa úti vegna þessara breytinga. Ljóst er að slíkt getur komið fyrir þar sem þessar tekjur Jöfnunarsjóðs eiga að skiptast milli sveitarfélaganna eftir hinni almennu reglu í lögum um Jöfnunarsjóð, þ. e. a. s. eftir íbúatölu, hins vegar eru sveitarfélögin e. t. v. misjafnlega á vegi stödd varðandi sum þeirra verkefna sem yfir eiga að færast. Nú er það þannig, að í tekjustofnalögunum er ákvæði um það í 15. gr., að úr Jöfnunarsjóði megi greiða aukaframlag til sveitarfélaga sem skortir tekjur til greiðslu lögboðinna gjalda eða til óhjákvæmilegra útgjalda. Í þessu skyni má verja á hverju ári allt að 5% af heildartekjum sjóðsins auk vaxtatekna. Þessi heimild hefur verið notuð í allmörgum tilvikum en þó yfirleitt ekki nándar nærri náð þessu hámarki. Ég geri ráð fyrir að þessi heimild til aukaframlaga muni á þessu ári nema rúmlega 100 millj. kr. og verði á næsta ári töluvert hærri. Ef það kemur fram að einstök sveitarfélög komi til með að bíða fjárhagslegt tjón af ákvæðum þessara lagabreytinga, þá tel ég sjálfsagt að þeim verði veitt aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að bæta þeim upp þetta tap og þá að fengnum tillögum stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.