27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

60. mál, jafnrétti kynjanna

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu, að þessi þáltill. er fram komin, og fagna þeim áhuga á jafnrétti kynjanna sem hún sýnir, og þá má kannske í leiðinni óska hæstv. félmrh. einnig til hamingju með þann áhuga sem hann sýnir með því frv. sem hann boðar.

Áður en ég ræði þá till., sem hér er til umr., langar mig til að spyrja hæstv. félmrh. um það ríkisstjórnarfrv., sem mun væntanlegt næstu daga, og þá fyrst og fremst hverjir hafi verið til kvaddir að samningu þess frv.

Konur hafa lengi sýnt því áhuga að tryggja jafnan rétt í lögum og tryggja raunar með öðrum hætti að þau lög yrðu framkvæmd. Þannig hefur það gerst í Noregi að jafnlaunaráði var breytt í jafnréttisráð og starfssvið þess víkkað mjög. Ég hef ekki getað aflað mér nægilegra upplýsinga um hvernig þetta hefur reynst. Ég er þó þeirrar skoðunar að við eigum ekki að hætta við þessa baráttu eða sætta okkur við minna en ákvæði um jafnrétti kynjanna í stjórnarskrá, og að því vona ég að við íslendingar munum stefna.

Ég vil aðeins fara örfáum orðum um þá þáltill. sem hér liggur fyrir. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, fagna ég því að hún skuli komin fram. Ég verð hins vegar að játa að mér finnst hún ekki alveg nægilega vel unnin til þess að ég geti áttað mig á því, hver fengur yrði að samþykkt hennar, umfram nokkur atriði sem er alveg sjálfsagt að leiða í lög. þar á ég við auglýsingar um vinnu, að starfsauglýsingar megi ekki kyngreina, og þar á ég einnig við auglýsingar sem teknar eru fram í 5. lið, að auglýsingar megi ekki vera með þeim hætti, að í ósamræmi sé við grundvallarregluna um jafnrétti kynjanna, né heldur þannig, að þær særi siðferðisvitund annars hvors kynsins. Þessi atriði er alveg sjálfsagt að taka inn í slíka löggjöf.

Hins vegar er hér gert ráð fyrir að þessi löggjöf kveði fyrst og fremst á um þrjá þætti, þ. e. a. s. atvinnu og laun, menntun og svo það sem er e. t. v. óskilgreint, en mætti segja í rauninni að félli undir það sem kallaðist siðferðisvitund. A. m. k. fæ ég ekki séð að 5. liður geti fallið undir launaákvæðin eða menntunarákvæðin. Ég hefði gjarnan viljað að þetta hefði verið skýrar greint í þessari þáltill., til þess að sú n., sem fær hana til meðferðar, ætti betra með að átta sig á hvað fyrir flm. vakir.

Að hinu leytinu hef ég líka þá gagnrýni fram að færa varðandi þessa þáltill., að mörg ákvæði hennar eru þegar fyrir í lögum og það veit raunar hv. 1. flm. og frsm. Hann tók raunar fram áðan, en meiningin hjá honum er að sameina öll þessi ákvæði í eina heildarlöggjöf. En þá vaknar raunar spurningin, þegar Jafnlaunaráð sjálft er dregið þarna inn í, hvort ætlast sé til þess að Jafnlaunaráð sé sú stofnun sem eigi að tryggja framkvæmd og eftirlit með þessari löggjöf og víkkað þannig verksvið þess eða ætlast sé til þess að einhver ný stofnun komi þarna til og Jafnlaunaráð verði þá eftir sem áður eingöngu með sitt verkefni. Þetta er held ég atriði sem við þurfum að gera okkur grein fyrir.

Ég vil fyllilega taka undir þau orð hv. frsm., að Jafnlaunaráð hefur því miður aldrei fengið það fjármagn sem þarf til þess að sinna sem vert væri og eins og ég veit að ráðamenn hefðu gjarnan viljað þeim verkefnum, sem því eru falin samkv. lögum. Sú hækkun, sem Jafnlaunaráð fékk núna við afgreiðslu fjárlaga, var að vísu einhver, þó ekki meiri en svo að fjárveitingin hélt raungildi sínu en var í rauninni ekki um neina raunhæfa hækkun að ræða og því vafasamt hvort Jafnlaunaráði tekst það ætlunarverk sitt að ráða starfsmann, sem er alveg tvímælalaust nauðsynlegt að það hafi. Störf Jafnlaunaráðs eru unnin í hjáverkum af ráðsmönnum og verða þeir að nota tómstundir sínar til þess að vinna þessi mjög svo nauðsynlegu verk.

Ég ítreka stuðning minn við þessa þáltill. Ég ítreka það, að ég hefði gjarnan, úr því að þetta mál er til umr. hér, viljað fá meira að vita um það frv. sem hæstv. félmrh. var að boða. Við hefðum þá e. t. v. getað haft ítarlegri umr. um þetta mál hér í dag.