19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

1. mál, fjárlög 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Við 1. umr. fjárlagafrv. gat ég þess að við undirbúning frv. að þessu sinni hefði verið að því stefnt að lánsfjáráætlun fyrir næsta ár yrði lögð fram meðan fjárlagafrv. væri til meðferðar á Alþ. Gerð þessarar áætlunar er byggð á þeirri ákvörðun ríkisstj. að fjmrn. hafi frumkvæði að samráði opinberra stofnana á sviði fjármála, peningamála og lánamála svo og efnahagsmála til þess að undirbúa árlegar lánsfjáráætlanir, þ. e. heildaryfirlit yfir þróun lánamarkaðarins innanlands og heildarlántökur erlendis. Lánsfjáráætlun þessi skal lögð fyrir ríkisstj. og Alþ. fyrir lok fjárlagaafgreiðslu ár hvert, þannig að yfirsýn fáist með skipulegum hætti yfir alla lánastarfsemi í landinu á sama tíma og fjárlagaákvarðanir eru teknar.

Til þessa samráðs voru kvaddir eftirtaldir aðilar auk stofnana fjmrn. Seðlabanki Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, Samband ísl. viðskiptabanka, félmrn., Húsnæðismálastofnun, Þjóðhagsstofnun og viðskrn.

Í þessum stofnunum hefur að undanförnu verið unnið að þessari áætlunargerð, og hefur skýrsla ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1976 nú verið lögð fram á Alþ. eins og að var stefnt. Játað skal að skýrsla þessi kemur heldur seint fyrir sjónir Alþ., enda er þetta í fyrsta sinn sem þetta verk er unnið í heild og hefur því e. t. v. reynst tímafrekara en ætlað var. Hins vegar tel ég mikilsvert framfaraspor að kynna á Alþ. heildaryfirlit yfir lánamálin. Að sjálfsögðu verður reynt að bæta þetta verk enn og flýta því á næsta ári. Að því er hér lagður grunnur.

Áætlanagerð þessi á rætur að rekja til ársins 1963, en allt frá því ári hafa á vegum fjmrn. verið samdar árlegar framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir vegna þeirra ríkisframkvæmda sem fjármagnaðar eru með lánsfé. Áætlanirnar náðu þó eingöngu til lánsfjáröflunar til helstu opinberra framkvæmda, en ekki til annarrar lánastarfsemi þótt um lánamál fjárfestingarlánasjóða væri fjallað í skýrslum þessum. Skýrslur um þessa áætlun voru lagðar fram sérstaklega og yfirleitt ekki fyrr en nokkrir mánuðir voru liðnir af árinu sem um var fjallað hverju sinni. Þessi tímasetning var tvímælalaust veila í þessari aðferð, því þegar svo langt var á árið liðið var stundum svo komið að ýmis mál höfðu ráðist á annan veg en æskilegast hefði verið talið og varð e. t. v. ekki um þokað. Á þessari tímasetningu varð nokkur breyting haustið 1973, er framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1974 var sameinuð fjárlögum.

Lánsfjáráætlun 1976 er fyrsta heildaráætlunin um lánsfjármarkaðinn sem gerð er hér á landi. Í skýrslunni er fyrst fjallað um efnahagsmarkmið ríkisstj. og efnahagsforsendur áætlunarinnar og meginniðurstöður lánsfjáráætlunarinnar fyrir lánamarkaðinn í heild og hvað varðar banka, fjárfestingarlánasjóði og lífeyrissjóði og erlend lán. Seðlabankinn hefur unnið mikið starf við undirbúning þessa verks. Þá er gerð grein fyrir áætlun ríkisstj. um opinberar framkvæmdir sem fjár er aflað til með lánum. Loks er fjallað um fjármunamyndunarspá fyrir árið 1976. Niðurstöður eru sýndar ítarlega í töflum. Í heild gefur skýrslan yfirlit yfir uppruna og ráðstöfun lánsfjár 1976 og skiptingu þess eftir lántakendum.

Meginforsendur lánsfjáráætlunar þessarar eru núverandi staða og horfur í efnahagsmálum og helstu stefnumið ríkisstj. í efnahagsmálum fyrir næsta ár. Er áætlun þessi m. a. reist á mati Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans á efnahagshorfum um þessar mundir. Við þær horfur, sem nú virðast fram undan, hefur ríkisstj. lýst því meginmarkmiði sínu í stjórn efnahagsmála næstu missiri að minnka verðbólgu, að minnka verulega viðskiptahallann við útlönd og að draga mikið úr verðbólguhraðanum jafnframt því sem full atvinna sé tryggð. Telur ríkisstj. að stefna beri að því, að á árinu 1976 verði hallinn í viðskiptum við útlönd ekki meiri en svarar til 6–7% af vergri þjóðarframleiðslu eftir tæplega 12% halla árin 1974 og 1975. Þetta yrði að teljast viðunandi bati, en hann svarar til þess að viðskiptahallinn 1976, reiknaður á meðalgengi ársins 1975, batni um 7 milljarða kr. Jafnframt þarf að stefna að því að bæta gjaldeyrisstöðuna.

