19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

1. mál, fjárlög 1976

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. vakti ég sérstaka athygli á þeirri einstæðu meðferð sem landsbyggðarnemendur fengu í upphaflegu frv. til fjárl. fyrir næsta ár, þar sem upphæðin í fyrra, sem þá var allt of lág, var skorinn niður um 5%. Sannleikurinn er sá, að ef upphæðin hefði átt að vera í fullu samræmi við lög um jöfnun námsaðstöðu skólanemenda á síðustu fjárlögum, þ. e. a. s. fjárlögum þessa árs, hefði upphæðin þurft að nema um 140 millj. kr., en var 110 millj. samþ. í fyrra, eftir að felldar höfðu verið till. okkar stjórnarandstæðinga um fyrst fulla upphæð, 140 millj., og síðan nokkra lagfæringu eða 120 millj., enda brá mörgum skólanemanda í brún þegar dreifbýlisstyrkurinn svokallaði kom seint og síðar meir til úthlutunar í fyrravor, því að upphæðirnar voru þá litlu hærri en árið áður á hvern nemanda.

Ég skoraði við 2. umr. á hæstv. menntmrh. að bæta nú myndarlega hér úr og færa upphæðina sem næst því, sem hún þyrfti að vera, svo að lögin og reglugerð þeirra næðu nokkurn veginn tilgangi sínum. Nemendur í skólum hér í Reykjavík, sem skipta hundruðum, sendu frá sér kröftuga áskorun um þetta nú á dögunum, minnugir vonbrigða sinna frá því í fyrra og erfiðleika sumra þá og hafandi einnig í huga þá hraklegu meðferð sem þessi upphæð fékk í haust í frv. til fjárl. Sannarlega þurfti ég þá að lesa tvisvar til að trúa því, að þessa upphæð ætti nú beinlínis að lækka í krónutölu. Nú hefur meiri hl. fjvn. gert hér á nokkra bragarbót og hækkað upphæðina um 20 millj. frá því sem hún var í fyrra, og er það sennilega þrátt fyrir nemendafjölgun einhver smáhækkun í krónum á hvern nemanda. Ég efa ekki að hæstv. menntmrh. hafi beitt áhrifamætti sínum, þó að hann hafi ekki komist lengra vegna þeirrar stefnu sem ríkir í aðhaldi varðandi vissa nauðsynlega liði, þótt aðrir megi fara, að því er virðist, upp úr öllu valdi. Þessi lög voru sett í valdatíð Magnúsar T. Ólafssonar, hv. þm., og var þar myndarlega að staðið, n. fulltrúa allra flokka hafði samið frv. og orðið algerlega sammála um að styttra mætti ekki ganga. Við, sem í þeirri n. vorum, gerðum okkur vel ljóst að við gætum aldrei gengið svo langt að jafna að fullu metin milli þeirra, sem sækja skóla heiman frá sér daglega, og hinna sem þurfa að fara oft í fjarlægan landshluta til þess að nema og lifa þar við allt aðrar og dýrari aðstæður varðandi fæði og húsnæði að viðbættum oft ærnum ferðakostnaði. En við gerðum okkur von um að með lögunum væri þó verið að stíga stórt skref fram á við, ef undanbragðalaust yrði við þau staðið, þ. e. eins og segir í 1. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum.“

Þess má geta, að þetta var alveg sérstakt baráttumál Framsfl. og því einsýnt, að því er virtist, að þegar einn úr þeirra hópi sæti þar á æðsta tróni yrði vel fyrir öllu séð í þessum efnum. En því miður hefur það ekki gerst, og minn vitnisburður er hér ekki einn til frásagnar, þótt ég þekki mætavel til kjara fjölmargra þessara nemenda. Til er annar órækari og sannari vitnisburður eflaust, sem hæstv. menntmrh. hefði verið óhætt að taka á fullt mark. Aðalbaráttumanni þeirra framsóknarmanna á þingi í þessu máli, þeim manni sem lögin samdi, — þeim manni sem samkv. 3. gr. l. um námsstyrkjanefnd er í þeirri n. nú, fyrrv. alþm. Sigurvin Einarssyni. Hann er, eins og allir vita, hinn samviskusamasti maður og hefur framkvæmt könnun um kostnaðarauka nemenda samkv. 4. gr. laganna mjög ítarlega ár hvert. Samkv. áliti hans og nefndarinnar átti þessi upphæð í fyrra að nema um 140 millj. svo að hún héldi raungildi frá árinu á undan, en reyndin varð 110 millj. Nú setti hann fram sem algert lágmark þessa, miðað við hinar margumtöluðu erfiðu aðstæður þjóðarbúsins, töluna 180 millj. og rökstuddi það rækilega og óyggjandi, að ég hygg. En eftir sjálfsagða, en þó allt of litla lagfæringu fjvn. er þó upphæðin enn ekki nema 72% af þeirri lágmarkstölu sem námsstyrkjanefnd lagði til. þótt, eins og ég benti á áðan, þar hafi ekki verið um að ræða fulla fjárþörf samkv. skýrum ákvæðum 4. gr. laganna.

