19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

105. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið í sambandi við söluskattinn og nánast miklu fremur varðandi það mál sem við afgreiddum hér í gær, þá vil ég aðeins geta þess varðandi þetta atriði, sem þá bar ekkert á góma, að í mínum huga hefur aldrei verið annað en sá háttur hlyti að ríkja í þessu máli eins og hæstv. fjmrh. hefur hér tekið fram. Ef hér hefði ekki verið gerð nein breyting á, þá sætu sveitarfélögin uppi með það að fá fjárveitingar varðandi þau verkefni sem gerð eru upp árið eftir. Það má segja að það geti verið um misjafnt fyrirkomulag að ræða í því efni. Sumir þættir eru kannske gerðir upp mánaðarlega, aðrir ársfjórðungslega eða svo, og í þriðja lagi er um að ræða þætti sem ekki eru gerðir upp fyrr en árið eftir og þá með fjárframlagi á fjárl. ríkissjóðs árið eftir að framkvæmdin átti sér stað. Ef hér hefði ekki orðið neinn verkefnatilflutningur hefðu sveitarsjóðirnir á árinu 1976 ekki aðrar tekjur frá ríkinu til að mæta þessu með heldur en það sem þau áttu inni lögum samkv. vegna þess sem þau framkvæmdu á árinu 1975 og þá venjulega um 50% kostnaðarskiptingu að ræða, síðan hefðu þau orðið að fjármagna allar þær framkvæmdir og rekstur á árinu 1976 af þessum tekjum, sem þau fengju vegna framkvæmda 1975, til viðbótar fjárframlagi úr eigin sjóði. Árið 1976 er ekki aðeins um það að ræða að þau fái það, sem þeim ber lögum samkv. vegna þess, sem þau hafa lagt fram árið 1975, heldur hærri upphæð samkv. þeirri lagabreytingu sem gerð hefur verið. Auðvitað verða þau að fjármagna mismuninn á þeirri framkvæmdaákvörðun sinni á árinu 1976 með eigin fjármagni. Það er skoðun mín að varðandi þetta atriði sé heldur um hagnað að ræða fyrir sveitarfélögin og í árslok 1976 verði greiðslustaða þeirra betri en ella hefði orðið.