Síðari hluta ársins 1915 hefur mjög dregið úr hækkun verðlags frá því sem var á árinu 1974 og fram eftir árinu 1975. Í árslok 1975 er talið að verðlag verði um 11–12% hærra en að meðaltali 1975, og á grundvelli upplýsinga um verðhækkanir fram undan er gert ráð fyrir að á fyrsta ársfjórðungi 1916 verði verðlag um 12–15% hærra en að ársmeðaltali 1975. Til þess að viðunandi árangur náist telur ríkisstj. nauðsynlegt að stefna að því að verðbreytingar frá upphafi til loka ársins 1976 verði ekki meiri en 12–15%, samanborið við 35–40% 1975 og 52–57% verðhækkun frá upphafi til loka árs 1974. Þetta felur í sér um 24–25% meðalhækkun neysluvöruverðs og um 20–22% meðalhækkun byggingarkostnaðar 1976.

Til þess að þessum markmiðum verði náð er sýnt að stefna þarf að 3–4% minnkun þjóðarútgjalda 1976 að raunverulegu verðgildi. Er þá reiknað með að einkaneysla og samneysla 1976 haldist óbreytt frá árinu 1975, en þetta mat á þróun samneysluútgjalda er m. a. reist á útgjaldatillögum fjárlagafrv. Skv. þjóðhagsspánni félli því samdráttur þjóðarútgjalda allur á fjármunamyndun sem drægist saman um 9–10% á forsendum spárinnar. Þó er búist við nálægt þriðjungsaukningu framkvæmda við stórframkvæmdir, þ. e. við Sigöldu- og Kröfluvirkjanir og járnblendiverksmiðju að Grundartanga samantaldar, en á árinu 1976 eru samtímis í gangi miklar raforkuframkvæmdir víða um land. Þó mun leitast við að dreifa þessum framkvæmdum yfir svo langan tíma sem fært þykir með tilliti til orkueftirspurnar. Innflutningur skipa og flugvéla 1916 er talinn munu dragast saman um 2/3 frá árinu 1975 og fjármunamyndun önnur en í sérstökum framkvæmdum og skipum og flugvélum er talin minnka um 7% á næsta ári. Fjármunamyndun á vegum atvinnuveganna er í heild talin dragast saman um 14% frá 1975, einkum vegna minni skipakaupa og minni innflutnings flutningatækja en í ár, en reiknað er með samdrætti í hverri grein atvinnuvegafjárfestingar að járnblendiverksmiðjunni undanskilinni. Þá er reiknað með 8% samdrætti íbúðabygginga 1976. Opinber fjárfesting er loks talin munu dragast saman um 5% á árinu 1976.

Þessar spár um fjármunamyndun eru, eftir því sem föng eru á, samræmd fjárveitingatill. fjárlagafrv. og lánsfjáráætluninni. Af þeim till. og ákvörðunum um framkvæmdir, sem þar koma fram, fæst sú niðurstaða að hreinar ríkisframkvæmdir dragist saman um 7% á árinu 1976 og svipuðu máli gegnir um sameiginlegar framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga. Af hreinum ríkisframkvæmdum er reiknað með að raforkuframkvæmdir verði um 6% minni í magni 1976 en í ár, en verði þó eins og á þessu ári um 2/3 heimildarframkvæmda ríkisins sjálfs. Er þá gert ráð fyrir rúmlega þriðjungs minnkun framkvæmda í Sigöldu, en talsvert meira en tvöföldun umsvifa við Kröfluvirkjun. Hreinar framkvæmdir sveitarfélaga eru loks taldar munu aukast á næsta ári, e. t. v. um 5%, einkum vegna hitaveituframkvæmda sem forgangs njóta.

Að gefnum markmiðum ríkisstj. og horfunum fram undan í efnahagsmálum er ljóst að lánsfjárframboð verður að takmarka við nauðsynlegustu framkvæmdir og brýnustu rekstrarfjárþörf atvinnuveganna og að draga verður úr lánveitingum sem hvetja til innflutnings eða umframeftirspurnar, eftir því sem við verður komið. Sérstaklega er nauðsynlegt að draga úr peningaútstreymi úr Seðlabankanum og lántökum erlendis, því að framboð lánsfjár verður að byggjast á innlendum sparnaði í ríkari mæli en verið hefur. Í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir að hreint lánsfjárframboð, þ. e. veitt ný lán að frádregnum afborgunum, verði um 16.5% minna 1976 en í ár, eða tæplega þriðjungi minna að raungildi en var á þessu ári, samanborið við 14–15% lækkun í ár. Samdráttur hreins lánsfjárframboðs 1976 kemur allur fram í minni lánum til opinberra aðila, þar sem ætlað er að skuldir ríkisins aukist um 7 milljarða og 600 millj. kr. miðað við 12 milljarða aukningu árið 1975. Lánsfjáráætlunin felur þannig í sér að sparnaður ríkisins árið 1916 tvöfaldast frá árinu 1975, og er það í samræmi við þá stefnu að afgr. fjárlög ársins 1976 án greiðsluhalla, þegar tekið hefur verið tillit til afborgana af lánum vegna greiðsluhalla fyrri ára.

