03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Þegar þau lög, sem hér er um rætt, voru drifin í gegn með vægast sagt óvenjulegum hraða miðað við það sem algengt er hér á þessum stað, þá leyfi ég mér að efast um að leitað hafi verið sem skyldi álits þeirra sem njóta eiga, þ. e. a. s. kvenna, og vitað er að ekki var tekið tillit til skoðana þeirra sem ráða eða raunar eiga Atvinnuleysistryggingasjóðinn, verkalýðshreyfingarinnar. Það kom oft fram í þessum umr. að ráðamenn þess sjóðs voru atgjörlega á móti því að fæðingarorlofið yrði greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóðnum (Gripið fram í). Ekki tefja mig, ég hef lítinn tíma hér. — Enda er nú komið í ljós að þessi framkvæmd verður ómöguleg eins og hún var hugsuð og sennilega megum við bíða eitt ár enn eða tvö ef bíða á eftir þeirri n. sem hæstv. ráðh. talaði hér um. Það vill nú svo til að ég á sæti í henni, og það er algjörlega fyrir séð að hún verður ekki búin að skila neinu verki í haust og varla um næstu áramót. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér, svo að fái fram að koma fyrir hv. þm., dæmi um vilja kvenna í þessum efnum. Hann kom fram oft á síðasta ári, á ýmsum fundum og ráðstefnum sem haldnar voru m. a. í tilefni kvennaárs, og ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp það sem ég hef tíma til.

Það er fyrst ráðstefna A. S. B., Félags afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum, Iðju, Starfsstúlknafélagsins Sóknar, Starfsmannafélags ríkisstofnana og Rauðsokkahreyfingarinnar um kjör láglaunakvenna sem haldin var í jan. Þar kom m. a. fram í áliti frá þeirri ráðstefnu:

„Ráðstefnan krefst þess, að allar konur njóti a. m. k. þriggja mánaða fæðingarorlofs á fullum launum, og lítur svo á að eðlilegast sé að framkvæmd falli undir tryggingakerfi ríkisins.“

Og með leyfi forseta áfram: Ráðstefna um kjör kvenna til sjávar og sveita, sem haldin var í Neskaupstað í apríl, samþ. svo hljóðandi ályktun :

„Ráðstefnan telur sjálfsagt að allar konur í atvinnulífinu fái þriggja mánaða fæðingarorlof á launum, en mótmælir því harðlega að sjóðum verkafólks, svo sem Atvinnuleysistryggingasjóði, sé ætlað að standa undir slíkum greiðslum. Eðlilegt er að greiðslur falli undir almannatryggingakerfið. Sjálfsagt er að fæðingarstyrkur gangi óskertur til kvenna.“

Það er lítið eftir, herra forseti. Stóra kvennaráðstefnan í tilefni ársins, sem haldin var að Hótel Loftleiðum, samþ. svo hljóðandi ályktun:

„Ráðstefna kvennaárs, haldin á Hótel Loftleiðum dagana 20.–21. júní 1975, mótmælir því, að sú mismunun sé gerð á íslenskum konum að fé til að greiða fæðingarfrí verkakvenna skuli tekið úr sameiginlegum sjóði verkafólks sem ætlað er annað verkefni, meðan þær, sem vinna hjá ríki og bæ, fá það greitt af almannafé. Ráðstefnan telur eðlilegast að fæðingarfrí á launum til allra kvenna verði fellt inn í almannatryggingar.“

Og að lokum samþykkti Verkamannasambandið svo hljóðandi ályktun:

„7. þing Verkamannasambands Íslands, haldið í Reykjavík dagana 21.–23. nóv. 1975, mótmælir því ranglæti sem íslenskum konum er gert með því að fé til greiðslu á fæðingarorlofi verkakvenna er tekið úr almennum sjóði verkafólks, Atvinnuleysistryggingasjóði, en sams konar orlof þeirra, sem vinna hjá ríkinu eða sveitarfélögum, er greitt af almannafé. Jafnframt vekur þingið athygli á því misrétti sem þeim konum er sýnt, er eingöngu sinna vinnu á heimilum sínum, en þær fá ekki greitt neitt fæðingarorlof. Þingið telur eðlilegt og sjálfsagt að fæðingarorlof allra kvenna greiðist af almannatryggingum, en fé til þeirra greiðslna komi frá atvinnurekendum.“