19.12.1975
Neðri deild: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál hefur að vonum verið mjög rætt um hvernig bæta skuli upp þeim sveitarfélögum sem kunna að verða fyrir tjóni af ákvæðum þessa frv. Þó að svo sé í heild, að að sveitarfélögin fái að mati kunnugra manna eins miklar eða meiri tekjur í sinn hlut en nemur þeim útgjöldum sem þau taka á sig, þá getur alltaf farið svo um einstök sveitarfélög að þar verði útgjaldaaukinn meiri en tekjuaukinn. Ég hef lýst því yfir í þessum umr., að verði sveitarfélag fyrir slíku tjóni, þá muni það fá það bætt með aukaframlagi úr Jöfnunarsjóði að fengnum till. stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

Í 15. gr. tekjustofnalaganna er svo ákveðið, að greiða megi aukaframlag til sveitarfélaga sem að dómi félmrn. skortir tekjur til greiðslu lögboðinna gjalda eða óhjákvæmilegra útgjalda. Er það þessi heimild sem hugsað er að nota í þessu sambandi. En í þessari 15. gr. gildandi laga, nr. 8 frá 1972, er það skilyrði sett fyrir slíku aukaframlagi að sveitarfélag hafi lagt á fullt útsvar skv. 25. gr. laganna, þ. e. a. s. notfært sér heimild til að leggja á 10% útsvar. Nú má vel vera, eins og hér hefur komið fram, að sveitarfélag, sem verður fyrir halla af ákvæðum þessa frv., hafi af ýmsum ástæðum ekki lagt á 10% útsvar, og kom það m. a. fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. É g vil taka fram að gefnu tilefni að þessi ákvæði eru í endurskoðun. Ef í ljós kemur að eitthvert sveitarfélag, sem orðið hefur fyrir tjóni af þessari verkefna- og tilkostnaðaryfirfærslu, hafi ekki lagt á 10% útsvar og geti því samkvæmt núgildandi ákvæði ekki fengið aukaframlag, þá mun ég beita mér fyrir lagabreytingu til þess að slíkt verði heimilt.