Lán til íbúðabygginga að frádregnum afborgunum eldri lána aukast um 16.5% skv. áætluninni, en nettólánveitingar atvinnufyrirtækja dragast lítillega saman frá yfirstandandi ári, enda er nú áætlað að fjárfesting atvinnufyrirtækja, einkum í skipum, vélum og tækjum hvers konar, verði mun minni á næsta ári en verið hefur nú um skeið.

Í skýrslu ríkisstj. er fjallað sérstaklega um niðurstöður áætlunarinnar varðandi bankakerfið, fjárfestingarlánasjóði, erlendar lántökur, lánsfjármagnaðar opinberar framkvæmdir og fjármunamyndun og fjáröflun, og mun ég ekki rekja það hér. Þó má geta þess, að í áætlun bankakerfisins er stefnt að bættri gjaldeyrisstöðu með mjög aðhaldsamri stefnu í peningamálum, einkum að því er varðar viðskipti ríkissjóðs við Seðlabankann. Jafnframt er að því stefnt, að lausafjárstaða innlánsstofnana versni ekki á árinu. Í samræmi við þessar forsendur sýnir áætlunin að verulega mun draga úr aukningu peningamagns og sparifjár á næsta ári, eins og jafnan gerist þegar peningaútstreymi úr Seðlabankanum er takmarkað. Verði aukning innstæðna meiri en hér hefur verið gert ráð fyrir vegna aukningar á sparnaði mun það gefa tilefni til endurskoðunar á stefnunni í peningamálum með hliðsjón af atvinnuástandi og stöðu atvinnuveganna. Þess er einnig að gæta, að skv. lánsfjáráætlun hafa útlánaáform fjárfestingarlánasjóða verið færð verulega niður frá upphaflegum áformum einstakra sjóða og reiknað er með að úr erlendum lántökum dragi árið 1976.

Ástæða er til að benda sérstaklega á, eins og fram kemur í skýrslunni, að lánsfjárþörf til ríkisframkvæmda 1976 er áætluð 9 milljarðar 770 millj. kr., en þar af er gert ráð fyrir að 2 milljarða 920 millj. kr. verði aflað innanlands, en 6 milljarða 850 millj. kr. erlendis. Séu talin saman þau lán, sem þegar eru heimiluð í lögum eða leitað hefur verið heimilda fyrir sérstaklega, nemur sú fjárhæð 5 milljörðum 160 millj. kr. og skortir því 4 milljarða 610 millj. kr. til að lánsfjárþörfinni sé fullnægt. Ríkisstj. leitar í einu lagi almennrar heimildar til þessarar lántöku og hefur það frv. verið samþ. nú á Alþ.

Í frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku vegna opinberra framkvæmda á árinu 1976 sem samþ. hefur verið, var gert fyrir að lagaheimildir skorti fyrir 3 milljarða 580 millj. kr. lántöku og var þá byggt á tölum fjárlagafrv. Skv. framangreindu þarf sú fjárhæð að vera 4 milljarðar 610 millj. kr. eða hækka um 1 milljarð og 30 millj. Breytingar hafa verið gerðar á því frv. sem ég gat um áðan.

Í þessum tölum um lánsfjáröflun til ríkisframkvæmda hef ég ekki talið framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar, en þær eru áætlaðar 4 milljarðar og 70 millj. kr. á árinu 1976. Lánsfjárþörf þeirra vegna er talin 3 milljarðar 470 millj. sem aflað verður með sérstökum erlendum lánum. Hugsanleg minni háttar lánsfjárþörf vegna framkvæmda Ríkisútvarps og Pósts og síma er hér ekki heldur meðtalin. Í samræmi við niðurstöður lánsfjáráætlunar fyrir fjárfestingarlánasjóði var einnig leitað heimildar til þess að taka lán að upphæð 2 milljarðar 45 millj. kr. erlendis til endurlána til Framkvæmdasjóðs. Þessi lántaka er í samræmi við útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1976 sem samþ. hefur verið af stjórn Framkvæmdastofnunarinnar. Að venju yrði endurlánaheimild þessi skoðuð sem ígildi ábyrgðarheimildar ef Framkvæmdasjóður tæki á eigin vegum lán erlendis innan þessa ramma.

Þess er vænst að lánsfjáráætlunin reynist varanleg framför í íslenskri efnahagsstjórn. Augljóst er að farsæl framvinda efnahagsmála er undir því komin að lánamálin í heild verði tekin föstum tökum. Þar skiptir meginmáli, þegar til lengri tíma er lítið, að útgjöldum þjóðarinnar sé haldið innan þeirra marka, sem tekjur setja, og verulega sé dregið úr erlendum lántökum. Með lánsfjáráætluninni hefur verið mótuð stefna í lánamálum fyrir árið sem fer í hönd. Frá henni verður ekki hvikað nema ný og breytt viðhorf kalli á formlega endurskoðun.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um þá skýrslu sem ríkisstj. hefur lagt fram um lánsfjáráætlun fyrir árið 1976.