Við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þm. Karvel Pálmason viljum láta á þetta reyna, hvort enn eigi að senda nemendum, sem heiman þurfa að sækja sitt framhaldsnám, sömu köldu kveðjuna og í fyrra og þó sýnu kaldari nú. Við flytjum því brtt. á þskj. 244 um fulla þá upphæð sem námsstyrkjanefnd taldi raunhæfa sem algert lágmark. En af því að okkur er nú orðin kunn rausn hv. stjórnarþm. til ýmissa þeirra sem að einhverju leyti búa við lakari aðstöðu en aðrir flytjum við till. til vara um 150 millj. eða 83% þeirrar upphæðar sem fyrrv. þm. þeirra framsóknarmanna telur eina sæmandi fyrir Alþ. að samþykkja ef ætti að standa við áður gefin loforð að mestu leyti. Ég trúi vart öðru en þessi till. okkar, sem til vara er flutt, hljóti stuðning frá þeim landsbyggðarþm. sem mætavel vita við hvílíka erfiðleika hér er að etja hjá fjöldamörgum nemendum.

Á þskj. 274 hef ég leyft mér að flytja brtt. um framlag til dagvistunarstofnunar á Egilsstöðum ásamt hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. Mér er í raun algerlega óskiljanlegt að þarna skuli ekki vera upphæð undir þessum tíð, þótt smá væri, vegna þessarar byggingar. Ég veit að naumt var skammtað almennt til þessa þáttar eða innan við 50% þess sem talið var eðlilegt. Það hefur sennilega verið gert af klókindum vegna þess ætlunarverks ríkisstj. að færa þetta yfir á sveitarfélögin og hafa upphæðina þess vegna sem allra lægsta nú. Mér skilst að reglan hafi verið sú að taka aðeins þau heimili inn sem byrjað hefur verið á. En að þessu máli hefur verið þegar unnið svo að rétt hefði verið að gera hér á undantekningu. Á s. l. ári gerðist nefnilega það undarlega slys, að bréf frá þeim á Egilsstöðum lenti á skökkum stað í kerfinu og sat þar fast fram yfir afgreiðslu fjárl., en var þá komið á réttan stað. Þetta olli því, að í fyrra var ekkert framlag til Egilsstaða, yfirlýst eingöngu vegna þess að bréfið hefði ekki komist á réttan stað. En úr þessu var lofað að bæta. Heimild var gefin frá rn. um að hefja undirbúning og er því verki lokið, öll málsmeðferð í lagi og rn. að því er ég best veit, samþykkt öllu þar að lútandi. Þeir Egilsstaðamenn vissu ekki annað þar til í dag en að þetta mál væri í lagi. Það er að vísu rétt að þeir fylgdust verr með málum síðustu vikur, þegar alltaf lá — ekki í „láginni“, heldur í loftinu að þessi kostnaður yrði fluttur alfarið yfir á sveitarfélögin. Hér til viðbótar má svo nefna það, að ég man ekki betur en að í svari hæstv. menntmrh. við fsp. um dagvistunarstofnanir hafi það komið fram nokkuð skýrt að verið væri að hefjast handa um dagvistunarstofnun á Egilsstöðum. Þannig a. m. k. skildi sveitarstjóri þeirra Egilsstaðamanna það og treysti því enn frekar á framlag nú. Við getum því ekki annað séð en framlag til Egilsstaða hefði með réttu átt að vera þarna með og flytjum því brtt. um 2 millj. kr. framlag, ef vera kynni að einhverju yrði hér um þokað, og vísum þá beint til allrar forsögu þessa máls.

Ég vil einnig leyfa mér, vegna þess að það hefur fallið af einhverjum ástæðum niður, að flytja skriflega brtt. frá okkur hv. þm. Lúðvík Jósepssyni við 4. gr. fjárlagafrv., við liðinn bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva o. fl., að við sundurliðun bætist Djúpivogur, heilsugæslustöð 1 millj. Þeir Djúpavogsmenn eru langt frá þeim heilsugæslustöðvum sem þó eru nú í uppbyggingu. Þeir hafa óskað mjög eftir byrjunarframlagi. Það er ekki síst vegna þess að þeir lifa í stöðugri hættu á því að þangað fáist ekki læknar. Þetta mál hefur verið rætt meðal Austfjarðaþm. og hafa allir verið sammála um nauðsyn þessa, en við flm. vitum að hv. stjórnarþm. austan að eru bundnir hinu stífa og um margt ósanngjarna aðhaldi í framkvæmdum, sem einkennir þessi fjárlög, og geta því ekki verið hér þátttakendur, en eflaust hefðu þeir gjarnan viljað það. Við teljum þó fullkomlega rétt að hreyfa þessu máli vegna þess öryggisleysis, sem þetta fólk býr við, og því flytjum við þessa till., sem ég leyfi mér hér með að leggja fram til hæstv. forseta.