19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Nál. minni hl. heilbr.- og trn. er svo hljóðandi :

„Nefndin hefur rætt frv. á einum stuttum fundi og enginn tími hefur því gefist til nákvæmrar skoðunar á málinu. Meginstefna frv. er þó ljós. Það er hækkun lyfja og sérfræðiþjónustu og ný skattlagning, sem farið er inn á eftir krókaleiðum. Hvorri tveggja þessara leiða erum við andvíg og leggjum því til að frv. verði fellt.“

Undir þetta rita minnihlutamenn, Vilborg Harðardóttir og Karvel Pálmason.

Það er óhætt að segja að þetta frv. hafi litla eða nánast enga umfjöllun fengið í n. utan þess sem fram kom á sameiginlegum fundi n. Ed. og Nd. áður en frv. hafði verið lagt fyrir Nd. Ekki hefur heldur neitt það komið fram við 1. umr. af hálfu þess, sem fyrir frv. mælti sem breytt gæti skoðunum þeirra sem eru frv. andvígir. Þar sem svo stutt er síðan 1. umr. fór fram, þ. e. a. s fyrr í kvöld, að hún hlýtur enn að vera hv. þm. í fersku minni ætla ég ekki að flytja langt mál við þessa umr.

Frv. er lagt fram til að uppfylla yfirlýsingarnar í fjárlagafrv. um niðurskurð almannatrygginga og svokallaðan sparnað á því sviði. Það, sem ætlunin er einkum að spara á, er fólk sem sérstaklega þarf á sérfræðiþjónustu að halda eða notar mikið af lyfjum að læknisráði án þess þó að um ævisjúkdóma sé að ræða, þ. e. a. s. fyrst og fremst sjúklingar, öryrkjar og gamalmenni. Eins og ég leyfði mér að benda á við 1. umr. er þó hér um að ræða vægast sagt hæpna sparnaðarleið, þar sem fyrirsjáanleg afleiðing er að það fólk, sem ekki getur staðið undir hækkuðum lyfjakostnaði, mun sækja um aðstoð, annaðhvort til félagsmálastofnana síns sveitarfélags eða — ef um öryrkja eða ellilífeyrisþega er að ræða — um uppbót á tekjutryggingu eða aukastyrk. Framkvæmdin verður því væntanlega að talsverðu leyti bókfærsla og tilfærsla á peningum — sem betur fer fyrir þennan hóp, liggur mér við að segja — því að ég vona, ef frv. verður að lögum óbreytt, að fólk fari fremur þá leið, þótt oft sé þungt fyrir marga að sækja um uppbót, heldur en að láta sig vanta nauðsynleg lyf eða svelta þeirra vegna.

Svo gróf sem hún er, aðförin að sjúklingunum, er það þó ekki meginefni þessa makalausa frv., heldur enn stærri aðför að launafólki almennt. Þessi aðför er í mynd nýs skattlagningarforms til þess að svo líti út sem umsvif ríkisins fari minnkandi. Til að velta óvinsældum af sér yfir á sveitarfélögin á nú að gera þau að eins konar innheimtustofnun fyrir ríkið, og innheimtan, sem þau eiga að inna af hendi, nemur hvorki meira né minna en nær 12 milljörðum kr. eftir því sem næst verður komist. A. m. k. hlýtur maður að halda sig við þá tölu meðan ótilgreindar eru — þrátt fyrir áskoranir og fsp. um það — tölur um sparnað vegna aukins eftirlits og aðhalds og nýrra starfshátta og einnig óútskýrt hvernig slíkt á að fara fram. Við fyrri umr. vitnaði ég í ummæli framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnúsar Guðjónssonar, á fyrrnefndum sameiginlegum fundi heilbrn. Ed. og Nd. um að frv. væri eins og köld gusa framan í stjórn sambandsins, enda aldrei samráð við hana haft um þessar auknu álögur. Nú hefur heilbr.- og trn. Nd. borist bréf frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. í gær, 18. des., þar sem staðfest eru orð framkvæmdastjórans með svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga lýsir undrun sinni yfir fram komnu frv. um breytingu á almannatryggingalögum um skyldu sveitarfélaga til álagningar og innheimtu viðbótarútsvars til að standa undir auknum kostnaði við sjúkratryggingar. Mótmælir stjórn sambandsins því harðlega að auknum kostnaði við sjúkratryggingar sé þannig velt yfir á sveitarfélögin til viðbótar þeim 10% af kostnaði sjúkratrygginganna sem sveitarfélögin hafa greitt. Vill stjórn sambandsins vekja athygli á því, að þetta ákvæði gengur í berhögg við þær tillögur sem komið hafa fram um endurskoðun verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, en í samræmi við þær hafa sveitarfélögin lagt til að ríkið yfirtaki allan kostnað við sjúkratryggingar. Þá tillögu hefur fulltrúaráð og stjórn sambandsins ítrekað sérstaklega við stjórnvöld undanfarið.

Stjórn sambandsins vill enn fremur benda á að sveitarfélögin hafa engin bein afskipti, hvorki af stjórn né framkvæmd sjúkratrygginga, en ríkisvaldið ræður mestu um kostnað þeirra með lagasetningu, stjórnvaldsákvörðun og aðild að kjarasamningum. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í nágrannalöndum okkar ber ríkið allan kostnað af lífeyris- og sjúkratryggingum. Telji ríkisvaldið þörf aukinna tekna vegna sjúkratrygginga virðist eðlilegast að ríkið noti til þess sína eigin tekjustofna og sína eigin innheimtumenn.“

Þetta er undirritað af framkvæmdastjóra sambandsins.

Innheimtan, sem sveitarfélögunum er falin, á að fara þannig fram að lagt sé 1% ofan á áætlaðan gjaldstofn útsvara. Með því að velja þessa leið brúttóskattsins eru atvinnurekendur undanþegnir þessum álögum um leið og þær leggjast af auknum þunga á almenna útsvarsgreiðendur og ná auk þess til lægri tekna en annars hefði verið.

Minni hl. heilbr.- og trn., Karvel Pálmason og Vilborg Harðardóttir, lýsir sig andvígan bæði lyfja- og sérfræðiþjónustuhækkuninni og því skattlagningarformi sem reynt er að dulklæða með hundakúnstum, eins og einn hv. þm. komst að orði við 1. umr.

En þar sem við teljum hættu á að hv. þm. stjórnarliðsins láti hafa sig til að samþykkja þetta frv. þrátt fyrir andstöðu höfum við ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni og Svövu Jakobsdóttur lagt fram brtt. sem miðar að því að létta þó a. m. k. byrðunum af þeim sem erfiðast eiga, öryrkjum og ellilífeyrisþegum, og leggjum til að þeir skuli undanþegnir þeim greiðslum sem gert er ráð fyrir í tölul. 1, 2 og 3. í 1. gr. frv. Slík ráðstöfun kæmi ekki aðeins þeim til góða, heldur kæmi og í veg fyrir þau útgjöld sem aukin uppbótarþörf vegna lyfjakostnaðarins kallar á.